Finnst vandræðalegt að stunda kynlíf

Hvernig getur konan notið þess að sofa hjá kærastanum sínum?
Hvernig getur konan notið þess að sofa hjá kærastanum sínum? Ljósmynd/Unsplash/Julia Taubitz

Kyn­fræðing­ur­inn Sigga Dögg sem rek­ur vef­inn betra­kyn­líf.is svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurningu frá 24 ára konu sem finnst vandræðalegt að stunda kynlíf. Sigga gefur henni góð ráð. 

Sæl Sigga,

Ég er 24 ára og mér finnst vandræðalegt að stunda kynlíf, ég held að það sé af því að mér líður ekki vel með líkamann minn en mig langar að geta notið þess að sofa hjá kærastanum mínum, hvað get ég gert?

Sigga Dögg kynfræðingur rekur vefin Betra kynlíf.
Sigga Dögg kynfræðingur rekur vefin Betra kynlíf. mbl.is/Árni Sæberg

Sæl mín kæra,

byrjum á einu, kynlíf getur verið vandræðalegt fyrir okkur öll, óháð því hvernig við lítum út. Bara svo það sé sagt. Það er margt sem getur gert kynlíf vandræðalegt (svipbrigði, stellingar, hljóð, lykt, líkamsvessar, hugsanir - listinn er endalaus!), þú er langt frá því að vera ein í þessari upplifun.

En skoðum nú þetta með líkama þinn. Líkamar eru allskonar, eins og þú veist. Það sem er verðugt verkefni fyrir þig er að læra að njóta þíns líkama eins og hann er. Læra að vera í honum án þess að dæma hann og án þess að tala hann niður eða refsa þér. Þegar við tölum um heilbrigt líferni þá erum við ekki að tala um megrun eða ákveðið útlit. Við erum að tala um að líða vel í eigin skinni, leyfa okkur jákvætt sjálfstal og að fara vel með okkur. Þá á ég við að gefa líkamanum mat sem inniheldur næringu, passa að fá nægt ferskt loft yfir daginn, fá smá líkamlega útrás, vökva sig með vatni, rækta andann með því að tala við fólk sem þér þykir vænt um og þykir vænt um þig og passa að sofa vel.

Þetta er markmið sem við getum sett okkur fyrir flesta daga, suma daga tekst það og aðra ekki, og það er allt í lagi. En það er gott að muna að við búum í samfélagi sem styður lítið við það að líða vel í eigin skinni og stöðugt er troðið upp á okkur hugmyndum um hvernig við eigum að vera. Galdurinn er hins vegar að reyna að líða vel eins og maður er. Allavega að líða ekki illa með það. Stundum tekst það og stundum ekki.

Ég segi oft við konur, já konur tala mjög mikið um akkúrat þetta sem þú spyrð um, að ég vildi óska að þær gætu séð sig sjálfa með augum makans. Mig grunar að í augum kæró ert þú falleg og frábær með æðislega æsandi kropp. Nú er það þitt að trúa því og þagga niður í neikvæðu sjálfstali því það þjónar þér ekki. Þú þarft ekki að vakna á hverjum morgni og öskra ÉG ER SEXÍ! En ef þú vilt það, þá máttu það. Mig langar að hvetja þig til að grípa þessar neikvæðu raddir og þeirra athugasemdir og biðja þær að grjóthalda kjafti. Með tíð og tíma væri svo gott að skipta neikvæðum niðurrifs athugasemdunum fyrir jákvæðar. Þetta er verkefni sem enginn getur gert nema þú og stundum þarf að kyrja í mörg ár, oft á dag -ég má vera eins og ég er, ég má vera eins og ég er-. Leyfðu þér að fagna eigin fegurð, setja slaka í axlirnar og hugsanirnar og sjá þig með augum kæró.

Góða skemmtun og gangi þér vel!

Kynlífskveðja

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál