„Ég hataði manninn minn og svo dó hann“

Rebecca Woolf rithöfundur syrgir ekki eiginmann sinn.
Rebecca Woolf rithöfundur syrgir ekki eiginmann sinn. Skjáskot/Instagram

Rebecca Woolf rithöfundur þráði lengi að fara frá eiginmanni sínum. Hjónabandið var óhamingjusamt og þau töluðust vart við þegar hann veiktist skyndilega. 

„Þetta gerðist svona, einn daginn var allt í lagi með hann og næsta dag var hann að deyja. Viku fyrir greiningu fann hann til í maganum. Hann hélt að þetta væri bara streita. Nokkrum dögum síðar fór hann til læknis og taldi hann hafa gallsteina. Þremur dögum síðar var hann á bráðamóttöku þar sem krabbamein í brisi greindist. Krabbameinið hafði dreifst sér í lifrina og eitlana,“ segir Woolf í pistli sínum í The Times.

„Allt í einu þyrmdi yfir mig og ég mundi eftir öllum rifrildunum, góðu stundunum og slæmu. Ég sem hafði þráð að vera án hans. En þarna sá ég eftir öllu.“

Var sjarmerandi í fyrstu

„Þegar við kynntumst fyrir þrettán árum þá var hann fyndinn og sjarmerandi og ég eiginkonan sem hann þráði. Ég var frekar passív og þægileg og eldaði dýrindis máltíðir öll kvöld. Babb kom í bátinn þegar frami minn fór á flug. Ég framfleytti fjölskyldunni auk þess sem ég sá alfarið um börnin okkar fjögur. Ég vaknaði allar nætur með börnunum meðan hann svaf værum blundi. Pressan á mig var gríðarleg. Hjónabandið var bara gott þegar ég var tilbúin til þess að gera allt í mínu valdi til þess að halda honum góðum. Ég átti bara að brosa og þykjast að allt væri í fínu lagi.“

„Hann fór í fýlu ef ég þénaði ekki nóg og svo fór hann líka í fýlu ef ég þénaði of mikið. Þá hafði ég engan aðgang að fjármálum okkar og hafði ekki hugmynd um hvað við hefðum efni á. Eftir að hann lést þá tók það mig ár að fá aðgang að reikningunum okkar.“

Skammaðist sín fyrir að hafa valið hann

„Ég átti það til að afsaka hann á fyrstu árum hjónabands okkar. Hann átti það til að öskra á mig og börnin fyrir framan fólk. Mitt hlutverk var að róa hann og reyna að koma í veg fyrir að slíkt gerðist. Þegar ég sá að eitthvað var að byrja að pirra hann reyndi ég að tala rólega og halda mér til hlés.“

„Ég skammaðist mín. Ekki fyrir hann heldur fyrir það að ég skyldi hafa valið hann. Ég valdi mann sem öskraði á mig og börn sín á almannafæri. Ég valdi þetta líf. Ég hélt að ég væri svo hugrökk að vera með honum fyrir börnin. En það er aldrei rétt að vera með röngum manni.“

Kenndi sér um krabbameinið

„Í fyrstu var ég viss um að ég hefði valdið honum krabbameininu. Öll streitan sem ég olli honum hafði fengið krabbamein til að myndast. Ég var honum ótrú og átti í fjöldan allan af ástarsamböndum. Bæði þegar vel gekk í hjónabandinu og eftir að það súrnaði.“

Hefur sjaldan liðið betur en eftir að hann dó

„Ég man lítið eftir jarðaförinni. Það eru til margir stuðningshópar fyrir fólk sem hefur misst maka sinn en mér þætti það hræsni að fara. Hvað skyldi fólk halda ef það vissi að mér hefur sjaldan liðið betur en eftir að hann féll frá? Fólk spyr mig hvernig ég hef það og ég fer að gráta því ég get ekki verið hreinskilin. Ég segi þeim bara það sem það vill heyra. Fólk kom til mín með bækur um sorg og missi en það gerði bara illt verra. Mér fannst ég vera siðblind. Skrímsli,“ segir Woolf sem ritað hefur bók um missinn og hvernig hún hefur tekist á við hann.

mbl.is
Loka