Er hægt að vera of fallegur?

Antonella Gambotto-Burke ásamt dóttur sinni.
Antonella Gambotto-Burke ásamt dóttur sinni. Skjáskot/Instagram

Stundum getur fegurðin verið byrði eins og Antonella Gambotto-Burke hefur mátt þola. Kærastarnir treystu henni aldrei og nú þegar hún er orðin 56 ára og fegurðin tekin að fölna þá líður henni vel.

Fallegar konur lenda í ömurlegum karlmönnum

„Ég var ósköp venjulegt barn en þegar ég nálgaðist unglingsárin grenntist ég og andlitsdrættirnir breyttust. Margir héldu að ég hefði farið í nefaðgerð. Ég var orðin falleg. Þrátt fyrir þetta fannst mér ég óaðlaðandi og skildi aldrei afhverju karlmenn voru sífellt að reyna við mig. Karlmenn komu almennt illa fram við mig. Flestar fallegar konur lenda í ömurlegum karlmönnum. Sumir voru illgjarnir, aðrir særandi og sumir urðu eltihrellar,“ segir Gambotto-Burke af reynslu sinni sem falleg kona.

„Þeir sökuðu mig um að halda framhjá og einn kenndi mér um það hvernig aðrir karlmenn góndu á mig. Eitthvað sem ég gat engan veginn ráðið við. Rauði þráðurinn var afbrýðisemi.“

„Ég skildi ekki hvað málið var. Það er rétt núna sem fólk er að segja mér að það sé út af fegurð minni. Ég vissi ekki að ég væri falleg. Enginn sagði mér það á þeim tíma.“

Forðaðist öll sambönd

„Ég fór að forðast öll sambönd. Einbeitti mér að vinum og vinnunni. Vinkonur mínar sem voru bara venjulegar í útliti áttu allar góð sambönd þar sem þær gátu upplifað öryggi og upplifað ást á eigin forsendum. Þegar ég lít til baka sé ég líka að þær löðuðust að öðruvísi mönnum, mönnum sem voru sjálfsöruggari og ekki eins „alpha“. 

„Ég vann fyrir kvennatímarit og hitti þá ótal fagrar konur en þær áttu það allar sameiginlegt að karlmenn komu alltaf illa fram við þær. Það var stöðugt verið að áreita þær og halda framhjá þeim. Lögmálið virtist vera, því fallegri sem konan er því verr er komið fram við hana.“

Vildu fallega konu en þoldu ekki álagið sem fylgdi því

„Karlarnir þráðu að hafa fallega konu á arminum sem tákn um stöðu þeirra í samfélaginu en á sama tíma gátu þeir ekki afborið þá tilhugsun um að aðrir gætu þráð hana líka. Eitt sinn spurði ég kærasta minn afhverju hann kæmi svona illa fram við mig þá svaraði hann „Treat them mean, keep them keen.“ Hann hélt sem sagt að besta leiðin til að halda í konu væri að lækka í henni rostann öðru hvoru og draga úr henni.“

Fann ástina þegar fegurðin dvínaði

Það var ekki fyrr en um fimmtugt sem Gambotto-Burke fann ástina. „Líf mitt breyttist í einni svipan þegar ég hitti hann. Hann var ástríkur, fyndinn og léttur í lund. Við hlæjum saman og erum kjánaleg. Ég held að þetta samband sé til komið vegna þess að ég er loks orðin nógu venjuleg í útliti. Nú er enginn hræddur um að ég verði tekin frá þeim af einhverjum enn myndarlegri. Ógnin er farin.“

mbl.is