Viðhaldið hætti með honum og hann í rusli

Lífið getur verið flókið þegar maður á í leynilegum ástarsamböndum.
Lífið getur verið flókið þegar maður á í leynilegum ástarsamböndum. mbl.is/Thinkstockphotos

Maður leitar ráða vegna þess að kona sem hann átti í leynilegu ástarsambandi við hætti með honum. Sjálfur er hann giftur en hin konan er það ekki.

Ég átti í ástarsambandi í tvö ár. Hún hætti með mér fyrir ári síðan og ég er í öngum mínum. Ég elska hana svo heitt og vil vera með henni. Hún hætti með mér því hún var viss um að ég myndi aldrei fara frá eiginkonunni. Ég vildi hins vegar taka minn tíma til þess að tryggja að eiginkona mín og dóttur færu vel úr skilnaðinum. 

Samband mitt og eiginkonunnar er í raun lokið og nándin er engin og við erum saman út af dóttur okkar. Svo er ég með stöðugt samviskubit því ég elska svo hina konuna.

Þetta tekur mikinn toll á mig andlega og líkamlega. Ég á erfitt með að einbeita mér og hef verið með sjálfsvígshugsanir. Hin konan vill ekkert með mig hafa sem lætur mér líða enn verr því ég hef misst ástina í lífi mínu. 

Hvernig kemst ég í gegnum þetta?

Svar ráðgjafans:

Þetta er flókin staða og ekkert eitt einfalt svar við þessu. Fyrst ættirðu samt að leita til þíns heimilislæknis og ræða þína andlegu líðan. Þú ert í viðkvæmu ástandi og það þyrmir yfir þig. Það að þér líður svona illa líkamlega bendir til þess að kvíðinn sé kominn langt út fyrir það sem telst eðlilegt.

Þetta misræmi í hegðun þinni, þ.e. að vilja vera með hinni konunni en vera enn með eiginkonunni fær þig til að líða illa. Þér finnst þú fastur. Þú verður að minnka þetta misræmi annað hvort með því að taka af skarið eða breyta hugsunarhætti þínum.

Ég ráðlegg þér að leggja spilin á borðið gagnvart bæði eiginkonunni og hinni konunni og virða ákvarðanir þeirra beggja. Það er erfitt en nauðsynlegt.

Þú tekur fyrir eitt samband í einu. Byrjar á hjónabandinu. Þið ræðið saman um vandann sem þar er til staðar og komist að niðurstöðu hvort það sé eitthvað fyrir hendi til þess að vinna úr og bjarga eða ekki. Kannski mun hún ekki geta unnið sig í gegnum særindin en hún á samt rétt á sannleikanum.

mbl.is