Vill kasta rúnkmúffunni

Skemmtileg umræða hefur skapast um orðið „rúnkmúffa“ inni á Markaðsnördum. …
Skemmtileg umræða hefur skapast um orðið „rúnkmúffa“ inni á Markaðsnördum. Til vinstri má sjá hefðbundna múffu, en til hægri ákaflega smekklega „rúnkmúffu“. Samsett mynd

Orðið múffa kemur reglulega upp í auglýsingum á netinu, sjónvarpi og útvarpi um þessar mundir. Það eru þó ekki allar múffur eins, líkt og Gísli nokkur Jóhann benti á inn á hópnum Markaðsnördar á Facebook. Þar leggur hann til að fyrirtæki sem selja kynlífsleikföng hætti að nota orðið múffa og leyfi bakarameisturum að eiga orðið.

Gísli bendir á að orðið bollakaka sé vissulega til yfir enska orðið „muffin“ en að það hafi þó ekki náð að festa sig í málinu. Rúnkmúffa er á ensku yfirleitt kallað „fleshlight“ og væri því nærtækast að þýða það sem vasaljós. 

„Ég get séð hvernig gervipíka er ekki söluaukandi orð, ekki frekar en gervilimur og hvað þá rúnkmúffa, þannig mér datt í hug nokkur önnur orð sem ég vil stinga uppá: Rúnkráður, handleikur, hjálmfægir, reðslíður, lókamósjon, sjálfsstrokkur og hasarvasar,“ skrifar Gísli í færslu sinni og býður öll orðin án endurgjalds til sölumanna hjálpartækja ástarlífsins. 

Gerður fylgist með

Gerður Arinbjarnar, eigandi kynlífstækjaverslunarinnar Blush, þakkaði Gísla fyrir færsluna í athugasemd. Hún segir segir umræðu hafa átt sér stað innan fyrirtækisins um hvort ekki væri hægt að finna betra orð yfir múffurnar sem þau eru með í sölu. Hins vegar hafi ekkert gott orð komið hingað til. 

„Hlakka til að fylgjast með hvort það komi ekki eitthvað skemmtilegt út úr þessu og mögulega náum við að losa okkur loksins við múffuorðið,“ skrifar Gerður.

Ekki er skortur á góðum hugmyndum undir færslu Gísla og hafa orðin vasapjalla, ferðapjalla og partípjalla komið fram. 

mbl.is

Bloggað um fréttina