Var hent út 14 ára gamalli og þá fór allt á verri veg

Aður Vilhjálmsdóttir hefur verið án vímuefna í 15 ár.
Aður Vilhjálmsdóttir hefur verið án vímuefna í 15 ár.

Auður Vilhjálmsdóttir er 37 ára, tveggja barna móðir úr Breiðholti. Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman. Auður var ung þegar hún byrjaði að flýja slæma líðan sína og heimilisaðstæður en aðeins 13 ára drakk hún sig dauðadrukkna og endaði ælandi í „blackouti“ en fann samt sem áður að þetta vildi hún gera aftur sem fyrst.

Foreldrar Auðar voru ung þegar þau áttu hana en móðir hennar var orðin þriggja barna móðir aðeins 21 árs. 

„Ég veit að þau gerðu sitt besta en það var algjör heragi hjá pabba, mikið andlegt ofbeldi og líka líkamlegt,“ segir hún og bætir við að hún hafi samt líka upplifað að hún væri elskuð. 

Auði gekk illa í skóla og var sem barn hljóðlát og lítið fór fyrir henni. 

„Ég ákvað þegar ég varð unglingur að láta ekki ganga yfir mig lengur og fór í uppreisn. Það var alltaf allt brjálað heima þar til mér var hent út, 14 ára gamalli,“ segir hún. 

Auður leitaði til Rauða krossins eftir að hafa gist hjá vinkonu en ef illa stóð á þar þurfti hún að sofa úti eða í grenum þar sem fólk í harðri neyslu hélt til. 

Á þessum tíma brást skólakerfið, barnavernd, fjölskyldan og Auður sökk dýpra í neyslu og var orðið sama um sjálfa sig og sín örlög. 

Aðeins 19 ára fór hún í sína fyrstu meðferð eftir nokkur stór áföll. Á þeim tíma vissi hún ekki hvað meðferð var en það hljómaði vel að vera örugg, fá að sofa í rúmi og fá að borða. Alls fór hún í þrjár meðferðir á stuttum tíma. Auður segir frá því að faðir hennar hafi komið til hennar stuttu áður en hún fór í fyrstu meðferðina. Þá hafði hún ekki talað við foreldra sína lengi. 

„Hann sagði að þau, mamma og pabbi, vildu vita af mér og ég upplifði að einhverjum þætti vænt um mig eða að þau væru ekki búin að gleyma mér,“ segir hún. 

Í dag hefur Auður hefur verið í bata frá vímuefnavanda í 15 ár og segist eiga Dyngjunni mikið að þakka. Þar bjó hún í tvö ár sem hafa lagt grunn að því lífi sem hún lifir í dag. 

„Ég var alltaf ein með strákunum og þeir pössuðu mig en samt brutu þeir auðvitað oft á mér líka. Ég hélt samt að ég gæti aldrei eignast vinkonur en á Dyngjunni kynntist ég dásamlegum stelpum og eignaðist vinkonur,“ segir hún. 

Bati er aftur á móti stanslaus vinna, lífið heldur áfram að gerast og Auður segir okkur frá þeirri vinnu, áföllum og hamingju sem hefur komið í hennar líf á þessum 15 árum.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál