Guðni drakk og reykti mikið

Guðni Gunnarsson er gestur Sölva Tryggvasonar.
Guðni Gunnarsson er gestur Sölva Tryggvasonar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Guðni Gunnarsson, stofnandi og upphafsmaður Rope Yoga er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Guðni hefur verið frumkvöðull í heilsu svo áratugum skiptir. Hann rak sig snemma á veggi, sem olli því að hann fór að skoða eigin heilsu og leiðir til að líða betur.

„Ég var kappsamur og ástríðufullur sem unglingur, en kem úr umhverfi þar sem var mikil neysla og móðir mín var fárveik, en kenndi mér samt mikla ást. Pabbi minn var góður maður og vel gefinn, en hann var mikið fjarverandi sem sjómaður og báðir foreldrar mínir þjáðust mikið. 15-16 ára gamall var ég svo sjálfur kominn í neyslu. Bæði drakk og reykti mikið. Ég var svo ástríðufullur og kappsamur í öllu að ég áttaði mig mjög fljótt á því að ef ég næði ekki tökum á þessu myndi ég valda mér miklum skaða.”

Hann fann fljótt að hann vildi frekar hella sér út í heilsu og hefur ekki snúið til baka síðan. Guðni man tíma í heilsu þar sem fólk nánast skammaðist sín fyrir að byggja upp vöðva eða skokka.

„Ég keypti Heimaval, sem var ein fyrsta verslunin með líkamsræktartæki á Íslandi. Þetta var ákveðið feimnismál og menn voru að fela tækin undir rúmi af því að það mátti engin sjá líkamsræktartæki. Það var feimnismál að stunda eitthvað annað en bara hreinar íþróttir. En ég fékk mikið af upplýsingum í gegnum erlend tímarit og þar var þetta komið miklu lengra. Ekki síst í Californiu, enda átti ég eftir að flytja þangað síðar,” segir Guðni, sem var algjör frumkvöðull í heilsu á Íslandi. 

„Ég er búinn að vera meira og minna að hugsa um heilsu frá blautu barnsbeni. En þó að ég hafi verið á fullu í líkamsrækt og verið að vinna með fólki þar, fann ég mjög snemma að öndunaræfingar nærðu mig enn meira. Ég fór að finna að viðhorf manns til æfinganna skiptu ekki síður máli en bara æfingarnar sjálfar. Ég fór upp frá því að hugsa um hreyfingu í vitund og að byrja að þróa æfingar sem gengu út á að tengja vitund og líkamann saman. Það var í raun upphafið að Rope Yoga.“

Guðni man eftir tímabilinu þegar Jón Páll heitinn Sigmarsson var uppi á sitt besta.

„Jón Páll var bara algjör goðsögn og við skildum ekkert í því hvernig hann fór að þessu. Að skipta úr vaxtarrækt yfir í kraftlyftingar og kraftakeppnir eins og hann gerði er eitthvað sem hefur hvorki verið gert fyrr né síðar. Hann gekk gríðarlega nærri sér og var með vinnusemi og keppnisskap sem er eiginlega ekki hægt að skilja. En mér fannst  vaxtarræktin aðeins of öfgafull fyrir minn smekk, enda er líklega engin íþrótt þar sem fólk gengur jafn langt. Ég fann að áhugi minn lá fljótt meira í átt að Yoga, öndun og almennri heilsurækt.“

Hægt er að hlusta á brot úr þættinum á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál