Vill ekki fara að búa því börnin hennar eru svo leiðinleg

Íslenskur maður treystir sér ekki tl að fara að búa …
Íslenskur maður treystir sér ekki tl að fara að búa því börn kærustunnar eru svo leiðinleg að hans mati. Jenny Hill/Unsplash

Theodór Francis Birgisson, klínískur félagsfræðingur hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem er ósáttur við konu sína. 

Sæll Theodór. 

Ég er maður á miðjum aldri. Ég hef verið kvæntur tvisvar og þessi hjónabönd hafa ekki endað vel. Þau hafa bókstaflega sprungið í loft upp og ég setið eftir í reyknum og ekki vitað nákvæmlega hvað gerðist. Núna er ég í sambandi við konu sem er líka fráskilin. Samanlagt eigum við sjö börn og hún sækir það mjög stíft að við förum að búa. Ég er ekki tilbúinn til þess því mér finnst börnin hennar frekar heimtufrek og leiðinleg. Hvernig get ég haldið áfram að vera með henni án þess að gefa mig með það að við förum að búa? Eða er ég kannski ekki nógu spenntur fyrir henni fyrst ég vil ekki vakna með henni á hverjum morgni?

Kveðja, 

Theodór Francis Birgisson er klinískur félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur. Hann starfar …
Theodór Francis Birgisson er klinískur félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur. Hann starfar sem ráðgjafi hjá Lausninni.

Sæll J.  

Það eru talsverðar líkur á því að þú hafir gert eitthvað rangt í þessum parsamböndum og að þú eigir þinn þátt í að þau hafa ekki gengið. Það eru hins vegar engar líkur á að þú berir einn ábyrgðina á því að þetta hefur ekki gengið upp. Það er mikilvægt fyrir þig að þora að horfa í eigin barm og spyrja þig hvað þú hefðir getað gert betur og breyta því þá í núverandi sambandi. Hvað varðar þetta nýja samband þá þarftu að finna út hvort konan sem þú ert með sé kona sem þig langar að verða gamall með eða ekki.

Ef þú vilt ekki verða gamall með henni myndi ég ráðleggja þér að finna út hvað þú vilt fá út úr þessu sambandi. Ef hún er síðan með allt aðrar hugmyndir þá er nokkuð ljóst að þið eigið ekki samleið og þá myndi ég ekki fara með það lengra.

Sum pör velja að vera í fjarbúð til lengri tíma og það gengur ef þið eruð sammála um það, annars ekki. Ef þið hins vegar viljið það sama út úr sambandinu og viljið verða gömul saman þá þurfið þið að taka umræðuna um öll börnin ykkar, bæði þessi skemmtilegu og þessi leiðinlegu. Þetta snýst allt um að taka samtalið sem jafningjar og finna út hvað þið viljið. Gangi þér vel með þetta allt saman.

Kær kveðja,

Theodór 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Theodór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál