Fór í djúpt þunglyndi eftir að pabbi hennar fyrirfór sér

Margrét Friðriksdóttir stofnar nýjan fjölmiðil.
Margrét Friðriksdóttir stofnar nýjan fjölmiðil. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Friðriksdóttir er nýjasti gesturinn í nýjasta Podcastþætti Sölva Tryggvasonar. Hún segir í þættinum frá erfiðasta tímabilinu í lífi sínu. 

„Ég var í algjöru andlegu þroti í nánast fjörgur til fimm ár samfellt eftir að pabbi minn svipti sig lífi. Þetta var tveimur dögum fyrir 18 ára afmælisdaginn minn og við bjuggum saman og vorum mjög náin. Hann var drykkfelldur og var svona túrakall og fór niður í mikið þunglyndi á köflum. Það var einn af þeim dögum sem hann ákvað að fyrirfara sér. Hann var ekki bara pabbi minn, heldur líka besti vinur minn og líf mitt hrundi bara. Ég var á slæmum stað lengi og fór niður í djúpt þunglyndi. Ég hafði fram að því haft mikið öryggi og búið við góðar aðstæður, en þarna breyttist allt bara á einum degi og ég var engan vegin undir það búin. Ég reyndi lengi að deyfa mig með því að drekka meira og prófaði alls kyns efni, en sem betur fer fann ég mig ekki í sterkari efnunum. En það að drekka ofan í svona mikla vanlíðan er líklega það versta sem hægt er að gera og það lengdi bara tímann sem ég var í dalnum.“

Margrét segist hafa verið lengi að reyna að finna fæturna eftir þetta, en það hafi ekki verið fyrr en hún fór til Indlands sem hún fór að finna sig aftur. 

„Ég endaði á því að fara til Indlands, þar sem ég náði loksins að byrja að byggja mig andlega upp. Ég ferðaðist um allt Indland og var þar lengi, bæði í Góa, uppi hjá Himalaya-fjöllunum, í Varanasi og á fleiri stöðum. Indland er nánast eins og miðstöð af alls konar trúarbrögðum og ég fór að leita mikið og prófaði mig áfram í fleiri en einni tegund af trúarbrögðum. Ég skoðaði helstu hofin hjá Hindúum og fór síðan til Manali þar sem Dalai Lama býr til að kynna mér búddismann. Svo kynntist ég Ísraelum og og fór með þeim að skoða Synagógur með þeim. Í raun kynnti ég mér flest trúarbrögð önnur en þau sem ég ólst upp með á Íslandi. Þess vegna er það hálf fyndið að ég hafi síðan endað á að finna mig í kristninni. Fyrst var ég mjög lokuð þegar mér var gefin biblía og tengdi kirkjuna fyrst og fremst við skírn og jarðarfarir. En síðan gerist það að ég verð fyrir upplifunum sem sannfærðu mig algjörlega og eftir það hefur ekki verið aftur snúið.“

Margrét hefur um árabil verið mjög umdeild fyrir skoðanir sínar og er alls ekki allra. Þegar hún er spurð hvort miðillinn hennar, frettin.is, sé ekki gagngert að búa til pólariseringu vill hún ekki alveg játa því, en segir að vissulega sé markmiðið að vera hinum megin við línuna. 

„Ég get alveg játað því að við erum að segja fréttir sem eru ekki sagðar annars staðar og þar af leiðandi erum við auðvitað á hinum pólnum miðað við aðra fjölmiðla. En ég lít bara svo á að það sé nóg af hinum miðlunum, en einhver þurfi að taka að sér það hlutverk sem við erum í,” segir Margrét, sem segir það hark að reka fjölmiðil á Íslandi:

„Við fengum í byrjun fjárfesti á bakvið okkur og fengum aðstoð með húsnæði og þvíumlíkt, en við höfum mest reynt að treysta á almenning. En það er auðvitað hark að reka fjölmiðil á Íslandi og það verður líklega enginn ríkur á því.“

Hægt er að hlusta á podcast Sölva Tryggvasonar á hlaðvarpsvef mbl.is. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál