15 atriði sem fólk með gott sjálfstraust gerir ekki

Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.

„Ef það væri eitthvað eitt sem ég ætti að nefna að væri algengasta vandamálið hjá þeim hundruðum aðila sem ég hef hitt og talað við í mínum störfum síðustu árin, þá væri það óvissa um hvaða leið fólk vill fara í lífinu. Mjög margir upplifa sig staðnaða, ófullnægða og jafnvel mjög óhamingjusama, finnst þeir ekki komast úr hjólförunum, eru fastir,“ segir Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu í sínum nýjasta pistli: 

Það er ekki óalgengt að í samtölunum komi upp spurningin: „Hvað vilt þú?“. Það er ekki heldur óalgengt að svarið sem kemur er „Ég veit það ekki“! Þetta er ákveðin pattstaða sem hrjáir marga, að vilja breytingar en telja sig ekki vita hverju þeir ættu að breyta. Ef maður ýtir aðeins betur við fólki kemur oftar en ekki í ljós að innst inni eru samt einhver svör að finna við spurningunni.

Ef enn betur er skoðað opinberast oftast að það er óttinn við breytingar sem veldur því að það er einfaldara að halda því fram að maður viti ekkert hvað maður vill, heldur en að eiga það á hættu að þurfa að gera breytingar í lífinu. Þessi ótti hefur mjög margar birtingamyndir en oftar en ekki er það ótti við skoðanir annarra sem tekur mesta plássið. Hvort sem það eru foreldrar, maki, ættingjar, vinnufélagar, vinir eða bara eitthvað fólk þarna úti, þá er mjög algengt að innst inni er fólk logandi hrætt við ímynduð viðbrögð og skoðanir annarra sem gætu komið upp ef viðkomandi gerir breytingar.

Ástæðan fyrir því að ég segi „ímynduð“ viðbrögð eða skoðanir annarra er einfaldlega vegna þess að það er það sem þau eru, ímynduð. Það er ekki raunveruleikinn heldur það sem viðkomandi ímyndar sér að muni gerast. Hvort sem aðrir hafa skoðanir á því hvað við gerum, eða ekki, þá eru það allt ímyndaðar hugmyndir þangað til það reynir raunverulega á það.

Annarskonar ótti er líka oft að hreiðra um sig innra með fólki, óttinn við að standa sig ekki, að vera ekki nógur góð. Það er sammannlegt að upplifa ótta gagnvart viðfangsefnum sem reyna mikið á okkur, til dæmis að gera drastískar breytingar í lífinu okkar. Spurningin er bara hvort við ætlum að gera það að vana að gefast upp fyrir óttanum og gera ekki neitt. Eitt sinn heyrði ég að hugrekki væri ótti sem hefði farið með bænirnar sínar.

Þetta minnir mig á setningu í bíómynd sem ég sá einhvern tímann og fannst svolítið fyndin. Þar var einhver hetjan að tala við Mexíkóa sem var óttasleginn og treysti sér ekki til að gera það sem þurfti að gera. Hetjan spurði hinn með mjög ákveðnum svip: „Are you a Mexican or a Mexican‘t“.

Hvað sem því líður að komast að því hvað maður vill gera eða vera, þá er stundum hægt að skoða andstæðurnar, hvað maður vill ekki. Rithöfundurinn Daniel Wallen skrifaði eitt sinn blogg um 15 atriði sem fólk með gott sjálfstraust gerir ekki. Mér finnst þetta nokkuð góðir punktar og læt þá fylgja með þessari hugleiðingu.

15 atriði sem fólk með gott sjálfstraust gerir ekki:

  1. Býr til afsakanir. Fólk með gott sjálfstraust stendur með eigin hugsunum og gjörðum. Því finnst það ekki þurfa að koma með afsakanir fyrir hinu og þessu. Það kennir umferðinni ekki um að það mætti seint í vinnuna en segist einfaldlega hafa orðið seint. Fólk með gott sjálfstraust afsakar sig ekki með að það hafi ekki tíma eða sé ekki nógu gott til að geta gert eitthvað. Það býr til tíma og heldur áfram að styrkja sig þar til þeim finnst þau vera nógu góð.
  2. Forðast hluti. Sjálfsöruggt fólk lætur ótta ekki stjórna lífi sínu. Það veit að hlutirnir sem það er hrætt við eru þeir hlutir sem það þarf að kljást við til að þroskast og verða sú manneskja sem þeim er ætlað að vera.
  3. Lifa í þægindahringnum. Fólk með mikið sjálfsálit heldur sig ekki inni í þægindahringnum heldur tekst á við óþægindi vegna þess að það veit að það þarf að þrýsta á þægindahringinn til að ná árangri.
  4. Fresta hlutunum. Fólk með gott sjálfstraust veit að það er betra að gera eitthvað varðandi góða hugmynd í dag frekar en að ætla að gera eitthvað varðandi frábæra hugmynd seinna. Það bíður ekki eftir réttri tímasetningu eða réttum kringumstæðum vegna þess að það veit að þannig viðhorf er byggt á hræðslu við breytingar. Þau taka af skarið, hér og nú, í dag. Þannig næst árangur.
  5. Fá skoðanir annarra á heilann. Fólk með gott sjálfstraust fær ekki skoðanir annarra á heilann. Þau vilja hafa góð áhrif á heiminn og vilja að öðrum gangi vel, en velta sér ekki upp úr neikvæðum skoðunum annarra. Sjálfsöruggt fólk veit hverjir raunverulegir vinir þess eru og að þeir muni taka því eins og það er og er því ekki að velta sér upp úr hvað öðrum finnst.
  6. Dæma annað fólk. Fólk með gott sjálfstraust dæmir ekki annað fólk, það finnur ekki þörfina til að baktala aðra til að láta sér líða betur og taka ekki þátt í slúðri og óþarfa dramatík. Sjálfsöruggu fólki líður vel í eigin skinni og finnur enga þörf fyrir að líta niður á annað fólk.
  7. Láta skort stoppa sig. Sjálfsöruggt fólk getur notað það sem til er til að klára verkefnin. Það veit að allt er mögulegt ef það neitar að gefast upp og er með sköpunargáfuna að vopni. Sjálfsöruggt fólk veltir sér ekki upp úr hindrunum heldur einbeitir sér að því að finna lausnir.
  8. Gera samanburð. Sjálfsöruggt fólk ber sig ekki við aðra og veit að það er ekki að keppa við annað fólk. Fólk með gott sjálfsálit keppir aðeins við sjálft sig og einbeitir sér að því að bæta sig. Þau vita að saga hvers og eins eru bæði einstakar og ólíkar og því algjörlega tilgangslaust að bera sig saman við aðra.
  9. Reyna að gera fólki til geðs. Fólk með gott sjálfstraust reynir ekki að gera öðru fólki til geðs. Það veit að það kemur ekki öllum vel saman og að þannig er lífið einfaldlega. Sjálfsöruggt fólk einbeitir sér frekar að því að styrkja góð sambönd heldur en að reyna að stofna til eins margra sambanda og hægt er.
  10. Þurfa stöðuga hvatningu. Fólk með gott sjálfstraust þarf ekki stöðuga hvatningu og getur staðið á eigin fótum. Það veit að lífið er ekki alltaf sanngjarnt og að hlutirnir munu ekki alltaf fara eins og það hefði viljað. Þar sem það veit að það getur ekki stjórnað öllu í lífinu, einbeitir það sér frekar að því að bregðast við aðstæðum á jákvæðan hátt til þess að færast nær markmiðum sínum.
  11. Forðast óþægilegan sannleik. Fólk með gott sjálfstraust tæklar vandamál lífsins strax áður en þau verða stærri. Það veit að vandamálin sem liggja óleyst eiga það til að verða stærri með tímanum ef ekkert er að gert. Þau vilja til dæmis frekar eiga krefjandi samtöl við maka sinn í dag heldur en að sópa sannleikanum undir teppið og stofna traustinu í hættu.
  12. Gefast upp. Sjálfsöruggt fólk gefst ekki upp vegna smávægilegra mistaka. Það stendur upp þegar það hefur hrasað og heldur áfram. Það veit að mistök eru hluti af þroskaferlinum og ef þeim mistekst reyna þau að finna hvað fór úrskeiðis og nota reynsluna til að gera betur.
  13. Þurfa leyfi til að aðhafast. Fólk með gott sjálfstraust þarf ekki leyfi frá öðrum til að gera það sem það vill gera, það gerir hlutina það án þess að hika. Það minnir sig á að „Ef ég geri þetta ekki, hver þá?“
  14. Takmarka sig við lítinn verkfærakassa. Fólk með gott sjálfstraust þarf ekki að skuldbinda sig við fyrstu áætlunina sem það gerði. Þau nýta alla þá möguleika sem þau hafa, halda stöðugt áfram að prófa aðferðir þar til þau finna hagkvæmustu leiðina til þess að ná sem mestum árangri.
  15. Taka öllu trúanlegu sem þau lesa á internetinu. Sjálfsöruggt fólk tekur ekki allt sem heilagan sannleik sem það les á netinu, bara af því einhver segir eitthvað. Það skoðar það sem sagt er og metur það út frá sínu sjónarhorni með heilbrigðri gagnrýni. Þau nýta það sem þeim gagnast og finnst rétt en láta annað eiga sig. Þrátt fyrir að grein eins og þessi geti verið áhugaverð og jákvæð, þá vita þeir sem búa yfir góðu sjálfsöryggi best sjálfir hvað hvetur þá áfram og veitir þeim sjálfstraust.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál