„Það var sárt að upplifa að ég væri að missa fjallamennskuna frá mér“

Vilborg Arna Gissurardóttir.
Vilborg Arna Gissurardóttir.

Vilborg Arna Gissurardóttir er gestur í Einmitt, nýrri hlaðvarpsþáttaröð Einars Bárðarsonar. Þar segir hún á einlægan hátt frá því hvernig hún er að takast á við áfallastreituröskun eftir áföll og ofbeldi sem hún varð fyrir og steig fram og sagði landsmönnum frá í vor.

Það kom mörgum í opna skjöldu þegar Vilborg Arna Gissurardóttir steig fram í ár og bætti sínu nafni á langan lista kvenna í #MeToo baráttunni. Vilborg ræddi afleiðingar áfallsins sem fylgdi ofbeldinu, erfiðleika sem hún lenti á Everest í tvígang og hvernig hún er að vinna sig til baka. Hún skilgreinir þetta sjálf sem áfallastreituröskun sem hún vildi mæta, horfast í augu við og vinna sig út úr því hún ætlar áfram að vera í fremstu víglínu fjallamennskunnar í heiminum.

Hún segir frá því hvernig hún leitaði sér hjálpar sérfræðinga og hvernig sú vinna gengur. Vilborg talar um það að einn lykillinn að batanum hafi verið að horfast í augun við áföllin öll til að geta unnið úr þeim.

„Ef eitthvað af því sem ég hef gengið í gegnum getur hjálpað öðrum, þá er ég tilbúin að gera það,“ segir hún í samtalinu, aðspurð um það af hverju hún ákvað að deila þessari lífsreynslu með almenningi.

Vilborg sem hefur birst okkur í erfiðustu andlegu og líkamlegu aðstæðum heims á miðju Suðurpólsins og á toppum allra hæstu fjalla í heimi bognaði af álaginu sem kom ofan í erfið ár á fjöllunum og óvænt meiðsli.

„Það var sárt að upplifa að ég væri að missa fjallamennskuna frá mér, ástríðuna mína og átti allt í einu erfitt með að stunda hana. Ég veigraði mér við hlutum sem áður voru með eðlislægir, bæði veigra mér við þeim og forðast.“

Í dag býr Vilborg ásamt sambýlismanni sínum í Slóveníu í austasta hluta Alpanna. Þar æfir hún sig bæði á líkama og sál og er hamingjusöm. Hún ræðir framtíðina sem hún veit upp á hár hver er og verður.

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda