Sunna var 14 ára þegar hún byrjaði með 21 árs manni

Sunna Kristinsdóttir er gestur í hlaðvarpinu Sterk saman.
Sunna Kristinsdóttir er gestur í hlaðvarpinu Sterk saman.

Sunna Kristinsdóttir er nýjasti viðmælandinn í hlaðvarpinu Sterk saman. Hún er 29 ára kona úr Bakkafirði sem upplifði að hún passaði aldrei inn í umhverfið. 

„Mér var alltaf sagt að ég væri feit og ljót, alveg frá því ég var mjög ung og hefur það mótað mig þannig að ég leitaðist eftir samþykki langt fram eftir,“ segir Sunna sem þráði að eignast kærasta. Hún hugsaði með sér að ef hún eignaðist kærasta þá væri hún nógu góð. 

Þegar Sunna var 13 ára flutti fjölskyldan til Akureyrar og upplifði hún sig sem utangátta vegna lélegrar færni í mannlegum samskiptum. Ekki leið á löngu þar til Sunna fór að sækjast í eldri stráka. Þegar hún var 14 ára byrjaði hún með 21 árs gömlum manni. Hún segir að það besta við hann hafi verið að hann var með bílpróf. 

„Mamma sagði honum strax að ég væri 14 ára og ef hann myndi keyra með mig í burtu myndi hún hringja á lögregluna, sem hún stóð við. Lögreglan þekkti hann og sagði mömmu að halda mér frá honum en hún gat það auðvitað ekkert,“ segir Sunna. 

Sunna segist hafa verið vanmáttug gagnvart karlmönnum. Hún segir frá reynslu sinni af fyrstu kynmökunum. 

„Í fyrsta skipti sem hann reyndi að sofa hjá mér, á baðherbergisgólfinu heima hjá vini sínum, sagði ég við hann að ég svæfi ekki hjá neinum sem væri ekki kærastinn minn. Hann var snöggur að segja bara Ókei, ég skal byrja með þér. Ég fattaði ekkert að það væri til þess að sofa hjá mér. Ég var bara krakki en hann má eiga það að hann var ekki jafn slæmur og sá næsti.“

Foreldrar Sunnu reyndu allt til þess að koma í veg fyrir að dóttir þeirra væri með eldri manni. Þau töluðu ítrekað við lögregluna. 

„Eitt skipti kom löggan heim til hans og sagði honum að hann mætti ekki vera með mér, ég væri bara 14 ára og foreldrar mínir væru alltaf að hringja. Svarið hans var þá að ég væri kærastan hans og vildi ekkert fara heim,“ segir Sunna. 

Unglingsárin voru Sunnu erfið og draumurinn var að eiga kærasta og bestu vinkonu sem hún gat deilt vinkonu-hálsmeni með.

Hún segir frá því hvernig eldri strákar og menn nýttu sér hana, líkama hennar og fengu hana til þess að láta þá hafa ADHD-lyfin sín.

„Ég gerði mér enga grein fyrir því að þetta væru eiturlyf en svona gat ég fjármagnað reykingar til dæmis,“ segir hún og bætir við að reiðin hafi haldið í henni lífinu þar til hún eignaðist kærasta í Mosfellsbæ á hennar aldri sem hún gat ekki kaffært í athyglissýki og knúsum og ákvað að tengjast samnemendum sínum í Brekkuskóla. 

Það sem gerðist næst var að Sunna var misnotuð og henni nauðgað sem hafði verulega slæm áhrif á líf hennar. Í dag er hún hins vegar búin að vinna úr áföllum sínum. Sú vinna hefur kallað á það að hún vilji hjálpa öðrum. Í dag starfar hún sem ráðgjafi og hefur stofnað félag fyrir þolendur ofbeldis sem heitir Skjól. 

„Góðir menn beita líka ofbeldi en sums staðar er ekki von og ef ég ætlaði að forðast alla ofbeldismenn myndi ég ekki fara út úr húsi,“ segir hún. 

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál