„Erfitt að vera syrgjandi og kalla eftir aðstoð“

„Ég þurfti að finna sorginni einhvern farveg og vinna með hana,“ segir Ína Lóa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Sorgarmiðstöðvarinnar í Dagmálum. 

Ína kom að stofnun Sorgarmiðstöðvar og var í fyrstu stjórn hennar en gegnir nú starfi framkvæmdastjóra. Þeirri stöðu hefur hún gegnt frá stofnun samtakanna eða síðan 2018. Ína er einnig hugmyndasmiður og einn höfunda MISSIS þáttanna sem voru sýndir á sjónvarpi Símans en Ína Lóa var aðeins 35 ára gömul þegar æskuást hennar og eiginmaður til fjölda ára, Árni Sigurðarson heitinn, lést af völdum heilaæxlis árið 2012.

Tíu árum áður höfðu þau Ína Lóa og Árni upplifað mikinn harm þegar þau misstu stúlkubarn á miðri meðgöngu sem þau nefndu Marín. Að sögn Ínu Lóu hafði barnsmissirinn þau áhrif að hún reyndi að loka á sorgina og þær erfiðu tilfinningar sem vöknuðu í kjölfarið. 

Virkar ekki að setja sorgina ofan í skúffu

„Þegar ég eignast Marín mína þá reyndi ég svolítið að ýta sorginni til hliðar. Ég lýsi þessu oft þannig að þetta hafi verið eins og ég hafi reynt að þjappa sorginni saman og troðið henni ofan í skúffu. Það er ekkert óeðlilegt að maður geri það,“ lýsir Ína Lóa og segir það atferli þekkjast vel hjá syrgjendum. Sorgin komi þó alltaf til með að banka upp á síðar.

„Svo þegar hann [Árni] dó þá ákvað ég að ég ætlaði að fara eins vel í gegnum þetta og ég mögulega gæti. Ég var dugleg að þiggja alla þá hjálp sem ég bauðst,“ segir Ína Lóa sem hefur borið hag syrgjenda í brjósti allar götur síðan og unnið markvisst að því að aðstoða aðra í sömu stöðu.

„Það er mjög erfitt að vera syrgjandi og taka upp símann og kalla eftir aðstoð. Það er miklu betra ef hún býðst okkur,“ segir Ína og hvetur þá sem eiga syrgjandi ástvini að vera duglegir við að bjóða fram aðstoð sína, þá sérstaklega nú þegar jólin eru á næsta leyti.  

Smelltu hér til að horfa á viðtalið við Ínu Lóu í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál