„Ég veit ekki hvernig ég get rætt þessa klamydíu við hann“

Íslensk kona er komin með kynsjúkdóm. Hélt makinn framhjá eða …
Íslensk kona er komin með kynsjúkdóm. Hélt makinn framhjá eða er hún búin að vera með kynsjúkdóminn í þrjú ár? Kenny Eliason/Unsplash

Theodór Francis Birgisson fjölskyldufræðingur hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem hélt framhjá manni sínum með föðurbróður hans. Nú er hann farinn að halda framhjá henni. 

Hæhæ, 
 
Ég og maðurinn minn erum búin að vera saman í 12 ár. Nýlega fór ég í skoðun hjá kvennsjúkdómalækni þar sem kemur í ljós að ég er með klamydíu. 
Ég veit að hann hefur verið að halda framhjá en það er bara vegna þess að ég hélt framhjá honum með föðurbróður hans fyrir 3 árum. Hann er bara svo langrækinn að hann hefur ekki fyrirgefið það og ef ég á að vera heiðarleg við sjálfa mig þá á hann þetta alveg inni. 
 
En núna veit ég ekki hvort að föðurbróðir hans gaf mér klamydíuna eða maðurinn minn. Ég vil ekki segja honum að ég viti af öllum ungu stelpunum sem hann er að sofa hjá. Ég veit að þetta er bara tímabil sem öll hjón ganga í gegnum „eins og árstíðirnar nema framtíðirnar“. Það er auðvitað líka bara þannig að allir sem verið hafa í langtíma sambandi halda framhjá. Pör leita alltaf út fyrir sambandið þegar sambandsleiðinn gerir vart við sig. Það er auðvitað bara holt fyrir sambandið að samviskubitið minni mann á að afhverju maður elskar manneskjuna og fólk vill almennt helst ekki særa manneskjuna að óþörfu. 
 
En núna er vandinn að ég veit ekki hvernig ég get rætt þessa klamydíu við hann. Hvernig ætti ég að ræða þetta eða ætti ég bara að sleppa því? 
 
Mbk og með von um svör,

XXX 

Theodór Francis Birgisson er klinískur félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur. Hann starfar …
Theodór Francis Birgisson er klinískur félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur. Hann starfar sem ráðgjafi hjá Lausninni.

Sæl og blessuð og takk fyrir þessa spurningu.  

Ég verð að byrja á að segja þér að það er alls ekki þannig að allir í parsamböndum haldi framhjá og að mínu mati langt frá því að framhjáhald eigi að vera viðurkenndur „staðalbúnaður“ í parsambandi. Því miður halda engu að síður allt of margir framhjá en erlendar rannsóknir sem auðvelt er að heimfæra upp á íslenskar aðstæður sýna að frá 20-45% einstaklinga í parsamböndum halda framhjá. Munurinn er þarna gríðarlega stór en eftir því sem skuldbindingin í sambandi eykst, til dæmis með formlegum samningi eins og giftingu, þá lækkar hlutfall þeirra sem halda framhjá.    

Dýnamíkin í hverju sambandi er búin til að af þeim sem eru í sambandinu og eins og rannsóknirnar sem ég var að vitna í sýna þá er meirihluti sambanda þannig settur saman að hvorugur aðilinn heldur framhjá. Þið þurfið að finna út úr því hvernig dýnamík þið viljið hafa, hvort þið viljið hafa sambandið fyrir ykkur tvö eða blanda öðrum inn í það með einum eða öðrum hætti. Eina sem ég get sagt varðandi það er að ég mæli aldrei með að blanda öðrum aðilum inn í sambandið hvorki með opnum hætti eða með feluleik. Reynsla mín í vinnu með pörum til margra ára sýnir mér að tveggja manna sambönd eru lífvænlegust.  

Varðandi kynsjúkdóminn þá ræðst svarið af því í hvaða átt þið viljið að sambandið fari. Ef þú og þá maki þinn viljið að þið eigið góða framtíð saman myndi ég klárlega ráðleggja ykkur báðum að leggja öll spilin á borðið og ræða þetta í hreinskilni. Það myndi gagnast ykkur mjög vel að leita til fagaðila til að ræða þessi mál þar sem slíkar samræður geta reynst erfiðar og því gott að fá speglun frá óháðum aðila.  Ef þið veljið hina leiðna þá skiptir eitt leyndarmál til eða frá sennilega ekki öllu máli.

Kær kveðja,

Theodór Francis Birgisson. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Theodór spuringu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál