Hvernig væri að fjalla um Gunnar og Röggu sem hafa ekki borðað í þrjá daga?

Lesandi spyr hvers vegna Smartland fjallar ekki meira um fólk …
Lesandi spyr hvers vegna Smartland fjallar ekki meira um fólk sem á ekki fyrir mat? Ljósmynd/Fjölskylduhjálp Íslands

Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is og höfundur Smartlands svarar spurningum lesenda. Hér fær hún spurningu frá manni sem er ósáttur við hvað lítið sé fjallað um þá sem minna mega sín á Smartlandi. 

Sæl og blessuð.

Væri ekki tilvalið að fjalla um fátæka einstaklinga núna og gefa þeim sem nóg eiga kærkomið frí? Ég skil ekki alveg tilganginn með því að fjalla um þennan og hinn og hvað hann eigi flott hús eða fína tösku. Hvernig bætir það líf fólks? Er þetta virkilega samfélagið sem við viljum búa við? Nú er ég orðinn faðir og farinn að hugsa til þess þegar börnin mín verða fullorðin.

Eru þetta gildin sem ég vil sjá að þau alist upp við. Að upphefja fólk sem á meira en aðrir? Að tilgangurinn með lífinu sé að eiga nýjustu GoGo Cho töskuna sem kostar meira en árslaun flestra. Hvernig væri að fjalla um Gunnar og Röggu sem hafa ekki borðað í þrjá daga en að Emil litli sonur þeirra hafi þó borðað í fyrradag. Eða að Sigga Jóns hafi skipt út Bónus poka fyrir Krónu poka, smá lúxus. Er það ekki ykkar ábyrgð að fjalla um það sem skiptir máli í samfélaginu. Er það virkilega fyrir þér hver hefur efni á að kaupa það sem dýrast er?

Bestu kveðjur, 

XX

Sæll XX. 

Takk fyrir póstinn. Ég skil vel að það trufli þig að það sé ekki talað meira við þá sem minna mega sín á Smartlandi. Á mbl.is er fjallað um dægurmál á víðum grundvelli og er markmiðið ekki að fjalla bara um þá sem tilheyra efsta lagi samfélagsins og þá aðila sem eiga meira af veraldlegum hlutum en aðrir. 

Það hefur reynst erfitt að fá einstaklinga sem líða skort til að koma fram og lýsa lífi sínu í dagsins önn. Ég veit ekki hvers vegna það er nákvæmlega. Kannski er það vegna þess að við sem þjóð erum svo stolt og harðgerð að við viljum ekki bera blankheit okkar á torg. 

Það er mikilvægt að umfjöllun endurspegli þverskurð þjóðarinnar og óskar Smartland eftir því að fólk sem þetta á við og vill koma fram geri það. HÉR er hægt að senda póst með ábendingum og óskum um viðtöl. 

Kær kveðja, 

Marta María Winkel Jónasdóttir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Mörtu Maríu spurningu HÉR. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál