Þórhallur Heimisson prestur og hjónabandsráðgjafi segir mikilvægt að halda áfram að rækta sambandið við maka þegar aldurinn færist yfir. Þórhallur hefur verið með eiginkonu sinni í 37 ár og hlakkar til að njóta þriðja æviskeiðsins með henni.
„Sambönd eru auðvitað eins misjöfn og þau eru mörg, en ef pörum tekst að viðhalda gagnkvæmu trausti, vináttu og virðingu þá hafa þau allar forsendur til þess að verða góð,“ segir Þórhallur spurður um hvað einkenni góð sambönd.
Er algengt að fólk skilji þegar það er komið yfir sextugt?
„Fólk skilur á öllum aldri og ég held að það hafi ekkert með hugrekki að gera til eða frá. Lífið tekur stöðugum breytingum og pör geta vaxið hvort frá öðru á öllum æviskeiðum. Auðvitað er hætta á því að sambandið geti orðið að vana eftir því sem lengra líður á ævina og þess vegna þarf ekki síður að leggja rækt við það þegar forsendur breytast. Til dæmis þegar öll börn eru flutt að heiman, heilsan byrjar að bila eða atvinnuforsendur breytast.“
Þórhallur segir að auðvitað sé best að rækta sambandið frá byrjun. „Það getur verið erfitt að ætla sér að vinna í sambandinu ef maður hefur ekkert gert í því áratugum saman. Að rækta sambandið er æviverkefni. Og að setja sambandið í forgang á grundvelli trausts, virðingar og vináttu ættu öll pör að gera frá fyrsta degi.“
Koma upp einhverjar áskoranir í hjónabandinu þegar aldurinn færist yfir?
„Já, þá breytist margt og breytingar geta oft verið erfiðar. En um leið bjóða þær upp á ný tækifæri. Það þarf að hugsa lífið upp á nýtt með nýjum forsendum. Hvernig ætlum við að lifa lífinu þegar við erum orðin ein í kotinu til dæmis, þegar við erum hætt að vinna, þegar heilsan bilar og svo framvegis? Og hvernig getum við stutt hvort annað í gegnum breytingarnar? Við þurfum líka að geta gefið hvort öðru svigrúm til að rækta okkar eigin áhugamál en um leið að finna sameiginleg áhugamál. Og svo er um að gera að láta ástina blómstra.“
Mörg tækifæri felast í því að eldast og hætta að vinna. „Það stærsta er ef til vill frelsi til að lifa lífinu undan skyldum og kvöðum atvinnulífsins. En það kostar auðvitað um leið að við þurfum að vera dugleg að finna lífinu nýjan farveg. Sem auðvitað byggist á því sem áður var. Mörgum finnst erfitt að hætta að vinna vegna þess að þeir hafa fundið tilgang lífsins fyrst og fremst í gegnum vinnuna og skilgreint sig út frá henni. En þá er að muna rómverska málsháttinn „carpe diem“ eða gríptu daginn. Finnum okkur nýja rútínu í lífinu og tökum höndum saman um þær.“
Ertu með góð ráð fyrir hjón sem vilja efla nándina?
„Umfram allt að gleyma því aldrei að við verðum að leggja rækt við ástina á öllum skeiðum lífsins. Tökum aldrei hvort öðru eins og sjálfsögðum hlut, sýnum hvort öðru vináttu og virðingu, hlæjum saman og setjum samband okkar í forgang. Og svo er það enn og aftur þetta með traustið. Við verðum að geta treyst hvort öðru í gleði og sorg. Förum ekki á bak við hvort annað og verum dugleg að tala saman um það sem við erum að hugsa. Við getum ekki lesið hugsanir hvort annars og oft er það þögnin sem leggst eins og múr á milli para þegar sambandið er á niðurleið. Og svo skulum við vera dugleg að rækta kynlífið á okkar forsendum.“
Ert þú spenntur fyrir þriðja æviskeiðinu?
„Já ég held að þriðja æviskeiðið svokallaða eigi eftir að bjóða upp á mörg tækifæri og ævintýr. Ég hef verið svo heppinn að eiga mér mörg áhugamál í gegnum lífið og vona að Guð gefi að ég fái tækifæri til þess að rækta þau áfram. Og svo hlakka ég til að geta verið enn meir með fjölskyldunni og barnabörnunum en verið hefur. En um leið veit ég að það veltur á sjálfum mér hvernig til tekst. Að rækta sjálfan sig andlega og líkamlega er forsenda fyrir hamingju lífsins á öllum æviskeiðum. Og að rækta hjónaband mitt. Við hjónin erum svo heppin að eiga okkur sömu áhugamál og sinna svipuðum störfum þannig að við höfum alltaf getað stutt hvort annað og hvatt áfram í lífinu. Þótt oft sé mikið að gera eins og gengur reynum við að lifa eftir þessu mottói: að setja sambandið í forgang og standa saman í gleði og sorg. Það hefur okkur tekist í 37 ár og ég hlakka til þess að halda áfram að takast á við dagana, lífið og uppákomur þess með konu minni svo lengi sem ég lifi,“ segir Þórhallur.