Hvernig týpa ert þú í glasi?

Áfengi getur haft gjörólík áhrif á fólk, en nýleg rannsókn …
Áfengi getur haft gjörólík áhrif á fólk, en nýleg rannsókn bendir til þess að drukkið fólk skiptist í fjóra mismunandi persónuleikaflokka. Ljósmynd/Pexels/Inga Seliverstova

Áfengi getur haft gjörólík áhrif á fólk. Sumir verða vinalegri og glaðlegri á meðan aðrir verða árásargjarnari og hvatvísari. Nýverið var gerð rannsókn við háskóla í Bandaríkjunum þar sem persónuleikabreytingar einstakinga undir áhrifum áfengis voru skoðaðar. Niðurstöðurnar greindu fjóra lykilpersónuleika sem fólk í glasi skiptist í. 

Alls voru 374 þátttakendur í rannsókninni sem gerð var við University of Missouri-Columbia, en hún rannsakaði hvaða breytingar yrðu á persónuleika þátttakenda undir áhrifum áfengis. 

Ekki óalgengt að áfengi valdi persónuleikabreytingum

Geðlæknirinn Catherine Carney útskýrði nýverið áhrif áfengis á persónuleika í viðtali við tímaritið Glamour, en hún segir heilann starfa á annan hátt þegar áfengis er neytt. „Þegar þú neytir áfengis hefur það áhrif á hegðun þína, hugsanir, skap og líkama. Kannski, þegar þú drekkur, tekur þú eftir að hegðun þín verður árásargjarnari eða tilfinningaríkari? Áfengi hefur mismunandi áhrif á alla og það er ekki óalgengt að það valdi persónuleikabreytingum,“ sagði Carney. 

Niðurstöður rannsóknarinnar greindu fjóra lykilpersónuleika sem drukkið fólk skiptist í, en það hvaða persónuleiki þú ert í glasi getur sagt mikið til um hvers konar manneskja þú ert þegar þú ert edrú. 

1. „The Hemingways“

Þessi persónuleiki vísar til fólks sem hegðar sér á svipaðan hátt þegar það drekkur og er edrú. Nafnið er dregið af rithöfundinum Ernest Hemingsway sem glímdi við alkóhólisma og lýsti því yfir að hann gæti neytt mikið magn af áfengi án þess að verða fullur. 

Um 40% þátttakenda í rannsókninni féllu í þennan persónuleikaflokk. Niðurstöður leiddu í ljós að þeir sem féllu undir Hemingways persónuleikaflokkinn upplifðu lítilsháttar minnkun á samviskusemi þegar þeir neyta áfengis.

2. „The Mary Poppins“

Þau sem falla undir þennan persónuleikaflokk verða vinalegri og glaðværari þegar þau neyta áfengis. Þessir einstaklingar eru taldir vera ábyrgara drykkjufólk en þeir sem falla undir aðra persónuleikaflokka.

Um 14% þátttakenda féllu undir Mary Poppins persónuleikaflokkinn, en þeir sýndu lítilsháttar minnkun á samviskusemi og greind. Flestir sem falla undir þennan flokk eru yfirleitt með úthverfan persónuleika sem eykst í glasi.

3. „The Mr Hyde“

Margir kannast eflaust við söguþráð Dr. Jekyll og Mr. Hyde sem sýnir samspil milli tveggja persónuleika sömu persónunnar, annars vegar hið góða og hins vegar hið slæma. Þeir sem falla undir þennan persónuleikaflokk eru sagðir svipa til Mr. Hyde og eru minna ábyrgir og fjandsamlegri undir áhrifum áfengis samanborið við þegar þeir eru edrú. 

Einstaklingar í Mr Hyde flokknum verða oft vondir þegar þeir eru drukknir, en í samanburði við hina flokkana minnka vitsmunir og samviska þeirra mest um leið og úthverfur persónuleiki þeirra eykst. Þessi tegund drykkjufólks er líklegust til að verða óróleg og sár í neikvæðum aðstæðum, fara í óminnisástand eða byrja að berjast. 

Sú hegðun sem þessir einstaklingar sýna í glasi er gott dæmi um mögulega hættu eða áhættu sem tengist áfengisneyslu. „Þeir sem falla undir flokk Mr. Hyde ættu að íhuga að kanna edrúmennsku eða taka ábyrgari og meðvirðari nálgun við drykkju,“ segir Carney. 

4. „The Nutty Professors“

Þeir sem falla undir þennan flokk eru venjulega feimnari og meðvitaðri um sig sjálfa og eru yfirleitt með innhverfan persónuleika. Þegar þessir einstaklingar neyta áfengis breytast þeir hins vegar í sjálfsöruggan einstakling, persónuleiki þeirra verður úthverfari og samviskusemin minnkar. 

Þrátt fyrir að umtalsverður munur sé á hegðun þessara einstaklinga þegar þeir eru edrú og undir áhrifum áfengis eru einstaklingar í þessum flokk í minni hættu á að skaða sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál