Hvers vegna erfir sambúðarfólk ekki hvort annað?

Þyrí Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Þyrí Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Að undanförnu hafa borist nokkrar spurningar sem varða fjárslit við sambúðarslit, en einnig varðandi fjárslit við hjónaskilnað og hver sé munurinn þar á. Í stað þess að svara hverri spurningu fyrir sig langar mig að fjalla aðeins um muninn á því að vera í sambúð eða vera í hjónabandi.

Fólk sem býr saman finnur ekki endilega mun á því dags daglega hvort það er gift eða í sambúð. Ef það kemur til slita á sambandinu eða andláts er þó verulegur munur á réttindum fólks. Þá getur það skipt miklu máli hvort um sambúð eða hjónaband er að ræða. Sérstaklega er mikill munur á reglum um fjárskipti og einnig er mjög mikill munur á erfðareglum. Reglur um málefni barna eru hins vegar svipaðar hvort sem um er að ræða slit á hjónabandi eða sambúð.

Grunnreglan við fjárskipti við hjónaskilnað er helmingaskiptaregla og er fjallað um hana og aðrar reglur um fjárskipti hjóna í hjúskaparlögum. Í einfaldaðri mynd gengur helmingaskiptareglan út á að hvort hjóna um sig fái jafnt í sinn hlut við fjárskiptin og skiptir þá yfirleitt ekki máli hver er skráður fyrir hvaða eign eða hvort annað átti eignina áður en gengið var í hjónaband svo dæmi sé tekið. Helmingaskiptareglan segir að hreinni eign skuli skipt til helminga, en taka þarf ákvarðanir um hver fær hvaða eign í sinn hlut og hver beri ábyrgð á hvaða skuldbindingum. Ef annað hjóna fær verðmætari eignir í sinn hlut við fjárskiptin þarf venjulega að greiða peningagreiðslu á milli til jöfnunar. Til eru undantekningar frá helmingaskiptareglu en þær eru fremur þröngar og ekki algengt að til þeirra sé gripið.

Rétt er þó að taka fram að hvort hjóna um sig ber ábyrgð á sínum skuldum og það er ekki hægt að láta skuldir sínar ganga yfir til maka síns. Með því að giftast einhverjum tekur þú ekki ábyrgð á skuldum viðkomandi. Eina undantekningin frá þessu eru skattskuldir sem mögulega verða til á samvistartímanum, en hjón og sambúðarfólk bera óskipta ábyrgð á skattskuldum beggja sem verða til meðan þau eru samsköttuð.

Til að slíta sambúð þarf samningur um fjárskipti ekki að liggja fyrir en margir vilja hins vegar gera slíkan samning. Við fjárskipti við sambúðarslit gildir ekki helmingaskiptaregla eins og um hjón og engin lög gilda um fjárskipti við sambúðarslit heldur en stuðst við dómafordæmi og óskrifaðar reglur eða venjur. Grunnreglan er sú að hvor sambúðaraðili um sig taki þær eignir sem það átti fyrir sambúðina og eignaðist meðan á sambúðinni stóð og hér getur skipt verulegu máli hver er skráður fyrir hvaða eign, ólíkt því sem áður segir um eignir í hjónabandi. En frá þessari reglu eru þó margar og veigamiklar undantekningar. Þannig geta fjárskipti við sambúðarslit orðið ívið flóknari en við hjónaskilnað.

Að lokum skal það tekið fram að hjón erfa hvort annað en sambúðarfólk ekki. Þá getur sambúðarfólk ekki setið í óskiptu búi eftir andlát maka, slíkur réttur er einskorðaður við fólk í hjónabandi.  

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál