Það er hægt að finna allt á TikTok, líka kynlífsráð eða öllu heldur kynlífsáskoranir. Kókoshnetuáskorunin tröllríður öllu núna og áður en lengra er haldið skal taka fram að það þarf ekki kókoshnetu í verkið.
Hugmyndin að kókoshnetutækninni er nokkurra ára gömul. Ónefnd kona bað um kynlífsráð í Facebook-hópi úti í heimi og fékk til baka það ráð að stafa orðið kókoshneta eða „coconut“ með mjöðmunum þegar hún væri ofan á bólfélaga sínum. Ekki er farið nákvæmlega út í smáatriðin á bak við tæknina, til dæmis hvort það sé takturinn eða hreyfingin sem gerir gæfu muninn. Ekki er heldur vitað hvort það skipti máli hvort stafað sé orðið kókoshneta á ensku eða íslensku.
Þetta sérkennilega ráð hefur fengið töluverða athygli að undanförnu eftir að myndskeið fór á flug sem rappkonan Cardi B birti á TikTok. Í myndskeiðinu greindi Cardi B frá því að rappkonan Megan Thee Stallion ætlaði að taka áskoruninni.