Hjónabandið í öngþveiti á ný

Unsplash/Andrew Neel

Kona segist vera komin í öngþveiti í hjónabandi sínu vegna samskiptaörðugleika við eiginmann sinn. Leitar hún því ráða hjá sérfræðingi.

Ég upplifi enn eitt öngþveitið í hjónabandi mínu. Við hjónin virðumst í endalausum dansi misskilnings okkar á milli sem færist svo yfir í gremju. Ég vil ræða þetta en maðurinn minn á erfitt með að tjá tilfinningar sínar og er þögull sem gröfin.

Nú er allt komið í upplausn og erum við á barmi þess að skilja. Hann hefur sakað mig um reiði, sem er að hluta til satt. Eina leiðin fyrir mig til að tala við hann er með því að þjarma að honum. Við höfum reynt hjónabandsráðgjöf en hann vill ekki fara aftur.

Peningar hafa alltaf verið vandamál, við störfum bæði í lausamennsku. Ég þéna vel inn á milli, á meðan hann þénar frekar lítið. Hann stendur líka aftur í skuld við skattinn. Ég er úrvinda og dauðhrædd en bý þó enn yfir nóg af ást, þótt illa útleikin sé, til að reyna að komast yfir þetta.

Ég veit ekki hvað ég get gert. Hjálp.

Svar sérfræðingsins:

Önnur upplausn? Þetta virðist vera ákveðið hegðunarmynstur og það góða við mynstur er að hægt er að breyta þeim. Þú getur fundið þér nýtt mynstur sem er hjálplegra og einkennist af ást. Ef það kemur til skilnaðar munt þú bara endurtaka hegðunarmynstrið í næsta sambandi þínu. Því þarftu að taka á þessu núna. 

Þú segist búa enn yfir nóg af „illa útleikinni“ ást. Við skulum því einbeita okkur að þeim tilfinningum til að komast yfir þessa hindrun í stað þess að falla aftur í sama gamla farið.

Þessi dans ykkar snýst eflaust meira um að þú þarft að ræða málin til að sýna ást þína og maður þinn þarf á ást að halda áður en hann getur rætt málin. Þetta er mjög algengt vandamál hjá pörum og snýst um það að finna fyrir öryggi. Sem betur fer er auðvelt að laga þetta. 

Beindu athyglinni þinni frá því slæma í hjónabandi þínu yfir á það sem er gott, þá ást sem þú finnur enn fyrir. Gleymdu því að ræða um þetta, það gengur ekki. Í staðinn skaltu gefa manni þínum hrós eða þakka honum fyrir að minnsta kosti þrisvar á dag. 
Mundu að ástin er ekki eitthvað sem þú gerir ómeðvitað heldur þarftu að vera meðvituð um það sem þú gerir. Hugsaðu einnig um eitthvað ástríkt sem þú getur gert fyrir hann.
Þú þarft að venja þig á að ástríka hegðun áður en þú byrjar á því að kvarta til þess að endurbyggja traust ykkar á milli. 

Hvað varðar samskiptamynstur skaltu ekki afmarka hinn aðilann. Aldrei segja eitthvað á borð við „þú ert alltaf...“ eða „það sem er að hjá þér...“. Slíkt er stranglega bannað. Auk þess skaltu sleppa því að uppnefna, að móðga eða ásaka hann. Það er engin sönnun fyrir því að hann hafi rangt fyrir sér. Eftir um tvær vikur af kærleiksríkari samskiptum getur þú farið að tala um sambandið. Taktu því þó rólega og ekki krefjast svara við öllu strax.

Mér virðist sem svo að þú spilir einhvers konar leik þar sem þú telur að þú hafir rétt fyrir þér en hann rangt fyrir sér. Hættu því undir eins. Þú getur annað hvort haft rétt fyrir þér eða verið gift, ekki bæði. Einnig grunar mig að þú teljir þig yfir hann hafinn vegna peningamála. Það hjálpar alls ekki. Þú þarft að minna þig á að þú ert í ástríku sambandi en ekki í keppni um hvort ykkar er betri manneskja.

Þú tekur eflaust eftir því að þessum ráðum er eingöngu beint að þér. Er það með ráðum gert. Þú getur einungis breytt þinni hegðun, ekki hans. 

The Guardian

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál