Okkur er flestum kunnugt hve alvarlegar afleiðingar mikillar og langvarandi streitu geta verið fyrir heilsu okkar, jafnt líkamlega sem andlega. Streita getur þó líka haft veruleg áhrif á sambönd, en rannsóknir hafa meðal annars leitt í ljós að streita valdi því að fólk stundi kynlíf mun sjaldnar.
Við lifum í hröðu samfélagi þar sem streituvaldar leynast í hverju horni. Við sjáum þetta greinilega í rannsóknum sem benda til þess að tíðni kvíðaraskana, þunglyndis og óánægju sé að aukast til muna þar sem fólk á í erfiðleikum með að njóta lífsins, þar með talið kynlífsins.
„Þetta er sannarlega óheppilegt þar sem kynlíf getur verið streitulosandi og uppspretta mikillar ánægju,“ segir Nan J. Wise, geðlæknir og kynlífsþerapisti í pistli sem hún birti á Psychology Today.
„Við þetta bætist vaxandi fjöldi rannsókna sem benda til þess að viðvarandi streita leiði til ótímabærrar öldrunar, og þegar við náum fimmtugsaldri getur uppsöfnuð streita tekið mikinn toll á líkama okkar og huga,“ bætir hún við.
Til þess að ná tökum á streitunni segir Wise mikilvægt að fólk læri að þjálfa taugakerfið með öndun og nái að komast í hið svokallaða parasympatíska kerfi. Ef við erum stanslaust í streituástandi dælir líkami okkar út streituhormónum sem getur dregið úr vellíðan okkar og kynhvöt.
Wise segir einfaldar öndunaræfingar og núvitund vera lykilinn að minni streitu, meiri ánægju og betra kynlífi. Hún bætir við að það þurfi alls ekki að taka langan tíma, en það eitt að taka frá fimm mínútur daglega í öndunaræfingar geti gert kraftaverk í rúminu.