„Megum aldrei gefast upp á nokkurri manneskju“

Sigrún M. Óskarsdóttir prestur hefur komið víða við á sínum …
Sigrún M. Óskarsdóttir prestur hefur komið víða við á sínum ferli. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Fangaprestur Þjóðkirkjunnar, fór í guðfræði vegna þess að hún taldi það vera gott alhliða nám en fann sterka köllun og lítur á starf sitt sem algjör forréttindi. Hún hefur kynnst starfi Samhjálpar frá nokkrum hliðum og tók meðal annars þátt í kvennastarfinu Dorkas, sem hafði mikil áhrif á hana. Steingerður Steinarsdóttir ræddi við hana í Samhjálparblaðinu. 

Hvernig stóð á því að ungur guðfræðinemi fór á samkomur hjá Fíladelfíukirkjunni og hóf að vinna með kvennahópi innan Hvítasunnusafnaðarins?

„Samhjálp á alltaf stórt pláss í hjarta mínu,“ segir hún. „Ég kem sveitastelpa ofan af Laugavatni árið 1985 til að hefja nám í guðfræði í Háskólanum. Ég vissi ekki hvað ég vildi og fannst námið fjölbreytt og spennandi. Þá var ekki alveg eins mikið í boði að fara í heimsreisu meðan maður hugsaði sig um, svo að mín heimsreisa varð guðfræðin. Þar kynntist ég Gunnbjörgu Óladóttur, en hún og fjölskylda hennar störfuðu hjá Samhjálp. Þegar við höfðum kynnst betur bauð hún mér á samkomur og mér fannst þetta ótrúlega spennandi, framandi og gerólíkt því sem ég hafði alist upp við. Stundum hef ég sagt að ég hafi farið í guðfræði því það vantaði svo mikið í þennan þátt. Á Laugarvatni var engin kirkja í minni æsku, messur voru haldnar í barnaskólanum á stórhátíðum og svo fermdist ég í Skálholti. En allt trúarlíf var mjög hefðbundið og gamaldags. Í sveitinni var kirkjukór og bóndi úr sveitinni, hann Andrés á Hjálmsstöðum, var organisti. Þetta hafði vissulega sinn sjarma og var held ég nokkuð hefðbundin íslensk trúarupplifun. Á samkomunum var hins vegar mikið fjör, trommur, bassi og gítar og fólk söng af hjartans lyst.

Í framhaldi af því að ég fór á samkomur buðu Gunnbjörg og Ásta Jónsdóttir mamma hennar mér að koma á Dorkas-fund. Þeir voru haldnir einu sinni í mánuði og það sem ég upplifði þar hafði djúp áhrif á mig. Þetta var svo hlýtt, notalegt og fallegt samfélag. Í hópnum voru alls konar konur. Konur sem störfuðu hjá Samhjálp, konur sem sóttu samkomurnar, konur úr Hvítasunnusöfnuðinum og konur sem höfðu farið í gegnum ótalmargt og glímt við fíkn. Ásta var líka eins og mamma okkar allra sem tókum þátt í þessu starfi, ráðagóð og hlý. Þarna voru konur sem höfðu verið í fangelsi, verið heimilislausar og lent í miklum hremmingum. Þær gáfu svo mikið af sér. Það eru þessar sigursögur sem hvetja mig áfram í starfi. Það er svo mikilvægt að missa aldrei sjónar á því að við megum aldrei gefast upp á nokkurri manneskju.

Við lásum saman upp úr Biblíunni og svo voru vitnisburðir og fyrirbænir. Ég segi alveg fullum fetum að þarna lærði ég fyrst að biðja upphátt með öðrum. Margt gott og gagnlegt lærði ég í guðfræðinni sem mér þykir ákaflega vænt um en að biðja upphátt fyrir öðrum lærði ég í Samhjálp. Það hefur reynst mér ákaflega vel í öllu mínu starfi. Ég fann að þetta var ekki neitt yfirnáttúrulegt eða skrýtið heldur bara opið samtal við Guð, að biðja fyrir öðrum og fá fyrirbænir. Það hefur borið mig í gegnum starfið alla tíð.“

„Helgihaldið er auðvitað stór hluti af starfinu og rétt eins …
„Helgihaldið er auðvitað stór hluti af starfinu og rétt eins og annars staðar er messa á jólum og páskum og svo að meðaltali einu sinni í mánuði.“ Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Köllunin er mjög sterk

En svo varðst þú sóknarprestur og hvað tók þá við?

„Ja, ég varð eiginlega alls konar prestur,“ segir Sigrún og brosir. „Ég vígðist tuttugu og sex ára til Laugarneskirkju sem aðstoðarprestur, eins og það hét þá. Í dag heitir það bara prestur. Mjög fljótt fann ég köllun til að starfa utan safnaðarins í sérþjónustu og fékk tækifæri til að leysa af á Landspítalanum um tíma. Það sannfærði mig um að þetta vildi ég gera, svo ég fór út til Noregs og lærði sálgæslu.

Við vorum mun lengur en við ætluðum okkur í Noregi, sex ár. Þegar við komum heim varð ég prestur í Árbæjarkirkju og var þar í fimmtán ár. Eftir það ætlaði ég að hætta að vera prestur og sagði starfi mínu lausu. Fór að reka verslun og vann á útfararstofu en svo er það þessi köllun, hún er mjög sterk og ég fann að mig langaði aftur til baka í prestsstarfið. Mig langaði hins vegar ekki í hefðbundið safnaðarstarf, þannig að þegar starf fangaprests var auglýst fann ég að þetta var það sem ég vildi.“

Þú byrjaðir hálfóviss í guðfræðinni en fannst svo þessa sterku köllun. Var einhver tímapunktur þar sem þú sannfærðist eða vissir að þetta væri það sem þú vildir?

„Ég var mikið á báðum áttum,“ segir hún. „Ég fann strax að mig langaði að halda áfram í náminu, bæði vegna þess að þetta var áhugavert og út af félagsskapnum, það var svo skemmtilegt fólk þarna. Það var eiginlega ekki fyrr en á síðasta árinu að ég fann sterkt að þetta væri það sem mig langaði að gera. Ég hef alltaf verið sannfærð um að lífið hefur upp á ótal möguleika að bjóða og ég vissi strax að þetta nám er það fjölbreytt að það nýtist í margt. Ég sá fyrir mér að ég gæti farið að kenna, farið í ráðgjöf eða eitthvað slíkt. Tíðarandinn var raunar annar þá og ekki margar konur sem voru fyrirmyndir í prestsstarfinu. Það er svolítið sú deiglan líka og gerði starfið spennandi fyrir mér.“

Er þetta enn mikið karlastarf eða hefur það breyst?

„Þær rætur eru mjög sterkar. Til að mynda áttaði ég mig ekki á því sjálf að gagnvart mínu starfi sem fangaprestur var til staðar ákveðið glerþak og margir urðu mjög hissa og sumir jafnvel reiðir þegar ég var ráðin. Ef eitthvert starf í kirkjunni er frátekið fyrir karla er það þetta, var sagt, og það kom mér mjög á óvart þegar ég heyrði það. Hélt að það væri ekki lengur svo árið 2020. En það var ekki eins og ég væri fyrsta konan til að starfa í fangelsi.“

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Hrein og tær einlægni

„Sérstakur fangaprestur hefur verið starfandi frá árinu 1970. Starfsvettvangur fangaprests eru fangelsin og þjónusta við fanga, aðstandendur þeirra og aðra er láta sig eitthvað varða um hag þeirra,“ segir í starfslýsingu á vefnum kirkjan.is. Hvað finnst þér helst felast í starfinu?

„Langstærsti hlutinn er sálgæsla og samtöl. Að fá að vera prestur með þetta erindi í þessu starfi er algjör forréttindi og líka að fá að koma þarna inn og fá að vera samferða fólkinu einhvern smáspöl. Sumir vinna við að dæma og aðrir að greina en ég kem þarna og er bara samferða stuttan vegspotta. Trúin er auðvitað mitt leiðarljós en það er ekki þar með sagt að við séum alltaf að tala um trúna. Við tölum alveg eins um veðrið og lífið í allri sinni mynd.“

Hefur þú einhvern tíma haldið athafnir í fangelsinu?

„Helgihaldið er auðvitað stór hluti af starfinu og rétt eins og annars staðar er messa á jólum og páskum og svo að meðaltali einu sinni í mánuði. Þær eru mjög vel sóttar og fólk er ekkert að velta fyrir sér trúardeildum eða öðru, það bara mætir til að eiga saman góða stund. Erindið er alltaf það sama en þetta er að sumu leyti ólíkt. Oft er þar meiri hreyfing á fólki út og inn en líka þessi djúpa einlægni sem ég tengi við Dorkas-hópinn, þessi hreina tæra einlægni í trúnni sem er svo falleg. En varðandi giftingar eða aðrar athafnir mæli ég með að fólk bíði nema um alvarleg veikindi eða eitthvað slíkt sé að ræða. Að eiga þann dag og þá stund í frelsinu skiptir svo miklu máli.“

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Þakka Samhjálp lífsbjörgina

Sérðu fyrir þér að halda áfram lengi í þessu starfi?

„Nei, ekki endilega. Það eru heilmiklar framkvæmdir að fara í gang á Litla-Hrauni. Meðal annars er verið að koma upp betri aðstöðu til að tala við fólk í einrúmi og mig langar að vera með í þeim breytingum. Hvað sjálfa mig varðar held ég að ekki sé heppilegt að vera allt of lengi í þessu starfi, en það eru ákveðnir þættir sem mig langar að sjá verða að raunveruleika áður en ég hætti.“

Samhjálp gefur öllum föngum á landinu jólagjafir. Hefur þú í starfi þínu orðið vör við viðbrögð við því?

„Samhjálp vinnur einfaldlega svo merkilegt starf. Í því sem að mér snýr er tengingin við Kaffistofuna sterk. Starfið þar er lífsbjörg fyrir svo marga. Við höfum öll þessar grunnþarfir og ég heyri talað af svo mikilli hlýju og virðingu um móttökurnar þar. Svo eru auðvitað þau sem fá að ljúka afplánun í meðferð í Hlaðgerðarkoti. Fólk sem fer í meðferð þar fær að upplifa eitthvað alveg sérstakt. Það eru ýmis tengsl við fangelsin og sumir fangar tala um Samhjálp sem algjöra lífsbjörg. Ég finn líka að fólk sem vill fá fyrirbæn kemur oft úr þessu umhverfi og það er svo fallegt,“ segir Sigrún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál