Gift í 20 ár og finnst hún ekki hafa rödd lengur

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda. Ljósmynd/Samsett

Elínrós Líndal fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem finnst hún ekki muna neitt lengur og á erfitt með að tjá sig við annað fólk. Þar á meðal manninn sinn. 

Hæ hæ. 

Þannig er mál með vexti að ég hef verið gift sama manninum í 20 ár. Við eigum frábært samband að mörgu leyti en ég get misst málið og orðið radd- og þarfalaus í samskiptum við hann. Það er ekki það eina sem er að hrjá mig þessa dagana því stundum er ég svona gagnvart öðru fólki líka. Þegar þetta hellist yfir mig langar mig bara til að skríða undir stein og hverfa. Það er eins og þráðurinn í mér sé mjög stuttur því maðurinn minn og annað fólk er ekkert að æsa sig við mig. Það virðist þurfa mjög lítið til að ég fari í eitthvað rugl. Ég hef verið að reyna að skilja hvers vegna ég sé svona og það er í raun ekkert gamalt sem er að triggera mig. Ég var mjög mikið ein inni í herbergi þegar ég var lítil og horfði stundum á Múmínálfana í sjónvarpinu. Það er það eina sem ég man. Þegar ég hitti fjölskylduna mína og þegar eitthvað gamalt er rætt þá er eins og ég hafi ekki verið með þeim í fjölskyldu - því ég tengi ekkert. Hvað get ég gert til þess að reyna að muna og missa ekki málið? Ég þarf hjálp! 

Kveðja, 

ÞK

Sælar. 

Takk fyrir bréfið þitt. Það gleður mig að heyra þetta með Múmínálfana. Ég held mikið upp á þá. Manstu eftir Ninnu í Múmínálfunum? Ósýnilegu stelpunni í rauða kjólnum sem framkallaðist eftir því sem hún dvaldi lengur með Múmínfjölskyldunni? 

Það sem henni fannst erfiðast í lífinu var að leika sér og taka pláss. Hún var mjög viðkvæm, en hún hafði allan rétt á því. Svona miðað við hvað kom fyrir hana áður. Með stuðningi og ást fór henni að líða betur. Hún þurfti að æfa sig í að verða reið í gegnum leik og fékk flotta endurgjöf frá vinum sínum sem vernduðu hana í bataferlinu. 

Það að hverfa og missa málið í erfiðum aðstæðum getur verið áskorun. Þá sér í lagi þegar annað fólk er farið að stýra ferðinni. 

Það eru til fjölmargar góðar leiðir til að takast á við þetta og mæli ég með aðferðum Piu Mellody meðal annars. Einnig getur verið gott að fara í 12 spora samtök hvað varðar meðvirkni. Það gefur fólki vanalega betri hlustunar mörk og æfingu í allskonar hlutum sem skipta máli í samskiptum við aðra. Meðal annars að taka pláss og tala á fundum. 

Ég trúi ekki á neinar töfralausnir þessu tengt en að verða forvitinn um æskuna þína kemur þér af stað sem og vinna með sérfræðingi þar sem þú dregur fram einkenni þín og persónuleika.

Sumir af helstu sérfræðingum heims eru fólk líkt og þú sem hefur lært með reynslunni að það er best geymt á bak við tölvuna eða inn á bókasafni. Það finnst mér ekki í lagi. 

Gangi þér alltaf sem best!

Kær kveðja, Elínrós Líndal ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál