10 atriði sem munu efla lund á vinnustaðnum yfir hátíðirnar

Sunna Arnardóttir sérfræðingur í mannauðsmálum hjá Vinnuhjálp skrifar um jólaundirbúning …
Sunna Arnardóttir sérfræðingur í mannauðsmálum hjá Vinnuhjálp skrifar um jólaundirbúning í fyrirtækjum. Samsett mynd

Sunna Arnardóttir sérfræðingur í mannauðsmálum hjá Vinnuhjálp skrifar um jólaundirbúning á vinnustöðum og segir mikilvægt að mismuna ekki starfsfólki að aðdraganda jólanna. 

Nú er tímabil hátíða að fara á fullt hjá okkur langflestum og atvinnurekendur nú á fullu að skipuleggja jólaskemmtanir, jólagjafir, jólakaffi, jólahlaðborð, og hvað eina annað sem hægt er að smyrja formerkinu „jóla-“ á fyrir starfsfólk sitt.

Hér á listanum finnur þú nokkrar hugmyndir sem atvinnurekendur geta sett af stað til þess að efla starfsfólk sem og byggja upp jákvætt andrúmsloft yfir eitt gleðilegasta eða erfiðasta tímabil ársins fyrir marga.

Jólaboð - jólahlaðborð

Á mörgum vinnustöðum eru haldin matarboð fyrir starfsfólk, hvort svo sem það sé í formi hlaðborðs eða kvöldmatar, borðað sé á veitingastað eða maturinn sendur á hverja starfsstöð fyrir sig.

Mikilvægt er að allt starfsfólk gangi jafnt til borðs, og að ekki sé skipulagður hádegismatur á vinnustað fyrir suma, en 10 rétta máltíð á dýrindis veitingastað fyrir aðra. Einnig er mikilvægt að atvinnurekendur hafi í huga uppsetningu starfsliðs síns, og sé meðvitað um mismunandi þarfir starfsfólks er kemur að mataræði og aðgengi.

Tilgangur jólaboða er að efla heildina, en ekki maturinn sjálfur eða tíminn sem eyddur er við að borða, og gerist það eingöngu ef heildin tekur þátt sem slík.

„Jóla“- bökunardagur

Hefð er hjá sumum fyrirtækjum að veita starfsfólki leyfi í hálfan eða heilan dag til þess að „fara heim að baka“. Er þetta launað leyfi frá störfum sem er ótengt veikinda- eða orlofsréttinum starfsfólk.

Mikilvægt er að atvinnurekendur hafi í huga bökunardagurinn myndi ekki stéttaskiptingu eða að starfsfólk skynji ójafnrétti eða vanvirðingu gagnvart sínu starfi/starfskröfum við útdeilingu þessarar frítöku, og að leyfi til þessarar frítöku dreifist jafnt yfir allt starfsfólk, óháð starfstitli og starfsstöð, skrifstofufólks jafnt og fram- og baklínufólks.

Jólagjafir

Að gefa jólagjafir er gamall og gildur siður, sem margir atvinnurekendur leggja mikið stolt í er kemur að því að velja góðar jólagjafir sem nýtast starfsfólki sem best, og er vinnan við jólagjafainnkaup oft hafin í lok ágúst/byrjun september hjá mörgum atvinnurekendum.

Mikilvægt er að jafnrétti sé í gildi er jólagjafir séu valdar fyrir starfsfólk, og forðast sé að gefa stjórnendum stærri, dýrari, eða flottari jólagjafir heldur en fram- og baklínufólki þar sem það myndi skapa skýra stéttarskiptingu sem myndi setja upp erfitt andrúmsloft milli „efri og neðri“ stétta.

Ef mismunur á jólagjöfum er milli starfstitla/deilda hjá atvinnurekanda, er það oft eins og að fá kjaftshögg frá atvinnurekandanum fyrir þá sem minna fá, og skref að því að traust og virðing gagnvart atvinnurekandanum snar minnkar óháð öðrum viðburðum og aðstæðum á vinnustaðnum.

Jólailmur

Fyrir marga eru hátíðirnar tengdar vissum ilm. Mögulega er erfitt að koma ilm af hangikjöti á vinnustaðinn, og það mögulega ilmur sem fari í einhverja. Að sama skapi er ekki alltaf hægt að fylla vinnustaðinn af ilmandi nýbökuðum smákökum. En hægt er að veita starfsfólki aðgang að mandarínum og negulnöglum, eða setja jólablóm upp á vinnustöðum. Dagamunur þarf hvorki að vera flókinn né dýr, svo lengi sem ánægja og gleði starfsfólks sé í algjöru fyrirrúmi.

Jólakaffi

Jólakaffi er, ólíkt jólaboðum, alltaf haldið á starfsstöðvum og oftast skipulagt af millistjórnendum eða starfsfólki sjálfu og er því eðlilegt að jólakaffið sé misjafnt milli kaffistofa. Er samt sem áður mikilvægt að atvinnurekendur hafi í huga að allt starfsfólk njóti góðs af jólakaffishefðinni ef hún er til staðar, og að millistjórnendur hugi að þörfum einstaklinga vegna mataræðis sem og vegna aðgengis þar sem við á svo allir geti tekið þátt. Starfsfólk sem starfar utandyra, eða er á flakki milli starfsstöðva og mögulega með enga fasta starfsstöð, þarf sérstaklega að halda utan um og er mikilvægt að atvinnurekendur hafi það starfsfólk sérstaklega í huga og hafi lausnir tilbúnar þar á, þó svo atvinnurekandinn sjálfur sé ekki að skipuleggja jólakaffið.

Mikilvægt er að stjórnendur geri ekki upp á milli starfsfólks.
Mikilvægt er að stjórnendur geri ekki upp á milli starfsfólks. Devin Nelson/Unsplash

Jólaskemmtanir

Jólaskemmtanir gerast oft samhliða jólaboðum, en sumir atvinnurekendur skipuleggja jólaskemmtanir sérstaklega. Á jólaskemmtun er til dæmis gengið í kringum jólatré, jólasveinar koma og skemmta börnum starfsfólks, eða skemmtikraftar eru fengnir til að halda uppistand eða tónleika fyrir starfsfólk.

Það er mikilvægt að jólaskemmtanir séu vel auglýstar og skipulagðar þannig að sem flestir geti notið góðs af og notið samverunnar með samstarfsfólki sínu. Tilgangur jólaskemmtana er ekki til að sýna yfirburði eða frumlegheit, heldur til þess að efla liðsheild og veita starfsfólki tækifæri til að slappa af og eiga notalegar, jákvæðar, og hressar stundir saman.

Setjum allt stolt til hliðar, sleppum því að láta ljósmyndara mæta á svæðið til að fá fyrirsögn um jólaskemmtun starfsfólks í fjölmiðla, og sköpum umhverfi og aðstæður til að mynda jákvæðar minningar með starfsfólki okkar án þess að nýta aðstæður sem almannatengsla viðburð.

Jólaskreytingar

Oftar en ekki er einhver aðili fenginn til þess að skreyta fyrir jólin hjá atvinnurekanda. Er það oftar en ekki aðili af skrifstofunni sem hefur tíma aflögu í sínu starfi til að sinna skreytingunum. En athuga skal að það að skreyta fyrir jólin er oft metið sem jákvæður hluti af hátíðunum, og það að leyfa einum einstakling að njóta þessarar hefðar getur fengið starfsfólk til að skynja að sá aðili sé „uppáhalds“.

Góð hugmynd er fyrir atvinnurekendur að skipuleggja jólaskreytingar sem stund fyrir allt starfsfólk, á öllum starfstöðvum, óháð starfstitli, þar sem allir taka þátt í að gera vinnustaðinn hátíðlegan fyrir hátíðirnar.

Jólasveinar á vinnustaðinn

Er það mikilvægt að atvinnurekendur skipuleggi skemmtanir og tilkynni um þær með góðum fyrirvara svo að allt starfsfólk fái tækifæri til þess að skipuleggja sína vinnu og njóta að minnsta kosti hluta af skemmtuninni með samstarfsfólki sínu. Gildir þetta sérstaklega við ef bjóða á grímuklæddu fólki inn á vinnustaðinn á vinnutíma.

Það er mikilvægt að atvinnurekendur átti sig á að sumt starfsfólk er ekki hrifið af óvæntum atburðum, og skynja mikinn kvíða við að geta búist við grímuklæddum leikara við vinnuaðstöðu sína hvenær sem er yfir hátíðirnar og að samskipti við handahófskenndan aðila undir þykku hvítu skeggi geti verið erfitt mörgum.

Gott er að bæði tilkynna um heimsóknir frá jólasveinum með fyrirvara, sem og skilgreina vel hvar heimsóknirnar munu fara fram á vinnustaðnum fyrir þá aðila sem kjósa að sleppa öllum samskiptum við jólasveinana.

Laun-jólasveinaleikir

Starfsfólk er misjafnt líkt og það er margt og eru margar ástæður fyrir því af hverju laun-jólasveinaleikir (e. secret santa) geta verið skemmtilegir, eða hreinlega erfiðir/niðurrífandi á vinnustað.

Margt starfsfólk nýtur þess að finna jólagjöf handa sínum gjafaþega, og stundum eru það gjafir í fleirtölu. Vinnuaðstöður eru skreyttar, og skemmtileg skilaboð eru send á milli fólks í algjörri nafnleynd þar til nafnleynd laun-jólasveina er aflétt með mikilli pompi og prakt áður en hátíðirnar ná hámarki í lok desember.

Aðrir skynja þetta sem þrýsting frá samfélagslegum reglum um framkomu og hegðun sem er ekki þeim eðlislæg eða er þeim hreinlega erfið, og skynja þeir laun-jólasveinar sig sem mikla eftirbáta sem veitir þeim vanlíðan yfir hátíðirnar. Ekki bara hafa þeir laun-jólasveinar áhyggjur af því að „vera eins skemmtilegt og allir hinir“, heldur einnig fylgir sú tilfinning að verið sé að svíkja sinn gjafaþega með því að „vera ekki nógu skemmtileg“. Einnig fylgir laun-jólasveinum oft sú kvöð að kaupa að minnsta kosti eina gjöf handa sínum gjafaþega, sitthvað sem mörgum laun-jólasveinum finnst þá annað hvort erfitt að velja eða eiga erfitt með fjárhagslega að standa undir.

Að sama skapi þá skynja gjafaþegar sig oft útundan; að sjá samstarfsfólk fá fjöldann allan af gjöfum, skemmtileg skilaboð, og mikinn hlátur og skemmtun hjá öðrum, á meðan það sjálft hefur áhyggjur af því að laun-jólasveininum þeirra hreinlega líki illa við sig.

Laun-jólasveinaleikir eru því skemmtilegir, ef allt starfsfólk er á sama stað og er veitt sömu tækifæri frá atvinnurekanda til að standa jafnfætis í leiknum.

Starfsfólk sjálft

Við horfum mikið á það hvað atvinnurekandi okkar getur gert fyrir okkur á meðan hátíðirnar eru. Við tölum um hvað við fáum frá atvinnurekanda, hversu oft eitthvað er gert, og hvaða hugarfar fylgir því sem gert er fyrir okkur. Hátíðirnar eru oft séðar sem tímabil þar sem talin er saman sú krónutala sem atvinnurekandinn eyðir í starfsfólk sitt umfram önnur tímabil.

En við gleymum því að peningatalan er ekki það mikilvægasta heldur líðan. Við sjálf setjum hátíðarskapið hjá okkur sjálfum, óháð því hversu mikið atvinnurekandi eyðir í okkur, og að við getum haft jákvæð áhrif á fólkið í kringum okkur.

Það er ekki okkar að bjarga hátíðum hjá öðrum, eða að sjá til þess að allir séu í hátíðarskapi alla daga. En það er okkar að sjá til þess að við séum ekki ástæðan fyrir því að einhver skynji aðstæður erfiðar, neikvæðar eða óvinveittar sér á nokkurn máta.

Sitthvað sem er mikilvægt að við öll tileinkum okkur á vinnustaðnum, óháð atvinnurekanda, árstíma, og atburðum í okkar nærumhverfi og samfélagi.

Að lokum

Þessi listi er alls ekki tæmandi, en það liggur uppi að það skiptir svo sem engu hvað atvinnurekendur kjósa að gera fyrir starfsfólk sitt yfir hátíðirnar svo lengi sem jafnrétti sé haft í hávegum og virðing sé borin gagnvart mismunandi þörfum og kröfum sem flestra, og að ánægja og gleði gagnvart (og með) starfsfólki sé í algjöru fyrirrúmi.

Dagamunurinn þarf ekki að vera dýr, eða flókinn, en að vera skipulagður þannig að hann styðji við allt starfsfólkið og veiti því ánægju í vinnunni. Hvort svo sem það sé að jólasveinar séu ráðnir inn í fullt starf með tilheyrandi jólamáltíðum og gjöfum alla daga, eða einfaldlega að starfsfólk fái að skreyta vinnustaðinn sinn saman, þá munu hvers kyns jákvæð og ígrunduð skref varðandi dagamun skila sér margfalt tilbaka til atvinnurekanda í formi jákvæðra minninga og tengsla við starfsfólk.

Verum þeir atvinnurekendur (og það starfsfólk!) sem fyllir samstarfsfólk okkar af gleði og ánægju yfir hátíðirnar!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál