Er hægt að fyrirgefa ítrekað framhjáhald?

Íslenskur karl leitar ráða hjá Tinnu Rut Torfadóttur sálfræðingi.
Íslenskur karl leitar ráða hjá Tinnu Rut Torfadóttur sálfræðingi. Unsplash/Deon Black

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda. Hér fær hún spurningu frá manni sem er ráðþrota því eiginkona hans er honum ótrú en segist ítrekað elska hann mjög mikið þegar hann finnur ný sönnunargögn um framhjáhald. 

Sæl Tinna. 

Ég er 63 ára og bý með konu sem er fimmtug. Við höfum búið saman í rúm 30 ár og eigum 3 uppkomin börn. Fyrir svona 12 árum fór hún að breytast, fór að hugsa mikið um útlitið og klæðaburð eins og hún væri verða gella og líta út fyrir að vera yngri. Hún hætti að ganga með hringinn, sagðist hafa týnt honum og fór í allskonar leikfimi og var mikið að heiman.

Fyrir 10 árum veikist ég mikið og þurfti að dvelja töluvert á spítala. Stundum var þetta tvísýnt og ég er ennþá að kljást við það. Ég upplifði að það væru mörg merki uppi um að hún héldi framhjá mér en þegar ég gekk á hana þrætti hún alltaf fyrir það. 

Við fórum í útilegu 2018 með vinahópnum og var mig búið að gruna hana og vin okkar um vera að hittast. Það sem gerist er að ég kem að þeim á útikamri þarna en samt byrjaði hún að þræta og sagði að þetta hefði bara gerst þetta eins skipti. Hún sagðist elska mig, bara mig og bað um annað tækifæri sem ég samþykkti því ég elska hana. 

Stuttu seinna fann ég mjög kynferðislegar myndir hjá henni sem hún hafði augljóslega verið að senda öðrum. Árið 2020 fann ég myndir og myndbönd af henni sem voru frekar gróf og sá að hún hafði sent sjötugum karli þessar myndir. Þegar ég spurði hana út í þetta byrjaði hún að þræta en svo kom það. Hún hafði verið að hitta hann í marga mánuði svo þetta var augljóslega orðið mjög skipulagt hjá henni. 

Hún bað mig um að taka við sér og byrja upp á nýtt og ég samþykki því hún sannfærði mig um að hún elskaði bara mig. Hún lofaði að þetta myndi ekki gerast aftur. 

Mér finnst litið hafa breyst í hennar hegðun og þetta sé bara ennþá í gangi. Ofan á allt var þessi sjötugi maður karl sem við þekkjum bæði. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég elska hana en mér líður illa með þetta og er enn að kljást við veikindi.

Með von um svar,

K

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda.

Sæll

Takk fyrir að hafa samband.

Mikið leitt að heyra að konan þín sé búin að bregðast þínu trausti oftar en einu sinni. Auðvitað getur það gerst að fólk geri mistök, taki hliðarspor, iðrist og sambandið nái að blómstra á ný þ.e.a.s. ef báðir aðilar eru tilbúnir í að fyrirgefa og byggja sambandið upp á ný. En í þínu tilfelli þá hefur konan þín greinilega ítrekað brugðist þínu trausti og oftar en einu sinni lofað því að hún muni ekki gera það aftur en það svo ekki staðist. Þessi hegðun hennar er ekki ásættanleg og felur hún í sér mikla vanvirðingu í þinn garð. Hún segist elska þig, en spurningin er hvort hún meini í raun og veru það sem hún segir?

Auðvitað elskar þú hana, eins og þú segir, enda sambandið ykkar búið að vara í rúm 30 ár. En það sem þú þarft að gera er að setja henni mörk, það getur verið erfitt, en ég hvet þig til að spyrja þig hvort þetta sé það sem þú vilt í sambandi ykkar? Viltu vera með konu sem þú getur ekki treyst, sem segir þér ósatt og er að pukrast á bak við þig?

Heilbrigð sambönd byggja á trausti, heiðarleika og virðingu. Þó það sé leitt að segja það þá heyrist mér sambandið ykkar ekki byggja á þessum gildum. Ég held ég geti lofað þér því að það er enginn sem vill vera í slíku sambandi. Ég legg til að þú ígrundir vel og vandlega það sem þú vilt gera í þinni stöðu, en eitt er víst að þú getur ekki setið og gert ekki neitt. Það gæti verið gagnlegt fyrir þig að leita ráða hjá sálfræðingi, ræða við hann um stöðuna og spegla við hann hvaða leiðir eru í boði.

Ef þú ákveður að halda sambandinu áfram með henni þá þarftu að setja henni mörk, þá gæti verið gagnlegt fyrir ykkur ef þið farið þessa leið að leita til hjónabandsráðgjafar. Í þeirri von um að fá verkfæri í hendurnar til að byggja upp samband sem byggist á trausti, heiðarleika og virðingu.

Gangi þér sem allra best.

Kveðja, Tinna 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál