Helga Vala Helgadóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smarlands. Hér fær hún spurningu
Hæ hæ!
Er í skráðri sambúð og átti íbúð sem ég seldi og notaði peninginn upp í kaup á húsi sem við keyptum sameiginlega. Hvernig er best að tryggja það að sá peningur sem ég setti upp í kaupin verði sérmerkt mér? Þetta var sett sem athugasemd inn í kaupsamninginn á húsinu sem við keyptum saman, er það nóg? Við erum skráð með sitthvor 50 % vegna húsnæðislánanna.
Kveðja,
ein miðaldra
Sæl vertu
Samkvæmt því sem lesa má í spurningu þinni þá eruð þið í skráðri sambúð en ekki hjúskap. Um sambúð gilda ekki sömu reglur og í hjúskap hvað varðar eignir og því skiptir máli hvernig eignarhlutur ykkar er skráður. Þeir fjármunir sem þú settir inn í eignina umfram meðeiganda ættu þannig að ráða skráðum eignarhluta þínum í viðkomandi eign. Þú segir jafnframt í spurningu þinni að þið séuð skráð að jöfnu fyrir skuldunum, og því mikilvægt að hafa í huga að hafið þið ekki lagt til sambærilega fjárhæð við kaupin þá væri rétt að taka tillit til þess við skráningu á eignarhluta þínum í fasteigninni.
Gangi ykkur vel
Helga Vala Helgadóttir lögmaður
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Helgu Völu og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR.