„Það var eiginlega ekkert bónorð því ég eyðilagði það“

Helga og Birgir sáu hvort annað fyrst þegar þau voru …
Helga og Birgir sáu hvort annað fyrst þegar þau voru 12 ára en nú eru þau hjón. Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson
Helga Þuríður Hlynsdóttir Hafberg tryggingaráðgjafi hjá Sjóvá og Birgir Loftur Bjarnason sjómaður hittust fyrst 12 ára gömul í Reykjaskóla en ástin kviknaði ekki fyrr en seinna eða árið 2010 í Menntaskólanum á Ísafirði. Þau voru gefin saman af séra Magnúsi Erlingssyni í Ísafjarðarkirkju 24. ágúst. 

Óþolandi týpa sem ekki er hægt að koma á óvart

Þegar Helga er spurð út í bónorðið og hvernig það hafi borið að kemur í ljós að það var eiginlega ekkert bónorð. 

„Það var eiginlega ekkert bónorð því ég eyðilagði það. Við vorum nýbúin að eignast Hrafntinnu Rós, litlu stelpuna okkar árið 2018. Hún var bara nokkra daga gömul þegar það kom bréf heim í pósti um að Birgir ætti pakka á pósthúsinu. Ég var svo spennt að komast aðeins út úr húsi og áður en hann fékk að skoða bréfið sagðist ég ætla að sækja pakkann og var snögg af stað,“ segir Helga. 

„Ég er óþolandi týpa en það er eiginlega ekki hægt að koma mér að óvart. Ég var svo spennt yfir þessum pakka að ég opnaði hann áður en ég var komin heim aftur. Í pakkanum var hringur,“ segir hún og hlær.

„Ég hringdi í Birgi á leiðinni heim, voða spennt yfir þessum dásamlega fallega hring sem var búið að grafa tvö hjörtu inn í. Ég spurði hann beint út hvort hann ætlaði ekki að nýta tækifærði og biðja mín fyrst hann væri búinn að kaupa hring. Svarið hans var þetta: „Jú það var nú eiginlega planið.“

Þetta augnablik var eiginlega bara alltof lýsandi fyrir okkur og bara fullkomið. Ég kom síðan heim, við settumst inn í stofu með nýfæddu Hrafntinnu okkar. Ég búin að setja hringinn sjálf upp og allir voða sáttir,“ segir Helga og hlær. 

Birgir dregur hring á fingur Helgu.
Birgir dregur hring á fingur Helgu. Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson

Hugmyndavinnan byrjaði strax

Hvað voruð þið lengi að undirbúa brúðkaupið ykkar?

„Við ákváðum dagsettninguna tveimur árum áður. Hugmyndarvinnan byrjaði eiginlega þá strax þegar við vorum búin að negla daginn. Við fórum í að bóka allt sem við gátum bókað og svoleiðis ári áður.“

Gerðuð þið allt sjálf eða fenguð þið hjálp við að skipuleggja brúðkaupið?

„Að sjálfsögðu fengum við hellings aðstoð. Ég var mest ein í hugmyndarvinnunni og það er klárlega eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Birgir leyfði mér alveg að sjá um þetta. Hann er auðvitað besti stuðningurinn og hans hlutverk var bara að vera sammála öllu sem ég lagði undir hann,“ segir hún og hlær.

„Að framkvæma síðan allt er síðan allt annað mál. Þar kom fólkið í kringum okkur sterkt inn. Við hefðum aldrei getað gert þetta allt án þeirra. Ég var með yndislega konu á hliðarlínunni í undirbúningnum sem ég bar hugmyndirnar mínar undir og hún hjálpaði okkur helling.“

Hjónin skáru fyrstu tertusneiðina saman.
Hjónin skáru fyrstu tertusneiðina saman. Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson
Það fór vel á með hjónunum á brúðkaupsdaginn. Þau þekkjast …
Það fór vel á með hjónunum á brúðkaupsdaginn. Þau þekkjast ágætlega enda búin að vera saman í 14 ár þegar þau voru pússuð saman. Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson

Fær 10,5 í einkunn! 

Getur þú lýst brúðkaupsdeginum?

„Dagurinn var fullkomin í alla staði. Það var ekkert sem klikkaði ef ég get orðað það þannig.  Dagurinn var bara nákvæmlega eins og við sáum hann fyrir okkur. Það gekk allt upp og var allt upp á 10,5! Við ákváðum að sofa heima hjá okkur fyrir brúðkaupsdaginn og vildum vakna með börnunum okkar sem var voða næs. Þegar við vöknuðum fór ég og dóttir okkar heim til systur minnar sem býr í næstu götu og þar fór ég í hár og förðun ásamt mínum nánustu gullkonum. Við áttum yndislega stund þar saman fyrir athöfn. Birgir og litli strákurinn okkar voru heima hjá okkur og þar var hópur af fólkinu okkar sem græjuðu sig og áttu skemmtilegar stundir með feðgunum,“ segir Helga.

Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson

Athöfnin var í Ísafjarðakirkju og Regína Ósk Óskarsdóttir og Svenni sáu um tónlistina. 

„Það var auðvelt að fella tár yfir flutningnum þeirra. Eftir athöfn fórum við í myndartöku, en veðrið var ekki alveg með okkur þannig við ákváðum að fara í myndatöku inni á bókasafninu á Ísafirði sem áður fyrr var Sjúkrahús. Frábæri Ásgeir Helgi Þrastarson ljósmyndari var með okkur allan daginn og fangaði dásamleg augnablik. Veislan var í Félagsheimilinu í Bolungarvík. Veislan var svo falleg og skemmtileg. Ein vinkona mín sagði við mig eftir brúðkaupið; „Helga, það er eins og þú hafir ritskoðað allar ræðurnar!“ Þær voru allar svo fallegar, svo skemmtilegar og svo frábærar! Öll atriðin í veislunni voru upp á 10! Við fengum Júlí Heiðar og Kristmund Axel til að mæta þegar partíið byrjaði og þeir voru einn af hápunktunum. Þvílíkir stemmningsmenn! Doctor Victor var Dj. Hann var algjörlega frábær og spilaði frammá nótt! Ég ætlaði ekki að geta fundið tíma til að skipta yfir í partídressið, vildi ekki missa af einu lagi sem var spilað,“ segir hún. 

Það var svo leiðinlegt verður á brúðkaupsdaginn að brúðkaupsmyndirnar voru …
Það var svo leiðinlegt verður á brúðkaupsdaginn að brúðkaupsmyndirnar voru teknar á bókasafninu á Ísafirði. Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson
Helga og Birgir með börnin sín tvö, Hrafntinnu Rós og …
Helga og Birgir með börnin sín tvö, Hrafntinnu Rós og Almar Bjarna. Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson

Draumi líkast! 

Hvað stóð upp úr frá stóra deginum? Var eitthvað sem kom þér á óvart?

„Vá það er svo margt sem stendur upp úr! Það eru fá augnablik sem jafnast á við það þegar hurðin í kirkjunni opnast, maður sér allt fólkið sitt saman komið til að fagna og eyða deginum með okkur. Það er draumi líkast. Að labba inn kirkjugólfið með pabba, krakkarnir á undan og Birgir standandi, bíðandi eftir að sjá okkur og við hann. Það er augnablik sem við munum aldrei gleyma,“ segir Helga og fær gæsahúð við tilhugsunina. 

„Ég myndi svo segja að annað mesta gæsahúðaraugnablikið hafi verið þegar fólkið okkar í veislunni var með óvæntan samsöng. Það var þannig að vinur okkar og pabbi minn fóru upp á svið og spiluðu lagið Leiðin okkar allra á gítar. Frændi minn frá Sauðárkróki bjó til texta við það lag fyrir tveimur árum þegar ég tók þátt í sambærilegum samsöng í brúðkaupi hjá frænda mínum og konunni hans. Við áttum engan veginn von á því að þetta atriði myndi verða í okkar veislu. En þetta er þannig að einn úr salnum stendur upp og syngur erindi, svo stendur næsti upp, og svo koll af kolli. Það voru átta manns sem stóðu upp og sungu erindi, og það sem er skemmtilegast við þetta er að maður veit aldrei hver stendur næst upp. En þegar lagið byrjaði áttaði ég mig á hvaða atriði væri að fara í gang en í lokin stóð allur salurinn upp og söng erindi sem vinkona foreldra minna var búin að semja fyrir okkur, um okkur Birgi. Það var erfitt að fara ekki að frussgrenja í því augnabliki. Einstaklega falleg stund,“ segir hún. 

Helga fékk það verkefni að skipuleggja stóra daginn.
Helga fékk það verkefni að skipuleggja stóra daginn. Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson

Galið að vera ekki gift

Hvers vegna skiptir máli að vera í hjónabandi?

„Við töluðum stundum um áður en við giftum okkur að það sé eiginlega galið að vera ekki gift. Við vorum búin að vera saman í 14 ár, eignast tvö börn, kaupa fasteign og reka fyrirtæki saman svo eitthvað sé nefnt,“ segir Helga en þau birgir reka litla útgerð saman og eiga strandveiðibát. 

„Birgir er sjómaður sem er áhættustarf. Svo er þetta líf bara svo óútreiknanlegt. Mér finnst mikil öryggistilfinning að við séum orðin gift. Svo er það líka bara ákveðin staðfesting fyrir sambandið. Staðfesta á að við viljum eyða þessu fallega lífi sem við höfum skapað okkur saman í blíðu og stríðu, alltaf!“

Hér eru hjónin nýgift fyrir utan bókasafnið á Ísafirði.
Hér eru hjónin nýgift fyrir utan bókasafnið á Ísafirði. Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson

Féll fyrir kjólnum

Hvað getur þú sagt mér um brúðarkjólinn þinn?

„Ég keypti kjólinn minn í Loforð. Sú verslun er himnesk og það að er upplifun útaf fyrir sig að koma inn í verslunina og fara í mátun. Ég var innst inni viss um að ég vildi síðerma kjól, en ég mátaði allskonar kjóla og það kom einn sterkur til greina sem var alls ekki með ermum. En niðurstaðan var síðerma kjóllinn sem ég var búin að hafa augun á áður en ég mætti í mátunina. Ég var ólýsanlega ánægð með kjólinn minn. Hann var allt sem ég óskaði mér.“

Elísabet Traustadóttir förðunarfræðingur og mágkona Helgu farðaði hana fyrir giftinguna. 

„Hún þekkir mig út í gegn og vissi nákvæmlega hvernig ég vildi vera og henni tókst að sjálfsögðu að farða mig fullkomlega. Regína Huld Guðbjarnadóttir hársnyrtir gerði greiðsluna. Það var sama upp á tengingin þar, hún þekkir mig, vissi nákvæmlega hvað ég vildi og framkvæmdi það ótrúlega vel.“ 

Hjónunum var fagnað af öllu hjarta þegar þau gengu inn …
Hjónunum var fagnað af öllu hjarta þegar þau gengu inn í veislusalinn. Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson

Var mest hrædd um að flugið myndi klikka 

Varstu stressuð fyrir stóra deginum?

„Nei eiginlega ekki. Skipulagningin skilaði sér svo sannarlega og varð til þess að ég var bara ekki neitt stressuð. Ég var stressuð jú fyrir einu, að það yrði ekki flogið. En það þarf stundum ekki mikið til að vélin geti ekki lent hér á Ísafirði. Regína Ósk, Svenni, Júlí Heiðar, Kristmundur Axel og Victor voru öll að koma vestur með morgunvélinni þennan dag. Ég ætla ekki að lýsa tilfinningunni þegar ég heyrði vélina fljúga yfir húsið meðan ég var í greiðslu.“

Hvernig hafa hveitibrauðsdagarnir verið?

„Ótrúlega ljúfir. Við tókum okkur frí nokkra daga eftir stóra daginn þar sem við nutum þess að vera saman og komast niður á jörðina. En annars er haustrútínan komin á fullt og hún er alltaf best. Við ætlum að fara tvö í viku sólarlandaferð í nóvember og hafa það næs. En við erum ennþá á bleika skýinu og skoðum myndir og myndbönd daglega. Við fengum DH Kreatív til að vera með okkur allan daginn, frá þeim fengum við í hendurnar einstaklega fallegt samantektarmyndband, allar ræður, atriði og alla athöfnina. Þeir voru svo miklir fagmenn! Við fundum aldrei fyrir þeim, að þeir væru með tvær myndavélar að taka upp. Ég man ekki eftir þeim í athöfninni eða veislunni en allt efnið sem við fengum. Það er þvílíkt dýrmætt að eiga þetta allt saman og geta endurupplifað þennan dag frá A-Ö. Ég held ég tali alls ekki bara fyrir sjálfa mig þegar ég segi að á svona viðburðarríkum degi þá nær maður alls ekki að meðtaka allt og sumt man maður bara í móðu. Þetta var búið að segja við okkur og okkur fannst ekki annað koma til greina en að fá fagfólk til að eyða deginum með okkur og taka sem mest upp til að eiga til eilífðar.“

Júlí Heiðar skemmti í veislunni.
Júlí Heiðar skemmti í veislunni. Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson
Eins og sjá má var einstök stemning í brúðkaupinu.
Eins og sjá má var einstök stemning í brúðkaupinu. Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson
Helga kastaði vendinum út í sal.
Helga kastaði vendinum út í sal. Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson
Helga og Birgir með fjársjóð sinn; börnin tvö.
Helga og Birgir með fjársjóð sinn; börnin tvö. Ljósmynd/Ásgeir Helgi Þrastarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda