Kannanir hafa sýnt að einn af hverjum fimm hafi stundað kynlíf með einhverjum öðrum en maka sínum. Í ljósi þeirra upplýsinga fór blaðamaður The Stylist á stúfana til að kanna hver ástæðan gæti verið og hvort eitthvað sameini þá sem halda framhjá.
Dr Janine Hayward er klínískur sálfræðingur sem sérhæfir sig í framhjáhöldum og deilir með lesendum því sem hún hefur lært í gegnum tíðina.
„Oft leitast fólk við að vera „séð“ og endurheimta eigið sjálf þegar það sækir í framhjáhöld. Konur gætu hafa týnt sér í móðurhlutverkinu og karlar vilja vera þráðir. Konur halda frekar framhjá ef þær upplifa ekki nánd og finna að sambandið sé að næra þær andlega á meðan karlar halda framhjá ef þeim finnst vera skortur á kynlífi.“
„Þegar fólk hefur haldið framhjá þá getur það haft gríðarlegar afleiðingar fyrir sambandið. Flestir makar upplifa djúpstæð svik og fara í gegnum mikið sorgarferli. Sambandið eins og þau þekkja það er horfið. Þá líður þeim eins og allt sambandið hafi kannski verið byggt á sandi. Þá fara sumir að kenna sjálfum sér um og upplifa þverrandi sjálfstraust.“
„Það eru ekki allir óánægðir í sambandinu. Maður getur verið innilega ástfanginn af makanum en samt haldið framhjá. Sumir halda framhjá til þess að prófa eitthvað nýtt í kynlífi sem þeir eru ekki öruggir með að kanna með makanum. Margir telja að það að halda einhverju leyndu sé að sýna fólki tillitsemi en það er alls ekki svo. Það rýrir allt traust og skapar fjarlægð í sambandinu.“
„Flestir sem halda framhjá eiga það sameiginlegt að hafa einblínt mjög á andartakið og hugsa meira um spennuna en mögulegar afleiðingar. Þeir þurfa að fá eitthvað en hugsa ekki um afhverju þessi tilfinning stafar.“
„Skömm og samviskubit fylgja framhjáhölduum en margir reyna líka að réttlæta framhjáhöldin. Það eru nefnilega ekki allir sem geta viðurkennt að hafa stigið feilspor.“
„Margir fara að kenna makanum um og segja að sambandið hafi verið komið á endastöð. Þessu fylgir mikil skömm þegar þetta uppgötvast og þeir vilja komast yfir þetta hratt og örugglega og að makinn hætti að pæla í þessu og fyrirgefi sem fyrst. Sérstaklega ef þeir lýsa yfir bót og betrun.“
Tengslastíll getur sagt til um hvort þetta endurtaki sig. „Ef fólk fer ekki í sjálfsvinnu og rýnir í sinn tengslastíl í samböndum þá getur þetta endurtekið sig. Það verður alltaf til staðar einhver freisting og tækifæri."
„Það er misskilningur að fólk verði að hætta saman. Ef báðir aðilar vilja vinna úr sínum málum þá er það hægt. Margir hafa varið miklum tíma í sambönd sín og eru ekki tilbúin að gefa þau upp á bátinn. Sérstaklega ef börn eru í spilinu. Kannanir hafa sýnt að um 57% para halda áfram að vera saman.“