Á eigandi bifreiðar að borga skuld ef viðkomandi lánar bílinn?

Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson hrl. á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum …
Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson hrl. á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. mbl.is/Eyþór Árnason

Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson hrl. á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem lánaði frænku sinni bifreið. Eftir að frænkan fór af landi brott fékk hún óvænta rukkun í heimabanka sinn. Hvað er til ráða? 

Sæll Vilhjálmur. 

Ég lánaði fjarskyldri frænku minni frá Austfjörðum bílinn minn en hún var hér í heimsókn. Áhyggjur mínar snerust aðallega að því að bílnum yrði skilað óskemmdum enda nýlegur og alltaf vel bónaður. Nokkrum dögum eftir að hún var farin þá fékk ég rukkun í heimabanka vegna bílastæðis sem hún á að hafa lagt í á meðan hún var með bílinn.

Á ég að borga þetta!?

Kveðja, 

EH

Heil og sæll og takk fyrir spurningununa.

Hvað svar við henni varðar þá fer það alls kostar eftir því hvar viðkomandi bílastæði er sem sekt eða gjald er vegna, þ.e. hvort gjaldskylda sé skv umferðarlögum eða samkomulagi um notkun á einkastæði.

Ef um er að ræða sekt sem er lögð á samkvæmt umferðarlögum, lögð á af hálfu lögreglu eða stöðuvarða, vegna stöðubrota í umferðinni eða lagningar í bifreiðastæði á opinberum stæðum þá gildir sú regla að ökumaður ber greiðsluskylduna. Hins vegar ber eigandi og ábyrgðarmaður ökutækis greiðsluskyldu ef ekki er vitað um ökumann eða hann greiðir ekki. Í framkvæmd er það þó svo að gjald vegna bifreiðar sem er lagt í andstöðu við umferðarlög er einfaldlega sent til eiganda, sem þá eftir atvikum getur bent á ökumann. Heimild til þessa er í 1. mgr. 110. gr. umferðarlaga og felur í sér hlutlæga ábyrgð eiganda.

Ef hinsvegar um er að ræða svokölluð einkabílastæði þá gilda aðra reglur. Þar er ekki um að ræða hlutlæga ábyrgð eiganda eða skráðs umráðamanns ökutækis. Í slíkum aðstæðum gildir samningsfrelsið og það er sá sem ekur ökutæki í hvert sinn sem ber ábyrgð á því hvort hann leggi í gjaldskylt einkastæði eður ei. Það er því engin hlutlæg ábyrgð við slíkar aðstæður. Eigandi bifreiðastæðis getur því ekki innheimt kröfu á eiganda ökutækis nema hann sanni að eigandinn hafi verið að aka ökutækinu, enda ökumaður sem er viðsemjandi en ekki eigandi. Þetta er í raun ekkert öðruvísi heldur en hver önnur þjónusta sem aðili kaupir sér og er bundinn við einstakling en ekki eiganda.

Á þetta reyndi í Hrd. 7/2024 en þar var eigandi ökutækis bílaleiga en ökumaður ökutækis var ferðlangur sem lagði í bílastæði í Hafnartorgi. Hafnartorg stefndi bílaleigunni til greiðslu, þ.e. eiganda ökutækisins, sem var svo með dómi Hæstaéttar sýknuð af því að greiða umrætt gjald. Niðurstaðan var í einföldu máli sú að ekki var talið sannað að ökumaðurinn hafi haft umboð eiganda ökutækisins til að gangast undir skuldbindingu um að leggja í gjaldskylt stæði og þ.a.l. engin greiðsluskylda fyrir hendi hvað eiganda ökutækisins varðaði.

Þó svo að það væri sannað að eigandi ökutækis hafi verið að aka því í umrætt sinn þá er það ekki nægjanlegt eitt og sér heldur þarf að komast að því hvort að merkingar hafi verið nægilega skýrar og áberandi til að sá sem þar lagði væri talinn hafa í verki gengist undir greiðsluskuldbindingu með því að leggja bifreið í stæði, en það er matsatriði í hverju máli fyrir sig.

Kveðja, 

Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson hrl.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Vilhjálmi og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR. 

Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson hrl. á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum …
Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson hrl. á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. mbl.is/Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda