„Maður er alveg fær um að elska fleiri en bara eina manneskju“

Kara og Viktor byrjuðu saman í lokuðu sambandi árið 2020, …
Kara og Viktor byrjuðu saman í lokuðu sambandi árið 2020, þau hafa verið að færa út kvíarnar og prófa sig áfram. Í dag stunda þau fjölást. Ljósmynd/Aðsend

Það eru ekki allir eins, sem betur fer. Lífið er einfaldlega miklu skemmtilegra þegar fólk er fjölbreytt. Viktor Böðvarsson er 35 ára markaðsfræðingur og eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Reykjavík Rollers, ásamt kærustu sinni Köru Rut Hanssen.

Parið, sem hefur verið saman síðan 2020, heldur einnig úti áhugaverðu hlaðvarpi, Átján plús, þar sem tekin eru viðtöl og talað um málefni á borð við blæti, kynlíf og óhefðbundin sambönd.

Ef einhverjir ættu að vera fróðir í þeim efnum þá eru það Viktor og Kara. Sjálf eru þau í opnu sambandi og skilgreina sig sem fjölkæra einstaklinga.

Viktor og Kara halda úti hlaðvarpinu Átján plús og þar …
Viktor og Kara halda úti hlaðvarpinu Átján plús og þar ber ýmislegt á góma. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig það byrjaði

„Ég held ég hafi alltaf verið fjölkær en bara ekki fattað það,“ segir Viktor og bætir við að hann hafi áttað sig á því þegar hann fór að bera tilfinningar til annarrar manneskju en kærustunnar.

Oft og tíðum er talað um að fólk í opnum samböndum eða fjölástarsamböndum hafi byrjað samböndin upphaflega á þeim forsendum. Hins vegar var samband Viktors og Köru „lokað“ í fyrstu.

„Á einum tímapunkti byrjuðum við að ræða saman um þetta og tókum þetta í mörgum hænuskrefum, af forvitni.“ Hænuskrefin lýstu sér m.a. í að taka þátt í „swing-lífsstílnum“ og „leika sér með öðru fólki“, líkt og hann orðar það. En þá hafi það einungis verið í kynferðislegum tilgangi.

Allt byrjaði þetta með hænuskrefum á borð við swing og …
Allt byrjaði þetta með hænuskrefum á borð við swing og að eiga leikfélaga. Alexander Krivitskiy/Unsplash

„Út frá því byrjuðum við að hitta fólk hvort í sínu lagi.” Og smám saman þróaðist samband Viktors og Köru yfir í opið samband, þau veltu fyrir sér fjölástum og fóru að horfa á aðrar hliðar máls eins og að sambönd þeirra við aðra gætu allt eins snúist um tilfinningar og nánd, ekki endilega bara um kynlíf.

„Svo hittum við kannski manneskju sem við vorum bæði skotin í, eins og á einum tímapunkti áttum við kærustu saman, vorum í tríói og bjuggum öll saman. Þá opnaðist fyrir ástarhliðina.“

Viktor leggur áherslu á að það að vera fjölkær sé eitthvað svo miklu meira en að stofna einungis til kynferðislegra sambanda.

„Það eru allir færir að vera fjölkærir ef menningarleg viðhorf standa ekki í vegi fyrir því.“

Það mikilvægasta sem þau gefa hvort öðru eru góð samskipti, …
Það mikilvægasta sem þau gefa hvort öðru eru góð samskipti, hreinskilni og frelsi. Ljósmynd/Aðsend
Saman á góðri stund.
Saman á góðri stund. Ljósmynd/Aðsend

Stórt heimili og mikið skipulag

Viktor og Kara eiga tvö börn hvort úr fyrri samböndum. Aðra hvora viku eru fjögur börn á heimilinu og hina eru þau með eitt.

„Þannig að aðra hvora viku fer ég „full on“ í pabbahlutverkið, skutla, sækja, hitt og þetta og hina vikuna er ég frjálsari.“

Börnin þeirra eru á aldrinum fjögurra til tólf ára og því nóg að gera á stóru heimili.

Spurður um skipulagið svarar Viktor: „Líf okkar er svolítið bara í Google Calender.“ Þær vikur sem þau eru sex í heimili er minna um að foreldrarnir eigi stefnumót með öðrum einstaklingum. „Og við fáum ekki einstaklinga inn á heimilið þegar börnin eru heima.“

Viktor segir þau Köru hjálpast að við að búa til pláss fyrir hvort annað og samskiptin þeirra á milli séu mjög opin. Það komi samt tímar þar sem þau komast ekki á stefnumót og lýsir Viktor því eins og að vera „poly-saturated“ eða uppfullur af fjölkæri.

Því vitaskuld er ekkert endilega alltaf andlegt og líkamlegt pláss fyrir nýja leikfélaga.

„Ástin getur verið öðruvísi en hverfur ekkert hjá þeirri manneskju …
„Ástin getur verið öðruvísi en hverfur ekkert hjá þeirri manneskju sem maður er þegar með. Hjartað stækkar bara og tilfinningarnar fá meira pláss. Um það snýst fjölkynhneigð eða polyamory.” Wei Ding/Unsplash

Smokkanotkun og regluleg tékk

„Maður er alveg fær um að elska fleiri en eina bara manneskju,“ útskýrir Viktor þegar hann talar um tilfinningar í tengslum við að vera fjölkær. „Ástin getur verið öðruvísi en hverfur ekkert hjá þeirri manneskju sem maður er þegar með. Hjartað stækkar bara og tilfinningarnar fá meira pláss. Um það snýst fjölkynhneigð eða polyamory.”

Viktor segir að sumir geti litið á þetta sem eigingirni því að í grunninn snúist þetta um sjálfan einstaklinginn. „Þú sem einstaklingur nærð tengingu við fleiri sem hjálpa þér að vaxa,“ bætir hann við.

Opnu sambandi fylgir augljóslega meira frelsi en ella, þrátt fyrir að ákveðnar leikreglur séu settar í sambandinu. Viktor segir rammann skýran utan um „leiki“ þeirra Köru og t.d. sé notkun smokka eitthvað sem þau hafi rætt og ekkert annað komi til greina. Þau halda hringnum litlum og láta reglulega prófa sig fyrir kynsjúkdómum.

Það hefur komið fyrir að þau hafi misstigið sig en þá hafa þau sest niður og rætt hlutina og leyst málið.

Spurður út í afbrýðisemi svarar Viktor því að hún hafi vissulega dúkkað upp og sérstaklega í byrjun opna sambandsins. „En ég hef líka áttað mig á með tímanum að þetta er tilfinning sem ég ber ábyrgð á og að ég geti ekki varpað henni á makann.“

Saman reka þau fyrirtækið Reykjavík rollers og fara með ferðamenn …
Saman reka þau fyrirtækið Reykjavík rollers og fara með ferðamenn á sérútbúnum hjólum í skoðunarferðir í miðbæ Reykjavíkur og nærumhverfi. Ljósmynd/Aðsend

Viðhorf fjölskyldu og vina

Viktor útskýrir að fjölástarsambönd geti verið af ýmsum toga og jafnvel platónsk. Stefnumót við aðra einstaklinga geta verið regluleg, í hverri viku, eða sjaldnar, t.d. tvisvar á ári. „Það að vera fjölkær snýst ekki um kynlíf nema að einhverjum hluta, alveg eins og í lokuðum samböndum.“

Eins og er segir Viktor hvorugt þeirra eiga í tilfinningasamböndum við aðra. Þau eigi aftur á móti nokkra „kæra vini“ eða „friends with benefits“, án þess að hann vilji setja ákveðinn merkimiða á slíka tengingu.

Kara er tvíkynhneigð en Viktor segist alltaf hafa skilgreint sig sem gagnkynhneigðan. Hann bætir við að auðveldara sé að leika sér með öðrum þar sem þau bæði hafi tekið sig úr sambandi, áhættan á ótímabærri þungun sé því nánast engin.

Þau eru bæði virk á stefnumótaforritum en allur gangur er á hvort aðrir séu reiðubúnir að taka þátt í fjölást. „Þess vegna reyni ég að vera mjög skýr með þetta í upphafi samskipta.“

„Það eru allir færir að vera fjölkærir ef menningarleg viðhorf …
„Það eru allir færir að vera fjölkærir ef menningarleg viðhorf standa ekki í vegi fyrir því.“ Ljósmynd/Aðsend

Þau leita hins vegar frekar að einstaklingum sem stunda fjölástir, eru fjölkærir sjálfir, því það auðveldi öllum hlutaðeigandi að hefja tengslamyndum á þeim forsendum. Reglulega skella þau Viktor og Kara sér í fjölástarhittinga en um þá hittinga er ákveðið samfélag einstaklinga hérlendis sem stunda slíkt. Hann segir þau hafa komist í þá tengingu í gegnum hóp á Facebook.

Að lokum liggur beinast við að spyrja hvað fjölskyldu og vinum þyki um þessa tilhögun þeirra.

„Viðhorfið er almennt gott hjá vinum og fjölskyldu. Það er erfiðara fyrir suma að skilja þetta og stundum spilar kynslóðabil inn í en heilt yfir hafa fjölskyldur okkar beggja tekið þessu nokkuð vel. Við erum heldur ekkert að deila smáatriðunum með ömmum og öfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda