„Ást er ekki eitthvað sem við finnum heldur það sem við búum sjálf til innra með okkur og munum eftir,“ segir Moshe Ratson, fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafi, í grein sinni á Psychology Today. „Vald ástarinnar þýðir að faðma sitt eigið sjálf og að velja ást fram yfir ótta, dag hvern.“
Ratson segir ástina vera fallegasta og mesta kraft umbreytinga í lífi mannskepnunnar en einhverra hluta vegna er svo „erfitt að finna ástina“.
„Við þráum nánd en samt ýtum við öðrum frá okkur, af hverju?“
Í greininni segir að ástin sé þarna og bíði eftir að munað sé eftir henni því ástin. „Eðli okkar á rætur í ástinni, hreinleikanum og skilyrðisleysinu en með tímanum falla þessir eiginleikar í skugga ótta, skammar, ófullnægjandi þarfa í æsku og tilfinningalegrar brynju sem er þróuð til að komast af.“
Í stað þess að tjá ást ver einstaklingurinn sjálfan sig, sækir í stjórnun eða ruglar ást saman við samþykki, að vera fylgihlutur eða háður öðrum. Til að ná í ástina þarf að flysja burtu lög varnar og sársauka.
Leiðin að ástinni eða frá henni byrjar löngu áður en farið er í ástarsamband og nær aftur til æskuáranna.
Einstaklingurinn getur hlaðið upp tilfinningalegum sárum, höfnun eða gagnrýni sem hann varð fyrir sem barn og til að yfirstíga þessar hindranir verður trú hans á að „vinna inn ást“ svo sterk.
Reynslan úr æsku er dregin inn í fullorðinsárin þar sem óttinn nær yfirhöndinni á hinu sanna sjálfi. Að lifa í ótta getur orsakað meðvirkni þar sem ábyrgð á hamingju, sjálfsmati og tilgangi er sett í hendurnar á öðrum.
„Þegar þú gefur öðrum vald yfir tilfinningum þínum, starfi eða sækir í samþykki annarra verðurðu þræll aðstæðna. En þegar þú gerir þér grein fyrir að hamingjan komi innan frá, með hugarfari, venjum og vali, endurheimtirðu frelsið þitt.“
Í meðvirkni sækir einstaklingurinn í viðurkenningu, sjálfsmat og öryggi í gegnum aðra og forðast aðstæður þar sem hann upplifir sig varnarlausan. Án þess að taka eftir er þessi hegðun endurtekin trekk í trekk.
Til að ná valdi á ástinni verður að græða sárin. Þá þarf að koma auga á eyðileggjandi mynstur og vinna með það í gegnum fyrirgefningu og að sleppa tökum á fortíðinni. Ratson segir að einstaklingurinn þurfi að mæta sjálfum sér með ást og kærleika sem hann hefur ætíð sótt eftir frá öðrum.
„Ástin snýst um að gefa af sér til annarra án þess að vanrækja sjálfan sig. Að ná valdi á ástinni er ekki áfangastaður heldur dagleg æfing og val um hvernig eigi að lifa lífinu. Enginn gerir verkefnið fyrir þig, en þegar þú hefur hafið verkefnið, þá hættir ástin að vera ráðgáta og verður eðlislæg tilfinning. Þá ber að muna að vald ástarinnar er valdið á sjálfinu.“