Kirkjugarðar Reykjavíkur kveða upp stóra dóm yfir móður

Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

Þegar ég kom inn um útidyrnar heima hjá okkur í vikunni tók maðurinn minn á móti mér með bréf í hönd. Hann veifaði því létt og sagði glettnislega: „Varstu að panta grafreit fyrir okkur? Hér er bréf frá Kirkjugörðum Reykjavíkur sem er stílað á þig,“ sagði hann og rétti mér bréfið. 

Þótt ég geti verið utan við mig stundum þá minntist ég þess ekki að hafa pantað grafreit. Ég man ég hugsaði um það á sínum tíma þegar sonur minn lést fyrir aldur fram 14 ára gamall. Eða í tengslum við það þegar við völdum fyrir hann grafreit í Sóllandinu. „Okkar besti maður“ eins og við köllum hann gjarnan heima hjá okkur hafði sagt frá því stuttu fyrir andlátið að hann vildi láta brenna sig. Það var víst umhverfisvænna að hans mati. Við hlýddum því auðvitað þótt ég vissi að líkbrennsluofninn í Fossvoginum væri í steik. Ein með sjálfri mér velti ég því líka fyrir mér hvort ég væri örugglega með öskuna af „okkar besta manni“ en ég nefndi það ekki við neinn. 

Það er kannski vegna þessara hugsana sem ég hef aldrei haft sérstaka tengingu við Sóllandið. Ég finn sjaldan fyrir þörf fyrir að fara þangað og í þau skipti sem ég fer er það samviskubit sem ýtir mér á þennan fallega stað í Fossvoginum. Ég er einhvern veginn aldrei rétt búin þegar ég fer í Sóllandið. Yfirleitt er ég í skóbúnaði sem hefði frekar átt heima á ljósadansgólfinu í Hollywood í Ármúla, ekki í hálku og snjó og hagléli. Samviskubitið hellist helst yfir í myrkri og kulda. Þegar ég horfi til baka hef ég aldrei verið eðlilega klædd í þessum heimsóknum í Sóllandið. Alltaf í sokkabuxum, háum hælum og varla í yfirhöfn. Nú eða í silkifötum sem eru fín í hita og sól en glötuð í íslenskum vetraraðstæðum. Ef ég hef reynt að kveikja á kerti þá hefur það yfirleitt ekki tekist vegna slæmrar veðráttu. Eftir að hafa norpað í hinum íslenska vetri hefur góðhjartað fólk orðið á vegi mínum og kveikt á kerti fyrir mig. Nú eða að ég hef gefist upp og farið heim með skottið á milli lappanna. 

Þegar ég opnaði bréfið frá Kirkjugörðum Reykjavíkur kom í ljós að ég sem móðir hafði vanrækt leiði sonar míns. 

„Við yfirferð garðyrkjumanna kom í ljós að á leiði í þinni umsjón er legsteinn og/eða rammi sem þarfnast viðhalds, og/eða gróður sem ekki samræmist reglum Kirkjugarða Reykjavíkur. Kirkjugarðar Reykjavíkur óska eftir að úrbætur verði gerðar eins fljótt og aðstæður leyfa. Athygli er vakin á því að aðstandendur bera sjálfir ábyrgð á framkvæmd lagfæringa og kostnaði vegna þeirra,“ sagði í bréfinu. 

Mæður eiga það til að sárþjást af samviskubiti. Hver hefur ekki vaknað upp með andfælum og áttað sig á því að það sé sparinesti í skólanum? Það sé bleikur dagur, rauður dagur, blár dagur, öskudagur. Það sé starfsdagur og það sé vetrarfrí. Allt þetta sem stimplar mömmuna sem alveg ómögulega manneskju. Og vanhæfan uppalanda. 

Þegar Kirkjugarðar Reykjavíkur senda þér póst um vanrækslu á leiði sonar þíns þá er lítið eftir. Þú magalendir hægt en örugglega. 

P.s. móðirin gerði sér ferð í Sóllandið og sá ekkert athugavert við leiðið annað en málaða steina sem einhver hafði komið með, rafmagnslukt og fölnuð blóm í leirpotti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda