Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun & ráðgjöf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá hjónunum sem eru að velta fyrir sér hvað þau geti gert til þess að borga minni erfðafjárskatt.
Eymund
Sæll Eymundur,
við hjónin höfum safnað ágætlega yfir ævina og höfum verið að velta fyrir okkur hvernig er best að koma eignunum áfram til niðja okkar án þess að þurfa að selja hluta vegna erfðafjárskatta. Til dæmis er enginn erfðafjár- né gjafaskattur í Svíþjóð. Væri skynsamlegt fyrir fjölskylduna í heild að flytja þangað í 2 til 3 ár til að færa að minnsta kosti hluta eignanna skattfrjálst?
Bestu kveðjur,
S og G
Sæl bæði.
Það fyrsta sem mér dettur í hug að í staðinn fyrir að vera að eyða dýrmætum tíma í að pæla í skattahagræðingum fyrir afkomendur, hvers vegna mannskapurinn er ekki einfaldlega að nota tækifærið og njóta uppskerunnar meðan tími er til og heilsan í lagi. Maður veit aldrei hvenær kallið kemur og er hálf döpur tilhugsun að missa heilsuna eða deyja en eiga fullt af óskattlögðum peningum á móti en búa í félagslegri einangrun t.d. í Dalarna í Svíþjóð.
Nú er það þannig að á Íslandi reiknast 10% erfðafjárskattur af fyrirframgreiddum arfi. Sami skattur greiðist af arfi frá dánarbúi nema þar eru skattfrelsismörk um sjö milljónir. Erfðafjárskattur greiðist í upprunalandi þannig að ef arfur er greiddur á Íslandi er móttakandinn skattskyldur þar sem hann á heimilisfesti. Nú þekki ég ekki reglur um erfðafjárskatta í Svíþjóð en þetta hljómar ekki ólíkt reglum um skattfrelsi á stöðum eins og Möltu, Ítalíu og Portúgal svo fátt eitt sé nefnt sem byggja á einhverskonar sérreglum um skattlagningu í gegnum EES samninginn.
Ég hef ekki endanlegt tæknilegt svar við þessari spurningu en bendi þér á að leita þér upplýsinga hjá Alþjóðadeild Skattsins eða hjá Alþjóðlegum endurskoðunarstofum á Íslandi.
Hins vegar vekur þessu spurning upp hjá mér ýmsar vangaveltur.
Í fyrsta lagi velti ég fyrir mér hvort fjárhagslegt ástand erfingja sé virkilega svo slæmt að það hafi úrslitaáhrif fyrir þá hvort 10% af væntanlegum arfi fari í skatta eða ekki, enda eru það erfingjarnir sem greiða skattinn en ekki arfleifendur og ávinningur þeirra í raun enginn.
Í öðru lagi er það spurning um fórnfýsi arfleifendanna. Eins og ég kom inn á áður þá þekki ég ekki reglurnar hvað varðar skattskyldu erlendis og hef því ekki svarið við því hvort það sé nægjanlegt að arfleifendur hefji afplánunun á erlendri grund og/eða hversu lengi hún þarf að standa yfir. Eða leynist einhversstaðar í reglunum ákvæði um að erfingjar þurfi einnig að skila af sér tíma. Umrædd búsetuskipti þurfa að vera raunveruleg með tilheyrandi raski hjá viðkomandi aðilum. Í því ljósi veltir maður fyrir sér hvort ávinningur sé meiri en kostnaðurinn þar sem gefið er í spurningunni að þið eruð komin á efri ár og kannski ekki mest spennandi tilhugsun í heimi að koma sér fyrir í nýju kerfi.
Eins og spurningin ber með sér hafið þið búið á Íslandi og þið og erfingjar ykkar notið okkar ágæta kerfis með mismiklum hætti. Í því samhengi má þar nefna sem dæmi heilbrigðis- og menntakerfið. Skattkerfið okkar sem fjármagnar þetta allt saman er síðan sett upp eins og það er. Ef til vill er
óábyrgt að búa í samfélagi alla sína tíð og njóta kosta samtryggingarinnar sem er fjármögnuð með skattkerfinu, þmt. erfðafjárskatti en í lok dagsins að reyna að sleppa við sinn skerf vegna glufu í skattalögunum.
Kveðja,
Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.