Ólafur Páll Vignisson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem spyr um peningagjafir til barna? Þarf að borga skatt af þeim?
Blessaður Ólafur Páll.
Eru einhver mörk á peningagjöfum til barna sinna eða barnabarna? Þarf að útbúa skýrslu um fyrirframgreiddan arf? Eða getur maður bara millifært? Þá er ég að hugsa um skattskyldu?
Kveðja,
Kolla
Sæl Kolla.
Samkvæmt íslenskum skattalögum er mikilvægt að greina á milli gjafa og fyrirframgreidds arfs þegar kemur að skattskyldu peningagjafa til barna eða barnabarna.
Almennt mætti draga þá ályktun útfrá lögskýringargögnum að með tækifærisgjöf til barna eða barnabarna væri átt við jólagjafir, gjafir í tilefni afmæla, útskrifta, brúðkaupa eða annarra slíkra tilefna.
Lykilskilyrðið er að verðmæti tækifærisgjafa sé ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir. Við mat á því hvort gjöf teljist til tækifærisgjafar er litið til nokkurra lykilatriða: tilefnis gjafarinnar, verðmætis hennar og formsins sem hún tekur á sig. Yfirskattanefnd leggur almennan og hlutlægan mælikvarða á gjafir, óháð stöðu gjafþega.
Niðurstaðan er því sú að við mat á því hvort gjöf telst tækifærisgjöf er lagt heildstætt mat á tilefni gjafarinnar, verðmæti hennar og form. Af úrskurðarframkvæmd yfirskattanefndar má almennt ráða að gjöfin þurfi að vera gefin í tilefni sérstakra tímamóta, verðmæti hennar má ekki vera óhóflegt miðað við almenn viðmið, og hún ætti almennt að vera í fríðu frekar en í formi beinnar peningagjafar til að geta fallið undir hugtakið tækifærisgjöf og verið undanþegin skattskyldu.
Erfðafjárskattur er í dag 10%. Sé um skattskylda gjöf að ræða falla þær almennt undir ákvæði laga um tekjuskatt, bætast þá við aðrar tekjur viðtakanda og skattleggjast samkvæmt almennum tekjuskattsreglum. Skattprósentan í efsta skattþrepi tekjuskatts er í dag 46,29%.
Þannig að ef þú ætlar að millifæra peninga til barna eða barnabarna sem fyrirframgreiddan arf, þá þarftu að útbúa erfðafjárskýrslu og greiða erfðafjárskatt að öðrum kosti kynni ráðstöfunin að verða skattlögð sem tekjuskattur. Ef um er að ræða venjulega tækifærisgjöf til barna eða barnabarna þá væri hún ekki skattskyld.
Ég vona að þetta svari fyrirspurninni.
Kveðja,
Ólafur Páll Vignisson lögmaður.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ólafi Páli og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR.