Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodkastsins svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem er giftur konu. Í síðasta rifrildi sagðit hún vilja skilja við hann og nú er hann ringlaður og veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga.
Sæll Valdimar.
Við höfum verið gift í sjö ár á þessu ári og eigum tvö börn saman. Það hefur ýmislegt gengið á í hjónabandinu þótt það sé ansi gott. Ég vinn mikið og ferðast mikið vegna vinnunnar og það virðist fara meira í taugarnar á henni nú en nokkru sinni fyrr. Í síðasta rifrildi nefndi hún skilnað, en hefur síðan ekkert minnst á það meir og ekki viljað ræða það neitt frekar. Nú finnst mér ég hanga á bláþræði í hjónabandinu og velti því fyrir mér hvort það sé raunverulega það sem hún vill?
Kveðja,
LK
Góðan daginn og takk fyrir þessa spurningu.
Það er auðvitað mjög óþægilegt að heyra minnst á skilnað og eðlilegt að það veki alla aðila til umhugsunar um hvar hjónabandið er statt í raun og veru. Það er vel þekkt í sambandi við umræðu um skilnaði að aðilinn sem nefnir það að fyrra bragði, hefur jafnvel hugleitt það í talsverðan tíma og er þar af leiðandi „kominn lengra“ í ferlinu ef svo má segja. Það veldur því að aðilar eru gjarnan á sitt hvorum staðnum og leiðin til baka getur verið aðeins lengri en marga grunar. Það er aldrei af ástæðulausu sem fólk hugsar um skilnað og meðal algengustu ástæðna eru atriði sem öll byggja á skorti á samveru og samskiptum. Meðal þess sem fólk nefnir gjarnan er upplifun um að hafa vaxið frá hvort öðru, að það séu lítil eða neikvæð samskipti, að það vanti tilfinningalega tengingu og skort á sameiginlegri sýn og löngunum, svo eitthvað sé nefnt.
Það er eins með hjónabönd eins og önnur sambönd sem maður vill eiga með fólki, að því meira sem maður sinnir þeim, því innihaldsríkari verða þau. Margir rekast á það eftir nokkur ár í sambandi að það vantar svolítið upp á gæðastundir sem fela meðal annars í sér nánd og innihaldsrík samtöl, eitthvað sem mætti segja að falli undir rómantískar hliðar parsambanda. Það er mjög algengt að fólk er á fullu, jafnvel í hraða og streitu að sinna því sem okkur finnst mikilvægast, hvort sem það er menntun og starfsframi, heilsuræktin, félagslíf, áhugamál og uppeldi barna svo eitthvað sé nefnt. Margir sem staldra við og skoða þessi mál, átta sig á því að hjónabandið er einhverstaðar neðarlega í forgangsröðinni, því er teknu sem sjálfsögðum hlut. Þá er ekki óeðlilegt að annar, eða báðir aðilar upplifi að sambandið sé vannærandi og velta jafnvel fyrir sér hvort það er ástæða til að halda því áfram.
Nú get ég auðvitað ekki vitað hvort eitthvað af þessu eigi við hjá ykkur en vil nefna þessi algengu atriði, þó ekki væri nema fyrir framtíðina. Það er alla vega hægt að gera ráð fyrir því miðað við spurninguna að það vanti eitthvað uppá samskiptin og mögulega tíma sem þið eigið saman. Ef samskiptin eru almennt lítil eða á þann hátt að þið ræðið síður hluti sem er erfitt að ræða, þá mæli ég hiklaust með að fara til fagaðila sem getur hjálpað ykkur að ræða það sem máli skiptir og ekki síst að reyna að samræma sýn ykkar ef svo vildi til að konan þín sé búin að velta skilnaði fyrir sér í einhvern tíma. Það væri alla vega mjög jákvætt að stoppa allt annað, skipuleggja góða stund í næði og eiga innihaldsríkt samtal um það hvar þið eruð stödd, hvað þið viljið fá út úr hjónabandinu og hvort þið
eruð með sameiginlega sýn á framtíðina. Í framhaldi af því gætuð þið rætt hverju þið viljið bæta við til þess að setja hjónabandið í forgang og viðhalda neistanum.
Gangi ykkur allt í haginn með þetta verkefni.
Kveðja,
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR.