Þarf fjórða systkinið að afsala sér arfinum?

Einar Hugi Bjarnason, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur, svarar spurningum lesenda …
Einar Hugi Bjarnason, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur, svarar spurningum lesenda Smartlands. mbl.is/Eyþór Árnason

Einar Hugi Bjarnason, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu í sambandi við systkini sem erfðu hús sem flest vilja halda.

Góðan daginn. Í sambandi við erfðamál. Ef fjögur systkini erfa hús og þrjú af þeim vilja halda húsinu en einn vill selja. Þessi þrjú vilja ekki kaupa þennan eina út úr eigninni.

Er ekkert annað í boði fyrir þennan eina en að afsala sér þessum arfi? Eða vera neyddur til að eiga þennan 1/4 hlut í húsi?

Góðan dag,

Við andlát tekur dánarbú við réttindum og skyldum hins látna. Við andlát er það skylda erfingja að ganga í að skipta eignum hins látna. Algengast er að erfingjar sjái sjálfir um skiptingu eigna búsins og geri upp skuldir þess og er það nefnt einkaskipti. Þessi leið er háð því að allir erfingjar samþykki og lýsi yfir ábyrgð á skuldum hins látna. Erfingjar geta einnig krafist opinberra skipti á dánarbúi vilji þeir ekki ábyrgjast allar skuldbindingar búsins eða ef ágreiningur er á milli erfingja. Nægilegt er að einn erfingi krefjist þess að opinber skipti fari fram til að svo verði.

Ef þið systkinin getið ekki leyst ágreining ykkar á milli um ráðstöfun fasteignarinnar er unnt að fara fram á opinber skipti á dánarbúinu. Beiðni um slíkt er send til héraðsdómstóls sem kveður upp úrskurð um töku dánarbúsins til opinberra skipta og skipar því sérstakan skiptastjóra. Hlutverk skiptastjóra er m.a. að leysa úr ágreiningi sem upp rís við skiptin.

Ekki er þörf á að það systkini sem ekki vill halda húsinu afsali sér arfi. Hins vegar flækir það málið að eitt systkinanna vilji ekki selja sinn hlut og hin þrjú ekki kaupa. Svo gæti farið að þrautalendingin í slíku máli yrði sú að selja húsið á almennum markaði ef systkinin þrjú halda fast við þá kröfu að leysa ekki eignarhlut þess fjórða til sín. Náist ekki að leysa málið hjá skiptastjóra getur skiptastjóri vísað ágreiningi erfingja til héraðsdóms til úrlausnar.

Bkv. Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Ein­ari Huga og öðrum lög­mönn­um á Lög­fræðistofu Reykja­vík­ur spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda