Ástin virðist blómstra hjá Krumma Björgvinssyni, söngvara Mínus, og kærustu hans Töniu Zarak Quitana, kvikmyndagerðarkonu og þróunarstjóra hjá Truenorth.
Krummi, sem heitir réttu nafni Oddur Hrafn Stefán Björgvinsson, deildi á laugardag fallegri mynd af parinu á Facebook.
Þar má sjá þau spariklædd og skælbrosandi.
„Vive l’amour – Ástin er mikilvægust, trúið mér,“ skrifaði hann við myndina ásamt lyndistákni af rauðu hjarta.
Færslan hefur fengið fjöldann allan af lækum og athugasemdum þar sem vinir og vandamenn óska parinu hjartanlega til hamingju með ástina.
Krummi, yngra barn stórsöngvarans Björgvins Halldórssonar og Ragnheiðar Bjarkar Reynisdóttur, er einn þekktasti þungarokkari Íslands og hefur gert garðinn frægan með rokksveitunum Mínus og Legend.
Tania er fædd og uppalin í Mexíkó og hefur búið á Íslandi frá árinu 2020. Hún hefur komið víða við í kvikmyndaheiminum og starfaði meðal annars hjá streymisrisanum Netflix, þar sem hún hafði umsjón með alþjóðlegum þáttum.
Smartland óskar þessu fallega pari hjartanlega til hamingju með ástina!