Gjarnan er sagt að listin endurspegli samfélagið og þar á meðal eru hryllingsmyndir – að hvaða leyti? – jú, þær eru taldar hafa haft áhrif á réttindabaráttu kvenna í Bandaríkjunum. Þessu heldur Eleanor Johnson, prófessor við Columbia-háskóla, fram.
Johnson skrifaði bókina Scream With Me: Horror Films and the Rise of Amercan Feminism 1968-1980 þar sem hún skoðaði sex klassískar hryllingsmyndir; Rosemary's Baby, The Exorcist, The Stepford Wives, The Omen, Alien og The Shining, í samhengi við raunveruleg samfélagsvandamál á borð við heimilisofbeldi, stjórn yfir eigin líkama og kúgun kvenna.
Í viðtali við Vogue í vikunni segist Johnson hafa fengið hugmyndina að bókinni eftir að hún tók fyrir kvikmyndina Rosemary's Baby við kennslu í sögu hryllingsmynda. Í kennslunni fór hún yfir hvernig myndin fjallar í meginatriðum um konu sem hefur ekki stjórn yfir þungun sinni. Kvikmyndin var tekin upp í New York árið 1968 en á þeim tíma var þungunarrof ólöglegt.
Áhugaverði punkturinn í myndinni er sá að þeir sem, vegna trúarlegra ástæðna, eru á móti þungunarrofi, vilja samt sem áður að aðalpersóna myndarinnar, Rosemary, fari í þungunarrof því hún er ófrísk að Antikristi.
Johnson segir að hryllingur hafi þau áhrif að gera fólk hrætt og undirstriki það sem það skilur ekki. Í ringulreiðinni og sálarflækjunni sem oft er dregin fram í hryllingsmyndum er jafnframt hægt að læra nýja hluti.
Í tilfelli The Shining, eftir Stephen King, var megin munur á milli bókarinnar og myndarinnar sá að eiginkona aðalpersónunnar, Wendy, var gerð að óöruggri og hræddri konu í kvikmyndinni, í andstöðu við það sem gerðist í bókinni. Leikstjórinn Stanley Kubrick náði þannig að eyðileggja sjálfstraustið hennar. Það er ákveðin aftenging á milli rithöfundarins og leikstjórans.
Sama má segja um höfund bókanna Rosemary's Baby og Stepford Wives, segir Johnson, en Ira Levin er sagður hafa verið femínisti. Hins vegar tók Roman Polanski að sér leikstjórn Rosemary's Baby og er hann þekktur fyrir eitthvað allt annað en að vera femínisti.
Annar áhugaverður punktur sem dreginn er fram í viðtalinu við Johnson er að kvikmyndirnar sex komu út þegar femínistahreyfingin var að ná hámarki síðla á sjöunda og á áttunda áratugnum og endurgerð þriggja af þessum sex myndum kom út 2024, tveimur árum eftir að lög um þungunarrof í Bandaríkjunum var breytt til hins verra. Tveir af þremur leikstjórum í endurgerðu kvikmyndunum eru konur. Í frumgerðinni hefði ofbeldi gegn konum getað farið fram hjá áhorfandanum en í endurgerðinni ekki.
Mikilvægt er að fá karlmenn til að skilja að hætturnar sem konur geta þurft að horfast í augu við aðeins vegna þess að þær eru konur séu vandamál allra. Það græðir enginn á því ef konur eru kúgaðar, sem er megin hugvilla feðraveldisins, að mati Johnson.