„Ég sá hana fyrst í gegnum gægjugatið á hurðinni“

Örlögin gripu í taumana þegar Sverrir Helgason og Sara Kristín …
Örlögin gripu í taumana þegar Sverrir Helgason og Sara Kristín Sigurkarlsdóttir hittust fyrst. Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk

„Ég sá hana fyrst í gegnum gægjugatið á hurðinni,“ segir Sverrir Helgason viðskiptafræðingur, sem er nýkvæntur Söru Kristínu Sigurkarlsdóttur innanhúsarkitekt, þegar hann rifjar upp fyrstu kynnin í Mílanó á Ítalíu 2013. „Ég vissi að það var einhver stórglæsileg dama á ganginum beint á móti.“

„Við lendum í sömu byggingu. Hann sagði einmitt að hann hefði beðið við gægjugatið eftir að ég væri á leiðinni út. Eitt skiptið þegar hann heyrði að ég opnaði dyrnar, greip hann hálftóman ruslapoka og fór á eftir mér,“ bætir Sara við og hlær.

„Þetta gerist mjög hratt. Eftir að hann gaf sig á tal við mig þegar við fórum út með ruslið þá kíkti ég strax á hann á Facebook og skoðaði myndir af honum og svona, en ég var nú samt ekki alveg á þeim buxunum að flytja til Ítalíu og fara að „deita“ Íslending. Það tók mig um tvær vikur að samþykkja stefnumót með honum en mér fannst hann það sætur að ég ákvað að prófa.“

Sara og Sverrir á siglingu og í myndatöku eftir athöfnina …
Sara og Sverrir á siglingu og í myndatöku eftir athöfnina á Como-vatni. Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk
Þú mátt kyssa brúðina.
Þú mátt kyssa brúðina. Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk

Regluleg stefnumót við Como-vatn

„Sem fátækur námsmaður og láglaunamaður á móti er algjört „life hack“ að taka nesti í poka og eina freyðivínsflösku og taka lestina til Como-vatnsins. Við gerðum þetta aðra hverja helgi og eigum mjög fallegar og skemmtilegar minningar frá því,“ segir Sverrir.

Þau voru ekki búin að hittast lengi þegar þau skruppu til Como ásamt vinum, sem er steinsnar frá Mílanó með lest. Vinir þeirra fóru á undan þeim til baka en þau ætluðu að taka síðustu lestina. Skyndilega kom úrhellisrigning, þau höfðu gleymt tímanum og áttuðu sig á að þau misstu af síðustu lestinni. Þau gengu því á milli hótela við vatnið.

„Enginn vildi hýsa okkur fyrir þá upphæð sem við höfðum efni á. Dyravörður á einu hótelinu vorkenndi okkur svo mikið að við fengum svaka góðan „díl“.“ Þau fengu herbergi á jarðhæð á fimm stjörnu hóteli sem varð aðeins til að brjóta ísinn á milli þeirra.

Fallegt boðskortið.
Fallegt boðskortið. Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk
Faðir Sverris, Helgi Sverrisson, „gaf þau saman“.
Faðir Sverris, Helgi Sverrisson, „gaf þau saman“. Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk

Brúðkaupið á stefnumótastaðnum

„Ég flutti fjöll til að búa lengur úti,“ segir Sverrir. Hann leitaði sér að vinnu í Mílanó og fékk hana í auglýsingabransanum. „Ég tók restina af skólanum í fjarnámi og náði að sannfæra viðskiptafræðideildina hér heima um að skrifa B.Sc.-ritgerðina erlendis, í samstarfi við háskólann þar.“

Sverrir og Sara fluttu til baka til Íslands árið 2015. Þau eiga saman tvö börn, sex ára stúlku og fjögurra ára dreng. Í byrjun september giftu þau sig við fallega athöfn við Como-vatnið, þangað sem þau fóru svo oft á stefnumót áður. 

Brúðkaupið var haldið í Regina Teodolinda villunni í bænum Laglio. Brúðkaupið var á föstudegi og hófst með myndatöku nánustu fjölskyldu klukkan eitt. Eftir myndatökuna hófst athöfnin sjálf. Þau höfðu þegar gengið frá pappírum hérlendis svo athöfnin var meira upp á skemmtanagildið.

Hringurinn hans Sverris er frá Jóni og Óskari en hringirnir …
Hringurinn hans Sverris er frá Jóni og Óskari en hringirnir hennar Söru eru sérsmíðaðir og pantaðir í gegnum Karat demanta. Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk

„Við fengum pabba minn til að sjá um athöfnina sem kom flestum mjög á óvart.“

Eins og í rómantískri kvikmynd sigldi nýgift parið út á vatnið ásamt ljósmyndara sem tók af þeim fallegar myndir. Fjölskylda og vinir kvöddu þau á bryggjunni, gæddu sér á „aperetivo“ á meðan, og tóku svo á móti þeim eftir siglinguna.

„Aperitivo er mikil lenska á Ítalíu og því var mikilvægt fyrir okkur að bjóða upp á slíkt. Það var hlaðborð með ostum og öllu þessu helsta; tómata, burrata, ostum, skinku og öllu því sem þeir eru svo þekktir fyrir.“

Umhverfið við Como-vatn er draumi líkast.
Umhverfið við Como-vatn er draumi líkast. Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk
Sverrir og Svara fundu ítalskt brúðkaupsband á Instagram, sem þau …
Sverrir og Svara fundu ítalskt brúðkaupsband á Instagram, sem þau fengu til að spila í veislunni. Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk

Njóta þess að vera nýgift

Því næst hófst borðhald með tilheyrandi ræðum, skemmtiatriðum og veislustjórn.

„Dagskráin var ansi þétt. Við höfðum fundið skemmtilegt brúðkaupsband eða svona „roaming band“ á Instagram sem spilaði undir borðhaldinu og þeir gengu á milli borða og spiluðu og sungu. Okkur fannst mikilvægt að hafa hljómsveitina ekki plöggaða á sviði,“ segir Sara. „Við fórum yfir öll ítölsku-íslensku lögin, eins og Ég fer í fríið og jólalögin og það var mjög skemmtilegt að þegar þeir sungu á ítölsku sungu gestirnir með á íslensku.“

Hápunkturinn var eflaust þegar dóttir þeirra söng hjartnæmt lag í veislunni og gestirnir fóru að hágráta.

Eftir að brúðhjónin höfðu skorið kökuna var boðið upp á Prosecco og ekta ítalskan gelato-ís. Síðan þyrptust gestir inn í villuna til að fylgjast með fyrsta dansinum. Það var svo plötusnúður sem lék fyrir dansi langt fram eftir nóttu. 

Fyrsti dansinn tekinn með stæl.
Fyrsti dansinn tekinn með stæl. Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk

„Daginn eftir vorum við vakin og okkur boðið upp á morgunverð úti við vatnið, ásamt fjölskyldum okkar. Það var yndisleg stund,“ segir Sara. „Á laugardagskvöldinu var svo kvöldverður með nánustu vinum og fjölskyldum okkar beggja.“

„Við vorum aðeins lengur á Ítalíu eftir brúðkaupshelgina. Við fórum t.d. til Mílanó, sýndum börnunum hverfið okkar gamla og fórum með þau á uppáhalds pítsastaðinn okkar.“  

Spurð um framhaldið segjast þau enn eiga eftir að fara í brúðkaupsferðina. „Við sjáum fyrir okkur að fara í átta til tíu daga ferð til Krítar á Grikklandi, í algjöra afslöppun og dekur. Eitthvað sem maður færi ekkert í nema því maður var að gifta sig,“ segir Sara. 

„Við ætlum líka að stækka við okkur, sem fer aðeins á ís þegar maður fer í svona verkefni eins og að gifta sig, annars bara njóta þess að vera nýgift og ástfangin,“ bætir Sverrir við að lokum.

Kampavínið opnað að lokinni athöfn.
Kampavínið opnað að lokinni athöfn. Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk
Hvítt þema var í veislunni og borðskreytingar elegant.
Hvítt þema var í veislunni og borðskreytingar elegant. Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk
Í hitanum við Como-vatn bauðst gestum að hafa sérmerkta blævængi.
Í hitanum við Como-vatn bauðst gestum að hafa sérmerkta blævængi. Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk
Fimm ítalksar möntrur fyrir gesti, sem tákna ást, heiðarleika, hamingju, …
Fimm ítalksar möntrur fyrir gesti, sem tákna ást, heiðarleika, hamingju, frjósemi og langlífi. Oddatalan táknar stöðuga og óslitna ást. Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk
„Annars bara njóta þess að vera nýgift og ástfangin.“
„Annars bara njóta þess að vera nýgift og ástfangin.“ Ljósmynd/Vladimir Tsaryuk








mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

tannlæknir svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda