Markþjálfinn, samskiptaráðgjafinn og pistlahöfundurinn Linda Baldvinsdóttir gekk í það heilaga í sumar með Björgvini Ólafi Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Arctic Mar í Hafnarfirði. Þau hittust fyrir þremur árum en höfðu vitað hvort af öðru alla ævi.
„Við ólumst bæði upp á Seyðisfirði og foreldrar okkar voru mjög góðir vinir,“ segir Linda sem er 65 ára en Björgvin varð sextugur 8. október. Mikið rétt, ástin spyr ekki um aldur.
Spurð um hvað varð til þess að þau fóru að vera saman segir Linda að þau hafi hist á Spáni. „Ég var þar með vinkonum mínum í fríi en hann var bara einn.“ Eftir að þau rákust á hvort annað fyrir tilviljun fóru þau að stinga saman nefjum.
Hún bætir við að það hafi tekið þau tíma að byrja saman, sjálf hafði hún verið ein í meira og minna 12 ár, með stuttum ástarævintýrum inn á milli.
„Ég held að hann hafi verið miklu skotnari í mér,“ segir hún létt í bragði. „En vitaskuld þegar ég sá hvaða mannkosti hann hafði að geyma þá sá ég að þetta var maður fyrir mig.“
Linda á þrjú börn úr fyrra hjónabandi, sex barnabörn og eitt barnabarnabarn. Björgvin á þrjú börn úr fyrra hjónabandi, svo fjölskyldan hefur stækkað verulega. Hún lýsir því hve vel það gekk að samstilla fjölskyldurnar því allir hafi tekið vel í samband þeirra og verið jákvæðir. Eftir að hann flutti inn til hennar ákváðu þau að einfaldast væri fyrir þau að ganga í hjónaband.
„Við gengum í hjónaband af ást til hvors annars og til að tryggja hvort annað ef eitthvað kæmi fyrir annað hvort okkar, fyrst að við vorum komin í búskap.“
Þau héldu veisluna 4. október í faðmi fjölskyldu og vina.
„Þetta var bara yndislegur dagur.“
Linda klæddist brúðarkjól sem hún keypti í versluninni Loforði en Björgvin klæddist smóking sem hann leigði frá sömu verslun.
„Svo var bara veisla með mat, ræðum, drykkjum og öllu tilheyrandi.“ Veislan fór fram í veislusalnum Garðarholti og sá vinkona Lindu, Sigurbjörg Gunnarsdóttir, um að blessa heitin.
„Svo hjálpuðu vinir okkar, veislustjórinn Hákon Hreiðarsson og eiginkona hans, skreytingameistarinn og annar eigenda Blómdísar og Jóndísar, Valgerður Guðjónsdóttir, okkur ótrúlega mikið. Og vinkona mín Íris Sveinsdóttir söng Ave Maria þegar ég gekk niður tröppurnar á leiðinni inn í salinn.“
Spurð um framhaldið segir Lindu þau stefna á brúðkaupsferð í janúar. „Við ætlum að fara til Spánar og dvelja þar í einhvern tíma og erum að spá í að keyra þaðan til landa eins og Frakklands og Ítalíu. Annars erum við bara ákveðin í að njóta lífsins.“