Helga Vala Helgadóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu
Góðan dag
Langar að spyrja ykkur út í það ef móðir mín, sem er gift öðrum manni en föður mínum og á börn með honum, hvernig er arfur eftir þau. Eru það bara börn þeirra beggja sem erfa þau eða eru það líka börn hennar? Þarf að vera erfðarskrá ef svo er? Þau eru búin að vera gift í 35 ár.
Kveðja,
Margrét
Góðan dag
Einfalda svarið er að þú erfir móður þína en hálfsystkini þín erfa bæði móður þína og svo föður sinn.
Lengd hjúskapar þeirra skiptir ekki máli varðandi erfðaréttinn. Verði maki móður þinnar enn á lífi við andlát hennar þá erfir hann hana að 1/3 hluta og þið börnin að 2/3 hluta.
Sé hins vegar til staðar erfðaskrá þá eru uppi ýmsar sviðsmyndir. Svo kann að vera að þau hafi gert erfðaskrá sem áskilur rétt þess eftirlifandi til setu í óskiptu búi. Skal þá farið með búið samkvæmt því og það þannig ekki gert upp við andlát þess sem fyrr fer. Þegar eftirlifandi maki fellur frá er búið gert upp þannig að þið systkinin erfið móður og þau erfa hans hlut. Fellur þá erfðaréttur hins eftirlifandi maka niður.
Vonandi náði ég að svara vangaveltum þínum.
Kveðja,
Helga Vala Helgadóttir, lögmaður.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Helgu Völu og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR.