„Fólk hefur kallað mig „gold digger“, hóru og verra“

Fanný Huld og Markus horfa björtum augum á framtíðina.
Fanný Huld og Markus horfa björtum augum á framtíðina. Samsett mynd

Fanný Huld Friðriksdóttir er ótrúleg ung kona, full af lífi og eldmóði og óhrædd við að fara sínar eigin leiðir. Hún lærði snemma að takast á við krefjandi verkefni og mæta áskorunum af æðruleysi. Þegar hún var aðeins sextán ára, áhyggjulaus nemandi við Flensborgarskólann sem naut þess að hanga með vinum sínum, breyttist líf hennar þegar hún komst að því að hún ætti von á barni.

Þótt einhverjir í kringum hana hafi hvatt hana til að fara í fóstureyðingu, staðráðnir í að hún skyldi ekki „eyðileggja framtíð sína“, tók hún sjálfstæða ákvörðun, hún ákvað að eignast barnið.

„Það var besta ákvörðun lífs míns,“ segir hún í dag – tíu árum síðar, tveggja barna móðir sem hefur skapað sér fallegt og innihaldsríkt líf.

Fimm árum eftir fæðingu dóttur sinnar eignaðist hún son og saman hafa þau tvö verið ljós hennar og lífskraftur í gegnum allt.

Í dag er Fanný Huld trúlofuð ástinni í lífi sínu, Markusi Klinger, sjóntækjafræðingi og eiganda Sjón gleraugnaverslunar. Samband þeirra hefur vakið bæði athygli og gagnrýni vegna þrjátíu ára aldursmunar, en Fanný Huld segist ekki láta slíkt trufla sig: „Við erum hamingjusöm og spennt fyrir framtíðinni – og það er það eina sem skiptir máli.“

Fanný Huld ásamt unnusta sínum, Markusi Klinger.
Fanný Huld ásamt unnusta sínum, Markusi Klinger. Ljósmynd/Aðsend

 

„Ég hef alltaf verið smá trúður“

Fanný Huld fæddist þann 1. apríl árið 1998 – á sjálfan gabbdaginn – og segir hún að það lýsi henni bara vel.

„Ég hef alltaf verið smá trúður, elska að láta fólk hlæja og sækist eftir athygli,“ segir hún og hlær.

Hún ólst upp í Reykjavík og Hafnarfirði en foreldrar hennar skildu þegar hún var ung.

„Pabbi bjó í Reykjavík og mamma í Hafnarfirði, svo ég ferðaðist á milli heimila og varð einhvers konar blanda af Hafnfirðingi og Reykvíkingi.“

Fanný Huld lýsir sér sem opnu og orkumiklu barni sem elskaði að vera miðpunktur athyglinnar.

„Ég var einkabarn fram að tíu ára aldri og það hentaði mér vel – öll athyglin var á mér! En svo eignaðist ég tvö hálfsystkini, bæði mömmumegin, og fann strax hvað það var gefandi að verða stóra systir. Það kenndi mér mikið og ég fékk forsmekkinn af því að verða mamma.“

Fanný Huld var aðeins sextán ára þegar hún varð ófrísk …
Fanný Huld var aðeins sextán ára þegar hún varð ófrísk að dóttur sinni. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var skíthrædd að segja foreldrum mínum frá þessu“

Eins og fram hefur komið var Fanný Huld aðeins sextán ára þegar hún komst að því að hún ætti von á barni. Á þeim tíma var hún nemandi við Flensborgarskólann og nýbúin að ljúka förðunarnámskeiði hjá Mood Make-up School, sem þá var og hét.

„Þetta kom mjög á óvart – þetta var bara algjört sjokk. Ég fraus bara,“ segir hún.

Það reyndist henni afar erfitt að segja foreldrum sínum frá.

„Já, ég var skíthrædd að segja foreldrum mínum frá þessu. Úff, það var erfitt. Mamma og pabbi fengu áfall, þetta voru ekki alveg þær fréttir sem þau bjuggust við. Þau voru alls ekki ánægð, en studdu mig samt í gegnum þetta.

Fanný Huld með dóttur sína. Ljósmóðirin heitir Helga Ragnheiður Höskuldsdóttir …
Fanný Huld með dóttur sína. Ljósmóðirin heitir Helga Ragnheiður Höskuldsdóttir og tók einnig á móti bróður Fannýjar Huldar og móður hennar. Ljósmynd/Aðsend

Pabbi minn stakk upp á því að ég færi í fóstureyðingu, ég held bara af því hann var í sjokki. En ég var ákveðin. Ég hugsaði: Ég mun eiga hana – og þetta verður allt í lagi. Og það varð það líka.“

Í miðri óvissunni fann Fanný Huld þó fyrir miklum hlýhug frá ömmu sinni.

„Amma mín tók þessu af mikilli ró og sagði bara: ‘Börn eru blessun, þetta reddast.’ Það var svo ótrúlega hughreystandi og gaf mér trú á að þetta myndi ganga upp.“

„Ég missti marga vini“

Fanný Huld flosnaði fljótlega upp úr námi eftir að hafa komist að því að hún væri ófrísk. Hún segir að margir vinir hennar á þeim tíma hafi byrjað að fjarlægjast hana.

„Þetta var skrýtinn tími. Vinir mínir voru að skemmta sér og lifa lífinu á meðan ég var heima, ófrísk og síðar með barn á brjósti. Ég missti alveg marga vini – bjóst ekki beint við því, en það gerðist,“ segir hún.

Hvernig leið þér?

„Ég hafði bara um nóg annað að hugsa. Auðvitað var leiðinlegt að sjá á eftir góðum vinum, en líf okkar voru einfaldlega gjörólík.“

En hvað með barnsföðurinn – voruð þið saman?

„Við höfðum verið par í stuttan tíma þegar ég varð ófrísk, en hættum saman fljótlega eftir það. Hann hefur ekki verið hluti af lífi dóttur okkar.“

Fjórir ættliðir saman. Frá vinstri: móðir Fannýjar Huldar, Helga Guðmundsdóttir, …
Fjórir ættliðir saman. Frá vinstri: móðir Fannýjar Huldar, Helga Guðmundsdóttir, Fanný Huld sjálf, dóttir hennar Hulda og Rakel Kristjánsdóttir, amma Fannýjar Huldar. Ljósmynd/Aðsend

„Fæðingin gekk eins og í sögu“

Aðspurð segir Fanný Huld meðgönguna hafa gengið vel.

Þegar fór að líða að fæðingu – varstu stressuð?

„Ég var alveg frekar stressuð. Ég átti eina vinkonu, aðeins eldri en ég, sem var ófrísk á sama tíma – við vorum samferða í þessu. Hún átti viku á undan mér og fæðingin hennar var hræðileg, sem hræddi mig mjög mikið. Ég ákvað þá að ímynda mér það allra versta og undirbúa mig undir það. Það hjálpaði mér, skrýtið að segja, en þannig gat ég tekist á við það af meiri ró.“

Hulda var glöð að verða stóra systir.
Hulda var glöð að verða stóra systir. Ljósmynd/Aðsend

Fanný Huld fæddi dóttur sína á Heilbrigðisstofnun Akraness.

„Ég var sett af stað og fæddi á Akranesi. Fæðingin gekk eins og í sögu. Ég man að ég hugsaði: Vá, ég hélt að þetta væri verra! Mamma var með mér og var hálföfundsjúk út í mig – hennar fæðingar voru miklu erfiðari.“

Fanný Huld segir augnablikið þegar hún fékk dóttur sína í fangið hafa verið ólýsanlegt.

„Þegar ég fékk dóttur mína í fangið breyttist allt. Ég fór úr því að vera krakki í að vera fullorðin kona á augabragði. Þetta var ólýsanlegt augnablik.“

Fimm árum eftir að dóttir hennar, Hulda, kom í heiminn eignaðist hún son sinn, Friðrik.

„Ég kynntist barnsföður mínum þegar dóttir mín var tveggja ára. Við vorum saman í sex ár og eigum mjög gott samband í dag. Hann er frábær pabbi og kom dóttur minni í föðurstað. Við erum með þau viku og viku í senn – og það gengur virkilega vel.“

Fanný Huld ásamt börnum sínum, Huldu og Friðriki.
Fanný Huld ásamt börnum sínum, Huldu og Friðriki. Ljósmynd/Aðsend

„Hann kallaði mig drottningu“

Spólum aðeins fram í tímann.

Í maí árið 2023 kynntist Fanný Huld nýjum manni, Markusi Klinger, sjóntækjafræðingi og eiganda Sjón gleraugnaverslunar.

„Við kynntumst á Kalda bar í miðbænum. Ég var nýlega einhleyp og alls ekki að leita að neinu. En hann gekk upp að mér og kallaði mig drottningu og hefur gert það á hverjum einasta degi síðan,“ segir hún og hlær.

„Ég sá grátt hár og skegg og hugsaði: Hvað ert þú eiginlega að reyna? En svo spjölluðum við lengi og hann heillaði mig alveg. Hann var svo einlægur og með einstaka nærveru.“

Markus og Fanný Huld kynntust á Kalda bar.
Markus og Fanný Huld kynntust á Kalda bar. Ljósmynd/Aðsend

Markus „addaði“ Fannýju Huld á Facebook, fór að senda skilaboð og bað um símanúmer hennar. Ekki leið á löngu þar til þau voru farin að tala saman í síma á hverjum degi, stundum í tvo klukkutíma í senn.

„Svo bauð hann mér á stefnumót. Ég sagðist bara vera laus eftir tvær vikur, sem var lygi – ég vildi bara láta hann bíða,“ segir hún. „Svo fórum við loks á stefnumót, það gekk ótrúlega vel og við erum búin að vera saman síðan.

Það má segja að þetta hafi verið skrifað í skýin. En rétt um viku áður en ég hitti Markus fyrst sagði ég við vinkonu mína: Ég þarf örugglega að finna mér eldri mann, einhvern sem er búinn með barneignarpakkann. Ég ætla ekki að eiga fleiri börn. Og sjö dögum síðar hitti ég þann mann.“

Ástfangin við Eiffel-turninn.
Ástfangin við Eiffel-turninn. Ljósmynd/Aðsend

Þrjátíu ára aldursmunur

Markus er þrjátíu árum eldri en Fanný Huld. „Já, hann flutti til Íslands áður en ég fæddist,“ segir hún og hlær.

Hafið þið fundið fyrir fordómum?

„Já, algjörlega. Við höfum fundið fyrir fordómum úr öllum áttum. Honum er alveg sama, en ég tók þessu nærri mér í byrjun. Vinir mínir og pabbi voru ekki par hrifnir af sambandinu í upphafi, en það hefur nú lagast. Pabbi og Markus eru fínir félagar í dag.“

Börn Fannýjar Huldar hafa tekið Markusi opnum örmum.
Börn Fannýjar Huldar hafa tekið Markusi opnum örmum. Ljósmynd/Aðsend

Á hann börn, og ef svo er, hvernig er samband þitt við þau?

„Já, hann á einn son sem er þremur árum yngri en ég. Ég myndi ekki segja að ég væri beint uppáhalds manneskjan hans. Þetta er flókið, en við erum alltaf að vinna í þessu.

Ég er bjartsýn á að samband okkar fari batnandi með hverjum deginum.“

„Fólk á netinu getur verið grimmt“

Fanný Huld er virk á samfélagsmiðlum og deilir reglulega myndum og myndböndum úr lífi sínu og Markusar.

„Ég hef fengið mjög ljótar athugasemdir. Fólk hefur kallað mig „gold digger“, hóru og verra.

Einn skrifaði athugasemd við færslu og sagði mér að fremja sjálfsmorð. Það er ótrúlegt hvað sumir telja sig hafa rétt til að segja. Fólk á netinu getur verið grimmt.“

Margir hafa gagnrýnt samband þeirra.
Margir hafa gagnrýnt samband þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Íhugaðir þú að slíta sambandinu vegna skoðana annarra?

„Nei, ekki beint. Fyrst fór ég að efast og tók neikvæð viðbrögð nærri mér, en því meira sem við kynntumst og vorum saman, því minna fór ég að pæla í öðrum. Ég var svo hamingjusöm og er það enn.“

„Ég kolféll fyrir honum“

Fanný Huld og Markus hafa verið dugleg að ferðast saman um heiminn.

„Já, það byrjaði bara strax.

Kvöldið sem við kynntumst á Kalda bar sagði hann að hann langaði að bjóða mér til Parísar. Hann stóð við það og bauð mér til Parísar þremur vikum síðar. Ég hélt fyrst að hann væri að djóka og ég ætlaði ekki að fara, en þetta var ekkert djók. Ég var efins en ákvað að slá til og sé ekki eftir þeirri ákvörðun í dag.“

Hvernig leið þér með honum í París?

„Ég viðurkenni að ég var stressuð að fara, en það var svo mikil upplifun að sjá hvernig hann er, algjört séntilmenni. Hann fór með mig á flottasta hótelið og flottustu veitingastaðina, kynnti mig fyrir alls kyns fólki. Hann er svo hress og skemmtilegur og laðar fólk að sér. Ég kolféll fyrir honum þar og þá.“

Markus fór á skeljarnar í byrjun ágúst á Santorini.
Markus fór á skeljarnar í byrjun ágúst á Santorini. Ljósmynd/Aðsend

Fór á skeljarnar á Santorini

Markus fór á skeljarnar á Santorini þann 3. ágúst síðastliðinn. Fanný Huld segist ekki hafa búist við bónorði í þeirri ferð.

„Ég vissi ekki að hann ætlaði að biðja mín, en ég er ótrúlega glöð að hann skyldi hafa gert það,“ segir hún.

Fanný Huld lýsir bónorðinu sem einu fallegasta augnabliki lífs síns.

„Hann var búinn að panta lúxussvítu á glæsilegu hóteli og hafði beðið starfsfólkið um að skreyta herbergið með rósum og kampavíni. Ég kiknaði í hnjánum, þetta var svo fallegt og rómantískt, eins og sena úr bíómynd. Ég get ekki beðið eftir að giftast honum.“

„Ég er ótrúlega þakklát“

Þau Fanný Huld og Markus hafa ekki búið saman síðustu ár, en nú eru þau loksins búin að finna draumahúsið sitt í Hafnarfirði og eru á leiðinni að flytja inn. „Við erum svo spennt fyrir þessu nýja ævintýri,“ segir hún.

Fjölskyldan er spennt fyrir komandi tímum.
Fjölskyldan er spennt fyrir komandi tímum. Ljósmynd/Aðsend

Parið stefnir einnig á að gifta sig eftir tvö ár, líklega í útlöndum.

„Við viljum hafa þetta stórt. Markus er vinamargur og við eigum mikið af góðu fólki í kringum okkur.“

Fanný Huld segir að hún sjái ekki fram á fleiri börn.

„Ég er búin með barneignarpakkann,“ segir hún og hlær. „Við höfum rætt það, en erum bara sátt eins og er. Lífið er gott. Ég er ótrúlega þakklát og spennt fyrir framtíðinni – og ef eitthvað er, þá bíðum við bara spennt eftir barnabörnunum.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

tannlæknir svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda