Leikarinn og stofnandi leikhópsins Óskabörn ógæfunnar, Vignir Rafn Valþórsson, er í leit að húsnæði, ef marka má færslur hans á helstu leigusíðum Facebook.
Vignir Rafn, sem á tvær ungar dætur með leikkonunni og leikstjóranum Þórunni Örnu Kristjánsdóttur, segist vera á höttunum eftir húsnæði, helst í göngufæri við Vesturbæjarskóla. Hann er opinn fyrir hvers kyns húsnæði svo lengi sem þar sé salerni, rafmagn og rennandi vatn. Sturta er bónus.
Vignir Rafn hefur komið víða við í íslenskum leiklistar- og menningarheimi. Hann starfaði í Þjóðleikhúsinu fyrstu árin eftir útskrift úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands, hefur unnið mikið með sjálfstæðum leikhópum og einnig leikið í sjónvarpi og kvikmyndum. Má þar meðal annars nefna Ófærð 2, Svartur á leik, Næturvaktina og Hlemmavideó.