Opin sambönd enda mörg í tárum

Talið er að Lily Allen sé að fjalla um hjónaband …
Talið er að Lily Allen sé að fjalla um hjónaband hennar og David Harbour á nýju plötunni. AFP

Að opna samband er eins og að stíga inn í völundarhús samningaviðræðna; flókið, ófyrirsjáanlegt og ansi lostafullt. Mikilvægast er að tala saman, hlusta og setja skýrar reglur áður en út í þetta er farið. Þetta kemur fram í grein sem Vogue birti um opin sambönd. 

Þetta gerði söngkonan Lily Allen. Nýja platan hennar, West End Girl, hefur vakið gríðarlega athygli fyrir hráa og beitta frásögn af opnu hjónabandi sem fór út af sporinu, hugsanlega hennar eigin.

„Við höfðum samkomulag,“ syngur Allen í laginu Madeline, þar sem hún ávarpar hina konuna í sambandinu. „Vertu dulin, ekki of augljós, það þurfti að vera greiðsla, það þurfti að vera með ókunnugum.“

Allen hefur sjálf sagt að platan sé innblásin af fjögurra ára hjónabandi hennar við Stranger Things-stjörnuna David Harbour, sem hingað til hefur ekki tjáð sig um málið. Þó það sé ekki vitað hvað raunverulega gerðist þeirra á milli þá teikna textar plötunnar upp mynd af konu sem reynir að bjarga sambandinu með því að opna það fyrir kynlífi við aðra, aðeins til að vera svikin og niðurlægð þegar makinn brýtur reglurnar.

„Ég vil bara mæta þínum þörfum“

Í laginu Nonmonogamummy syngur Allen: „Ég vil bara mæta þínum þörfum.“ Sögupersónan áttar sig þó fljótt á því að það að opna sambandið var það sem eyðilagði það endanlega og var örvæntingarfull tilraun til að laga eitthvað sem þegar var brotið. Grimmdin í frásögninni virðist þó hafa hitt marga í hjartastað, ef marka má vinsældir plötunnar.

Siðferðilega samþykkt fjölást, eða ethical non-monogamy (ENM), er ekki nýtt fyrirbæri. En eftir því sem samfélagið fjarlægist hefðbundin sambönd, hefur orðið algengara að pör reyni að opna sambandið þegar neista vantar í von um að aðrir kveiki aftur löngun sem týndist á milli heimilisverka og rafmagnsreikninga.

Í greininni segir að þetta geti virkað en það krefjist fullkominnar samstillingar. Það þurfi ekki bara að vera á sömu blaðsíðu, heldur sömu línu og jafnvel sama orði. Margir, sérstaklega konur, hafa þó gengist inn í slíkt samkomulag einungis til að halda makanum ánægðum og það endar yfirleitt með sársauka.

Maya, 29 ára, segir að hún og kærasti hennar hafi ákveðið að prófa opið samband eftir fjögurra ára kynlífslega stöðnun.

„Hann hafði ekki verið einhleypur lengi og vildi kanna tvíkynhneigða hlið sína, á meðan ég hafði áhuga á kinkí hlutum en hann ekki,“ segir hún. Þau settu upp reglur; ekkert á sameiginlegu heimili, alltaf smokkar, engir vinir. En með tímanum fór ýmislegt að bresta.

„Ævintýrin urðu of mikil, sérstaklega með áfengi,“ segir Maya. „Ég átti erfitt með að skilja á milli tilfinninga og kynlífs og smám saman hætti ég alveg að vilja sofa hjá kærastanum mínum.“

Hún svaf síðar hjá vini sínum og sambandinu lauk skömmu eftir það. „Ég lærði á eigin skinni að opið samband lagar ekki vandamál sem þegar eru til staðar.“

Mismunandi þarfir fólks

Fyrir suma getur þó opnun bjargað sambandinu. Lavvynder, 32 ára, segir að þegar hann og eiginkona hans ákváðu að stunda pólýamóríu, hafi það gert þeim kleift að átta sig á mismunandi þörfum

„Við áttum okkur á því að við vorum ekki sömu manneskjurnar og þegar við kynntumst,“ segir hann. Þau skildu á endanum en bæði fundu ný sambönd sem hentuðu betur.

Sálfræðingurinn Madeleine Mason Roantree segir að margir misskilji hvað fjölást felur í sér.

„Að reyna opið samband þegar traust og samskipti eru þegar í molum getur verið hörmulegt,“ segir hún. „Það getur aukið afbrýðissemi, óöryggi og jafnvel seinkað því að fólk finni lausn á dýpri vandamálum.“

Hún bendir einnig á að opið samband krefjist mikils tilfinningalegs þroska, tíma og orku sem ekki allir ráða við.

„Það hentar einfaldlega ekki þeim sem leggja mikið upp úr einlægni og nálægð í ást og kynlífi.“

Hvort sem opið samband endar í gleði eða tárum, þá sýna sögur eins og þessar að það snýst ekki um reglur eða leyfi, heldur um samskipti, sjálfsþekkingu og traust. Og eins og Lily Allen syngur: „Við höfðum samkomulag.“

Spurningin er bara — hverjir standa við sitt?

Vogue

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

tannlæknir svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda