„Hún var lúmsk og bauð mér í göngutúr“

Hafsteinn og Hildur fögnuðu nýverið þriggja ára sambandsafmæli sínu.
Hafsteinn og Hildur fögnuðu nýverið þriggja ára sambandsafmæli sínu. Ljósmynd/Aðsend

Hildur Kaldalóns Björnsdóttir og Hafsteinn Níelsson sjá vart sólina hvort fyrir öðru – og það er ekki að undra, því þau hittust fyrst á sólríkum degi á Tenerife.

Nýverið fögnuðu þau þriggja ára sambandsafmæli sínu og horfa nú björtum augum til framtíðar, enda eru þau metnaðarfull, lífsglöð, hamingjusöm og tilbúin að takast á við allt sem framtíðin ber í skauti sér.

Hildur og Hafsteinn eiga margt sameiginlegt – bæði lifa og hrærast þau í listinni.

Hildur, 23 ára, stundar nám í fatatækni við Tækniskólann og er einnig nemandi í söngleikjadeild Söngskóla Sigurðar Demetz. Hún starfar sem matarleiðsögumaður og kennari í Dansskóla Birnu Björns, auk þess sem hún fer með hlutverk Mæju jarðarbers í Ávaxtakörfunni, sem sýnd verður í Gamla bíói í nóvember.

Auk þess hefur hún unnið við talsetningu og rekur netverslunina Kadalo Collection, þar sem hún selur eigin hönnun og vandlega valdar flíkur.

Hafsteinn er 26 ára gamall leikari og sviðshöfundur. Hann starfar sem leikskáld við Þjóðleikhúsið og í janúar verður íslenski söngleikurinn Ormstunga, byggður á Gunnlaugs sögu ormstungu, frumsýndur á stóra sviðinu, en Hafsteinn er annar höfunda verksins.
Líkt og Hildur starfar hann einnig sem matarleiðsögumaður og raddleikari, og hefur meðal annars talsett köngulóarmanninn Miles Morales í Spider-Verse-myndunum.

Það er óhætt að segja að nóg sé um að vera hjá þessu unga og skapandi pari.

Hafsteinn og Hildur elska að hafa gaman saman.
Hafsteinn og Hildur elska að hafa gaman saman. Ljósmynd/Aðsend

Þau kynntust á Tenerife, líkt og áður hefur komið fram, þar sem fjölskyldur þeirra beggja eiga hús. Hildur var þá að vinna fyrir ferðaskrifstofu, en Hafsteinn að slaka á og njóta lífsins í sólinni.

„Við hittumst fyrst á dragbar þar sem bresk dragdrottning hélt tónlistarkviss,“ segir Hafsteinn og bætir við: „Þar smullum við saman og mynduðum strax sterka vináttu sem þróaðist fljótt í eitthvað fallegt.“

Hafsteinn segir Hildi hafa tekið fyrsta skrefið:

„Já, klárlega hún. Ég var svo stressaður! Hún var lúmsk og bauð mér í göngutúr á tenerífsku ströndinni að kvöldi til. Hál sem áll, þessi stelpa.“

Þegar spurt er hvort þau muni eftir fyrstu skilaboðunum, símtalinu eða samtalinu, segir Hildur að það hafi allt byrjað á TikTok.

„Ég hafði deilt myndbandi af mér að hoppa út í vatn á Tenerife og það vakti athygli Hadda – enda fátt sem hann elskar meira en að hoppa út í vatn,“ segir hún brosandi.
„Það má því segja að við kynntumst á Tenerife og TikTok. Við köllum þetta töfrandi T-in tvö.“

Hafsteinn tekur undir og bætir við:

„Þrátt fyrir að vera fastagestur á Tenerife kannaðist ég ekki við staðinn sem hún var á, en mig langaði að fara þangað. Þannig að ég sendi Hildi línu og spurði hvar hoppustaðurinn væri,“ segir hann. „Seinna kom svo í ljós að myndbandið var dálítið blekkjandi – hún hoppaði nefnilega alls ekki út í vatnið. Við höfum farið þangað saman síðan, en Hildur hefur enn ekki hoppað.“

Hafsteinn og Hildur kynntust á Tenerife.
Hafsteinn og Hildur kynntust á Tenerife. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsta stefnumót Hildar og Hafsteins á Íslandi var bíóferð.

Þau skelltu sér á hryllingsmynd sem þau höfðu bæði langað að sjá, en enduðu á því að sofna yfir myndinni. Þau segja það þó hafa verið gott merki, enda sofnar maður helst við hlið þeirra sem manni líður vel með.

„Ég bauð Hadda í bíó á fyrsta stefnumótinu okkar hér heima,“ segir Hildur.
„Þegar við vorum á Tenerife hafði ég fengið samstarf á TikTok með Sambíóunum og Haddi gaf mér góð ráð varðandi það. Mér fannst því tilvalið að endurgjalda greiðann með því að bjóða honum í bíó fyrir miðana sem ég fékk í samstarfinu.“

„Við sáum myndina Nope. Við erum bæði hrifin af leikstjóra hennar, Jordan Peele. Það fór þó ekki betur en svo að við sofnuðum bæði yfir myndinni.“

Hér má sjá unga parið í gervi Ross og Rachel …
Hér má sjá unga parið í gervi Ross og Rachel úr Friends, í senu sem sannir aðdáendur þáttanna þekkja eflaust vel. Ljósmynd/Aðsend

Þegar blaðamaður spyr hvaða kvikmynd myndi best lýsa sambandi þeirra segja þau að það sé Disney-mynd.

„Ég myndi segja Lilo og Stitch,“ segir Hafsteinn. „Við kynntumst á lítilli eyju og búum á lítilli eyju. Er Ísland ekki bara aðeins svalara en Havaí? Tvær eldfjallaeyjur hvort sem er.“

Hildur tekur undir.
„Við getum bæði verið algjörir drýslar og subbur eins og Stitch, en líka miklar tilfinningaverur eins og Lilo. Og svo elskum við að njóta okkar í sólinni.“

„Ég veit samt ekki alveg hver er hvað,“ segir Hafsteinn og heldur áfram. „Ég held að ég sé hvorki Lilo né Stitch, ég er kannski gaurinn með ísinn og bóndafarið.“

Hildur og Hafsteinn eru dugleg að ferðast.
Hildur og Hafsteinn eru dugleg að ferðast. Ljósmynd/Aðsend

Hildur og Hafsteinn eru sammála um hver lykillinn að góðu sambandi sé.

„Það eru samskipti og að vera ekki tapsár í spilum,“ segir Hildur.

„Ég ætlaði að segja þetta,“ heyrist þá frá Hafsteini.

„Já, en ég var á undan,“ svarar Hildur og hlær.

Hvað kom mest á óvart þegar þið fóruð að vera saman eða byrjuðuð að búa saman?

„Við höfum bæði mikinn áhuga á spurningaleikjum og það kom okkur á óvart hvað við erum frábært trivia-teymi,“ segir Hafsteinn.
„Við bíðum spennt, en þó pen, eftir boði í einhvern af þessum spurningaþáttum í sjónvarpinu. Blikk blikk.“

„Já, við vinnum mjög vel saman,“ segir Hildur. „Við meira að segja vinnum saman sem matarleiðsögumenn í Reykjavík.“

„Einmitt,“ bætir Hafsteinn við. „Við vinnum saman en erum þó alltaf með sitthvorn túrinn. Við hittumst stundum á vappi um borgina og það er alltaf gott grín að láta túristana halda að heimamenn kyssi hvorn annan á munninn þegar þeir heilsast.“

Hildur hlær og segir: „Svo er það alveg með ólíkindum hversu mikið prump safnast undir sænginni á kvöldin. Prump er fyndið.“

Ken og Barbie.
Ken og Barbie. Ljósmynd/Aðsend

Eruð þið líkar týpur?

„Að mörgu leyti já, og að mörgu leyti nei – sem er bara gaman,“ segir Hafsteinn.

„Við elskum bæði að sofna við sjónvarpsþætti og hlaðvörp,“ segir Hildur. „Við höfum bæði mjög gaman af söngleikjum og við gjörsamlega dýrkum Hveragerði.“

„Sviðslistir eru okkur ofarlega í huga,“ segir Hafsteinn, „en þó erum við með mismunandi áherslur innan þeirra, sem er mjög skemmtilegt. Hildur er til dæmis hörkusöngkona og dansari, á meðan ég hef síðustu ár einbeitt mér meira að leikstjórn og höfundastarfi, svona meira á bak við tjöldin. Það kemur sér vel fyrir mig að búa með svona hörku performer þegar ég er að leita að hlutverki í söngleik, til dæmis.“

„Þó að við séum bæði á TikTok má sjá mikinn mun á efninu sem við framleiðum,“ segir Hildur. „Við erum kannski svipaðir leikmenn á taflborðinu, en förum þó stundum í mismunandi áttir.“

Hvernig haldið þið neistanum á lofti?

„Við reynum að taka frá tíma fyrir hvort annað þrátt fyrir pakkaða dagskrá. Við erum bæði gífurlega upptekin, svo við pössum upp á að finna reglulega tíma sem við getum eytt saman. Við reynum líka að hrósa hvort öðru reglulega til að gefa gott pepp inn í daginn. Það gerir mikið að fá stundir þar sem við þurfum ekki að hugsa um neitt annað en að njóta samverunnar. Oft setjumst við bara niður, borðum, drekkum og spilum. Ef tími gefst leggjum við aðeins meira fútt í stefnumótin okkar og skiptumst á að skipuleggja þau til að koma hvort öðru á óvart.

Við sjáum líka oft sniðugar hugmyndir að stefnumótum á TikTok og prófum þær síðan sjálf. Það heldur hlutunum ferskum og skemmtilegum,“ segir parið.

Það er alltaf gleði og gaman í kringum þetta unga …
Það er alltaf gleði og gaman í kringum þetta unga par. Ljósmynd/Aðsend

Blaðamaður varð auðvitað að forvitnast hvort eitthvað í fari hins færi stundum, á góðan hátt, í taugarnar á þeim.

„Þegar Haddi er að semja tónlist dettur hann oft í svokallað són,“ segir Hildur. „Þetta són á það til að dragast svolítið á langinn. Stundum vakna ég við hann um miðja nótt, garga í míkrafóninn eða glamra á píanóið. Þetta eru gremju-G-in tvö.“

„Þegar Hildur kaupir gosdrykki setur hún þá sjaldan í ísskápinn,“ segir Hafsteinn og hlær. „Það er eins og hún hati kalda drykki. Hver drekkur volga orkudrykki? Nú spyr ég fyrir vin…“

Hver er líklegri til að gera eitthvað sem fer í taugarnar á hinum, eins og að skilja eftir kaffibolla alls staðar eða gleyma að slökkva ljósin?

„Haddi er myrkfælinn og gleymir oft að slökkva ljósin. Hann skilur þau kveikt hér og þar um íbúðina,“ segir Hildur.

„Verandi skapandi einstaklingur fer ímyndunaraflið á flug á nóttunni, oft og tíðum í ógnvekjandi áttir,“ segir Hafsteinn. „Mér líður bara mun betur í birtunni. Ég hef það einfaldlega ekki í vöðvaminninu að slökkva ljós.“

Hafsteinn og Hildur eru dugleg að skella sér í útileigur.
Hafsteinn og Hildur eru dugleg að skella sér í útileigur. Ljósmynd/Aðsend

Hildur og Hafsteinn þurfa ekki að hugsa sig lengi um þegar þau eru beðin um að lýsa hvort öðru í þremur orðum.

„Tónlistarséní, hæfileikabomba og kærleiksbangsi,“ segir Hildur ákveðin.

„Stórstjarna, ofurheili og þúsundþjalasmiður,“ svarar Hafsteinn án þess að hika.

Hvað gerið þegar þið farið á stefnumót eða viljið gera vel við ykkur?

„Hildur er kona af úrræðagóðu tagi. Hennar fólksbíll er camper,“ segir Hafsteinn. „Við eigum það oft til að skella okkur í road trip eða útilegur til að gera vel við okkur. Það er svo gott að keyra aðeins í burtu frá öllum látunum.“

„Ef við viljum gera extra vel við okkur hefur Sky Lagoon alltaf tekið vel á móti okkur,“ segir Hildur. „Svo höfum við tvisvar gist á hótelum hér innanlands, núna seinast á Hótel Örk í Hveragerði – besta bæ í heimi – og það var algjör draumur í dós.“

„Síðan er alltaf spilastokkur eða spurningaspil í vasanum,“ bætir Hafsteinn við.

Unga parið hlakkar til að ferðast meira.
Unga parið hlakkar til að ferðast meira. Ljósmynd/Aðsend

Hvað hefur breyst í sambandinu í gegnum árin?

„Við erum farin að skilja hvort annað mun betur og sýnum hvort öðru meiri þolinmæði,“ segir Hildur.

„Ég átti mjög erfitt með þögnina stundum,“ segir Hafsteinn. „Ég byrjaði þá að ofhugsa á fullu, en ekki lengur.“

„Algjör óþarfi að hræðast þögnina,“ bætir Hildur við.

Hugsið þið mikið um framtíðina, og ef svo er, hver eru stóru plönin?

„Ég vona að við Hildur fáum fleiri tækifæri til að vinna saman að einhverju skapandi, hvort sem það er í sviðslistum, tónlist eða á samfélagsmiðlum,“ segir Hafsteinn.
„Draumurinn minn væri að við myndum talsetja mynd saman, helst einhverja Disney-mynd eða jafnvel Simpsons 2. Hildur er rosaleg í þeim eftirhermum!“

„Það mætti segja að við séum búin að hugsa um framtíðina síðan áður en við byrjuðum saman,“ segir Hildur. „Núna eru hugmyndirnar orðnar skýrari og markmiðin virðast ekki lengur svo langsótt.“

„Næst á dagskrá er að kaupa íbúð,“ segir Hafsteinn. „Við erum búin að vinna hörðum höndum að því að safna, svo vonandi tekst það á næsta ári.“

„Þegar íbúðin er komin langar okkur að ferðast meira,“ bætir Hildur við. „Við fórum í skemmtiferðasiglingu síðasta sumar og urðum algerlega ástfangin af þeim ferðamáta. Við sjáum klárlega fyrir okkur að fara í fleiri slíkar siglingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

tannlæknir svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda