Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins svarar spurningum lesenda Smartlands.
Sæll Valdimar.
Ég er með eina spurningu. Ég vinn mikið í því að halda frið á öllum stöðum hvort sé um að ræða fjölskyldu eða aðra. Það fer ómæld vinna í þetta og andleg þreyta ég get ekki sagt mína skoðun eða upplifun af neinu því þá er sagt að ég búa til leiðindi. Mig langar að vera með góða sjálfsmynd og þora að tala og gera hluti sem mig langar að gera. Í stuttu máli er ég robot sem aðrir hafa búið til. Ég tek ekki sjálfstæðar ákvarðanir né hugsun, ég er vel forrituð. Andleg þreyta er að buga mig því ég er barin niður og jafnvel hafa allir leyfi til að ganga í skrokk á mér og meiða mig illa andlega og líkamlega.
Kveðja,
ein buguð.
Góðan daginn og takk fyrir þessa hugleiðingu.
Það er leitt að heyra af þessari reynslu þinni og strax hægt að segja að enginn ætti að þola ofbeldi af neinu tagi. Við erum öll í samfélagi með fullt af fólki þar sem hver og einn hefur sína skoðun. Það er mikilvægt að við virðum skoðanafrelsi annarra og það ætti að virka í báðar áttir. Við ættum semsagt að geta sagt það sem okkur finnst, án þess að það sé ráðist á okkur, og við ættum að geta hlustað á aðra segja sína skoðun, án þess að ráðast á þau.
Okkur geta fundist skoðanir annarra ferlega kjánalegar og jafnvel vitlausar, en fólk má hafa sínar skoðanir. Það mátt þú líka. Það er svo allt annað ef við erum að beita fólki ofbeldi, hvort sem ofbeldið er andlegt eða líkamlegt. Þá erum við að tala um allt aðra hluti og mikilvægt að leita eftir aðstoð fagaðila þegar fólk verður fyrir ofbeldi. Það getur verið eðlilegt í slíkum tilvikum að hringja í lögreglu og biðja um aðstoð.
Margt af því sem þú ert að lýsa gætu verið merki um fyrirbæri sem kallast meðvirkni. Meðvirknin veldur því meðal annars að margir eru ýmist mjög stjórnsamir eða mjög undanlátssamir. Að vera stjórnsamur getur til dæmis verið að segja öðrum til, gefa ráð þó enginn sé að biðja um þau, gagnrýna hvað aðrir eru að gera, fara í fílu ef fólk gerir ekki það sem maður vill og skipta sér af hlutum sem manni koma ekki við. Að vera undanlátssamur er að sætta sig við stjórnsemi og yfirgang annarra. Það getur verið að sætta sig við afskiptasemi fólks og að setja ekki skýr mörk gagnvart þeim sem eru að vaða yfir okkur. Það hefur mikil áhrif á sjálfsvirðingu og sjálfstraust okkar þegar við finnum að við stöndum ekki með okkur gagnvart fólki sem kemur illa fram við okkur. Ég skil því vel að þú finnir fyrir þreytu miðað við þessa lýsingu og þó það sé engin spurning fólgin í upplýsingunum frá þér þá ætla ég að giska á að þú veltir fyrir þér hvaða leiðir þú gætir farið í þessum verkefnum.
Fljótt á litið myndi ég eins og áður sagði, hafa samband við lögreglu ef það er verið að beita þig ofbeldi af einhverju tagi. Ég vil líka nefna Bjarkarhlíð við Bústaðarveg sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis Ég myndi líka mæla með því að fara úr aðstæðum sem eru skaðlegar fyrir þig. Ég veit að það getur verið flókið en það getur verið nauðsynlegt þegar aðstæðurnar eru slæmar. Að lokum mæli ég hiklaust með því að skoða meðvirknina og hvort þú tengir við helstu einkenni hennar. Það er hægt að gera með því að fara í 12 spora fundi í CODA samtökunum. Það er ýmislegt efni inn á heimasíðu þeirra sem er www.coda.is. Það er líka hægt að lesa bókina Meðvirkni eftir Piu Mellody og svo get ég mælt með hljóðvarpinu Meðvirknipodcastið sem fjallar um margar hliðar meðvirkninnar og hægt að skoða á www.medvirknipodcastid.is
Gangi þér allt í haginn í þessu verkefni.
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR.