Ár tilfinninga og ástríðu

Fiskurinn 19. febrúar - 20. mars

Elsku Fiskurinn minn, þetta verður tilfinninga- og ástríðufullt ár sem heilsar þér, en þú gætir haft of miklar áhyggjur af ástinni því Plútó er að dreifa þannig ótta inn í merkið þitt.

Ef þú finnur þannig tilfinningu, gerðu þá strax eitthvað óvænt og skemmtilegt fyrir þann sem þú elskar, skilyrðislaust og án þess að búast við að fá nokkuð til baka.

Þannig seturðu jafnvægi í ástina, þetta er fyrst og fremst andlegt ferðalag og hin heilandi helga tala sjö blessar þig og þú átt að taka lífinu eins rólega og þú mögulega getur og tengjast móður jörð eins mikið og þú þarft. Of mikill hraði, kaupæði eða annað stjórnleysi getur gert þig vitlausan, svo mundu að anda djúpt inn og út allavega tíu sinnum áður en þú hendir þér í hringiðu neyslunnar.

Maí kemur samt til þín á miklum hraða og gefur þér heppni í fjárfestingum og að taka ákvörðun einn, tveir og þrír um breytingar, henda sér út á svellið því þú getur skautað. Þetta er í dálítilli mótsögn við aðvörun mína hér að ofan um að hægja á, en þessi mánuður leyfir þér að njóta, svo vertu snöggur að taka ákvarðanir.

Peningamálin verða þarna komin á hreint, svo þú getur tekið inn sumarið með mikilli gleði og vinna, vinna og vinna verður svolítið sem einkennir þig þetta árið og þó að þú ferðist ertu alltaf að leita eftir að geta gert eitthvað.

Það eru svo margir spenntir að hitta þig og knúsa þig því þú ert með svo mikla heilunarorku að ég sé ekki betur en þú bæði finnir það og skiljir að þú gefir það frá þér. Ef eitthvað er að angra þig líkamlega, þá tengist það í 90% tilfella stressi, og þegar þú finnur þessa ólýsanlegu ró koma yfir þig þá hverfur spennan í líkama þínum.

Það eru peningar alls staðar í kringum þig, þú færð oft sjokk yfir því þú sért alveg blankur, en nei, það eru peningar þarna og þarna líka, svo þú þarft bara að rétta út höndina og þá finnurðu þann stað þar sem peningarnir liggja og þú átt eftir að nota þá til góðs fyrir þig og aðra, því peningar eru jú bara orka.

Þér á eftir að þykja svo vænt um alla og það er svo mikil hlýja og ástúð sem lýsir frá þér og sú ást sem hefst hjá þér á þessu ári mun vara um aldur og ævi, því þú gefur frá þér rétta tíðni og finnur hina sönnu ást.

Áramótaknús og kossar, Sigga Kling

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »