Ársspá Siggu Kling - Hvernig verður 2020?

Sigga Kling skoðar 2020 á sinn einstaka hátt.
Sigga Kling skoðar 2020 á sinn einstaka hátt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spákonan Sigga Kling rýndi í 2020. Árið verður ekkert venjulegt ár og mun ýmislegt áhugavert gerast. Krabbinn mun hugsanlega fá nýja vinnu á meðan Hrúturinn fær óskir sínar uppfylltar. Hér fyrir neðan er brot úr ársspá hvers stjörnumerkis en til þess að sjá spána í heild sinni þarftu að smella á hlekkinn neðst í hverju merki. 

Elsku Vogin mín,

þú ert léttasta loftmerkið og tengir þig þar af leiðandi svo vel við það að búa á Íslandi eða öðrum slíkum lítt spennandi stöðum og þér hentar ekki logmolla alla daga, þess vegna ert þú í óðaönn að skapa skemmtilegri tíðni fyrir þig.

Það eru búin að vera mikil kaflaskil hjá þér og þú ferð inn í 2020 með báðar hendur á stýrinu því þarft ekki að beygja þig fyrir neinum. Það er mikið frelsi í þessu ári sem táknar óvenjumikið af ferðalögum og alls kyns verkefnum sem gefa þér að vera mikið á fartinni og nýir staðir blasa við þér og þú verður svo niðursokkin í þetta allt saman fyrstu mánuði ársins að þeir munu líða eins og örskot.

 
Elsku hjartans Vatnsberinn minn,

þetta ár stendur fyrst og fremst fyrir að styrkja andann og efla líðan og taka öllu með ró fyrstu mánuði ársins.

Þér finnst þú sért búinn að vera að bíða og það sem þú vilt gerist ekki á þeim tíma sem þú áætlar, en það er verið að laga til í kringum þig, setja allt á réttan stað og bæta í vængina þína. Svo er eins og fingrum sé smellt og allt verður samkvæmt áætlun, hvort sem það er nákvæmlega eins og þú sérð það eða hvort alheimurinn er að gera eitthvað enn betra fyrir þig. Treystu því varlega loforðum sem virðast vera of góð til að vera sönn, gerðu allt með varúð eins og um gula viðvörun væri að ræða.  

Sumarið verður frábær tími, þú færð óvænt eitthvað sem þú ætlaðir þér ekki, kynnist fólki sem er svo gjörólíkt þér, lætur óvenjulega drauma rætast sem þú ert með á bucket-listanum þínum, svona eins og að fara í fallhlífarstökk, ferðast um Hornstrandir og upplifa ævintýri tengd ástinni eða einhverju jafn merkilegu. Þetta verður eitthvað svo öðruvísi og skrýtið, smávegis léttgeggjað og margar skemmtilegar sögur myndast á þessu sumri.


Elsku Tvíburinn minn,

þetta verður afar, afar merkilegt ár og þó þér finnist að mörgu leyti ekki vera nógu mikið að gerast í upphafi ársins, alla vega ekki það sem þú hafðir óskað þér, þá hefur lífið og alheimurinn lag á því að senda manni gjafirnar öðruvísi en þær voru pantaðar. Það er búið að vera svo ofboðslega mikið að gera hjá þér á síðasta ári og þetta nýja ár eflir líf þitt til muna og fólk á eftir að taka meira og betur eftir þér, ef það er hægt.
Þú hefur nefnilega svo miklu meiri áhrif en þig grunar og allt sem þú hefur hugsað og sagt í gegnum tíðina er skráð í skýin, og eftir því sem þú leyfir þér að óska stærra og vera jákvæðari þá gengur allt svo miklu, miklu betur.

Ástin er í öllu sínu veldi að skjóta sínum örvum að þér, og hún getur að sjálfsögðu tengst mörgu, en samt svo sannarlega alltaf því sem þú elskar og sumarið kemur snemma hjá þér og þess vegna leikurðu á als oddi. Talan einn er þín lífstala á þessu ári og táknar það að þú munt verða opinn fyrir nýjum hlutum, táknar hugrekki og að þú munir sigrast á hindrunum.


Elsku Steingeitin mín,

þú baðar þig svo sannarlega í sviðsljósinu á þessu ári, hvort sem þú vilt það eða ekki, en létt, hressandi drama umlykur þig í janúarmánuði og þú skreppur eitthvað merkilegt með engum fyrirvara, eða planar ferð sem þú bjóst ekki við að væri skráð í skýin.
Allra augu eru einhvern veginn á þér þessa fyrstu mánuði ársins og þú hefur miklar skoðanir, en farðu varlega með þær þó þær séu 100% réttar. Sýndu þolimæði í sambandi við peninga því að kauphækkun í lífinu eða aðstæðum leyfir þér að geta gert hlutina öðruvísi en þú bjóst við.

Ekki leika þér í ástinni, heldur settu allt í botn og segðu hvernig þér líður, hvað þér finnst og hvað þú vilt, því blessuð Venus er sterkust í maí og júní en teygir samt anga sína út allt árið. Forðastu samt freistingar, einnar nætur gaman eða eitthvað þvíumlíkt sem gæti sett allt á hvolf í lífi þínu. Þú nennir því ekki og þarft ekki á því að halda, svo nei er svarið við þess háttar.


Elsku Sporðdrekinn minn,

þú ert að fara inn í litríkt ár sem mun leiða þig áfram þangað sem þér líður best. Þetta tengist því sem þú ert að gera og jafnvel líka hvar þú vilt vera, þú getur farið yfir svo stór fjöll á þessu ári því þú stendur upp og tekur þau skref sem þú þarft að taka, óháð því að treysta á nokkurn til að hjálpa þér.

Í ástinni þarftu að hafa örugga undirstöðu, einhvern sem hægt er að stóla á og gefur þér jarðtengingu, og ef allt er búið að vera út og suður og í vitleysunni, skaltu loka á þá tengingu líkt og þú sért að henda út sjúkdómi, því þetta er ekki ást. Hins vegar geturðu spunnið fallegasta vefinn og lokkað til þín þann sem þú átt skilið.

 
Elsku Nautið mitt,

þetta er árið sem þú lokar og gerir allt sem þú hefur frestað hingað til, horfist í augu við það sem þú hræðist og ryður óttanum í burtu eins og hann væri smá gola. Þú verður steinhissa á sjálfum þér hvers vegna þú hefur ekki gert þetta allt saman fyrir löngu, en 2020 er svo sannarlega þinn tími til að klára, læra og loka því sem þú vilt ekki hafa, byrja hægt og rólega, eða hratt og örugglega með nýju markmiðin sem munu blasa við þér þegar það gamla og leiðinlega fýkur á brott.  

Í ástinni fellur fólk kylliflatt fyrir þér, þú ert fæddur til þess að láta elska þig, svo það er í þínu valdi hversu mikið þú leyfir ástinni að vera og hversu langt hún fær að ganga, en sum ykkar nenna ástinni alls ekki og hrista bara höfuðið ef einhver bendir á möguleikana, en ástin er eins og hnerri, þú getur ekki stoppað hana.

 
Elsku Ljónið mitt,

þetta verður uppbyggjandi ár sem kennir og sýnir þér að þú hafir miklu meiri hæfileika en þú heldur og þú átt eftir að nýta þér það til að efla og gera líf þitt skemmtilegra.
Febrúarmánuði fylgir sérstakur máttur fyrir þig og í því er svo mikilvægt að þú vitir hver þú ert og hvert þú ert að fara, því þú kemur að U-beygju sem breytir lífinu eða lífsspilunum þér í hag. Þannig að þú finnur hjá þér meiri aga en þú hefur áður fundið og þú verður staðráðinn í að láta lífið gerast á réttan máta. Það versta sem hefur komið fyrir þig framkallar oft það besta sem þú lendir í, svo þegar þú upplifir að þú getir þakkað fyrir það slæma sem fyrir þig hefur komið ertu orðinn sigurvegari.


Það verður svo mikill tilfinningahiti í kringum ástfangin Ljón, það er hreinlega eins og þau ráði sér ekki fyrir kæti og eru þar af leiðandi með þetta extra sem þarf til að fanga til sín ástina. Þú ert segulmögnuð vera og hver einasta fruma í líkama þínum er rafhlaða og laðar það að sér sem þú hugsar um. 


Elsku Krabbinn minn,

þetta verður óvenjulegt og spennandi ár sem hefur margar hliðar, þú verður svoleiðis í essinu þínu strax í janúar, meðal annars vegna þess að fullt tungl er þann 10. janúar í þínu merki, Krabbamerkinu.

Þetta ár verður reyfarakennt, öðruvísi en undanfarin ár, meira spennandi, dramatískara og færir þér meiri velferð en þú áður hefur upplifað. Maí og júní opna fyrir þér nýjar dyr sem þú bjóst ekki við að þú gætir opnað og þú verður sérstaklega hissa hversu auðvelt það reynist þér, svo mundu að fagna og í hvert skipti sem þú fagnar gengur þér betur, svo gleymdu því ekki. Júlí og ágúst verða svo ljúfir mánuður þar sem þú nærist andlega og byggir upp kraft.


Elsku Hrúturinn minn,

þú ert að fara inn í svo hratt og dásamlega hressandi ár að þú getur strax byrjað að klappa. Það hefur verið mikil spenna og streita í kringum þig og ef þú skoðar vel þá vinnurðu best undir stressi.

Þú stendur svo hnarreistur og sterkur fyrir þínu í byrjun árs og tengir þig við þá sem þú þarft að hafa samband við til að hjálpa þér að leysa úr málunum. Þú hjálpar alveg ótrúlega mikið til í fjölskyldunni, það eru svo miklu fleiri sem treysta á þig en þú heldur og þú munt svo sannarlega standa undir þeim áskorunum, að vera hinn sterki.
Lífstalan átta sveimar yfir þér þetta árið og hún táknar óendanleikann, hugsaðu það þannig að ef þú skrifar tölustafinn átta, þá hefur hann ekkert upphaf eða endi, heldur alltaf áframhald.

Þegar líða tekur að vorinu eru miklir möguleikar á tilboðum í sambandi við nýja vinnu, verkefni, húsnæði og svo framvegis og þú þarft að nýta þér þann kraft að vera fljótur að ákveða þig, tækifærin eru oft eins og vindurinn, þau koma og fara án þess að maður átti sig á því hvað er að gerast. Svo þú átt eftir að vera svolítið mikið á tánum næstu mánuði og hrindir ólíklegustu verkefnum í framkvæmd.


Elsku Fiskurinn minn,

þetta verður tilfinninga- og ástríðufullt ár sem heilsar þér, en þú gætir haft of miklar áhyggjur af ástinni því Plútó er að dreifa þannig ótta inn í merkið þitt. Ef þú finnur þannig tilfinningu, gerðu þá strax eitthvað óvænt og skemmtilegt fyrir þann sem þú elskar, skilyrðislaust og án þess að búast við að fá nokkuð til baka. Þannig seturðu jafnvægi í ástina, þetta er fyrst og fremst andlegt ferðalag og hin heilandi helga tala sjö blessar þig og þú átt að taka lífinu eins rólega og þú mögulega getur og tengjast móður jörð eins mikið og þú þarft.

Of mikill hraði, kaupæði eða annað stjórnleysi getur gert þig vitlausan, svo mundu að anda djúpt inn og út alla vega tíu sinnum áður en þú hendir þér í hringiðu neyslunnar.
Maí kemur samt til þín á miklum hraða og gefur þér heppni í fjárfestingum og að taka ákvörðun einn, tveir og þrír um breytingar, henda sér út á svellið því þú getur skautað. Þetta er í dálítilli mótsögn við aðvörun mína hér að ofan um að hægja á, en þessi mánuður leyfir þér að njóta, svo vertu snöggur að taka ákvarðanir.


Elsku Bogmaðurinn minn,

það er svo margt búið að vera að gerast hjá þér undanfarið sem mun sýna þér að örlitlu leyti hvert leiðin liggur 2020 og þú munt sjá að þú kannt leikinn, það þarf nefnilega að kunna leikinn að lifa, hvenær maður á að segja og hvenær maður á ekki að segja. Þú munt koma þér út úr öllum þeim aðstæðum sem eru að brenna þig og lifa lífinu til fulls.  

Ef þú efast um ástina og ert í sambandi, þá mundu það að ef sterkar tilfinningar og ást hafa einhvern tímann verið í lífi þínu þá geturðu kallað til þín þær tilfinningar aftur og endurnýjað ástina. Allt sem þú vilt ná árangri í krefst að sjálfsögðu dálítillar vinnu, margir munu endurnýja sambönd sín, ný sambönd eru að fæðast í byrjun árs, en það þurfa að sjálfsögðu ekki allir Bogmenn að hafa aðra manneskju hjá sér til að gera sig heila.Elsku Meyjan mín,

Júpiter verður mikið á ferðalagi í lífi þínu á þessu ári, sérstaklega tengt fjölskyldu og heimili, þar er að koma mikil velferð. Aprílmánuður er eini mánuðurinn sem ég ætla að vara þig sérstaklega við, því þar myndast alls kyns hindranir og þér finnst þú vera föst, svo ekki taka neinar mikilvægar ákvarðanir í þeim mánuði, heldur leyfðu honum bara sigla eins rólega framhjá og þér er unnt.

Þú verður í essinu þínu með fjölskyldunni, ástinni og vinum og nýtur afburðavinsælda, meira en aðrir geta státað af, en sýndu auðmýkt og lítillæti.
Þú græðir á fjárfestingu eða færð greitt fyrir fram fyrir eitthvað sem verður þér ekkert svo erfitt að framkvæma, en það eina sem getur bitið þig, elsku hjartað mitt, er þráhyggja, svo hugsaðu um eitthvað sem þú þráir endalaust, þannig að ekkert annað komist að, því það er góð þráhyggja.

mbl.is