Mörg ný verkefni

Vatnsberinn 20. janúar - 18. febrúar

Elsku hjartans Vatnsberinn minn, þetta ár stendur fyrst og fremst fyrir að styrkja andann og efla líðan og taka öllu með ró fyrstu mánuði ársins. Þér finnst þú sért búinn að vera að bíða og það sem þú vilt gerist ekki á þeim tíma sem þú áætlar, en það er verið að laga til í kringum þig, setja allt á réttan stað og bæta í vængina þína.

Svo er eins og fingrum sé smellt og allt verður samkvæmt áætlun, hvort sem það er nákvæmlega eins og þú sérð það eða hvort alheimurinn er að gera eitthvað enn betra fyrir þig. Treystu því varlega loforðum sem virðast vera of góð til að vera sönn, gerðu allt með varúð eins og um gula viðvörun væri að ræða.

Þegar 90 dagar eru liðnir af árinu, þá sérðu að það er búið að byggja í kringum þig svo fínan status og þú finnur fyrir því hversu stoltur þú ert af sjálfum þér og verkefnunum. Þú verður svo auðmjúkur því það er eins og þú sjáir litina í kringum þig skýrar, og verður næmari gagnvart öllu sem er að gerast. Þú hlærð meira, þetta er eitthvað svo áberandi skemmtilegt.

Það kemur fyrir að fólk heldur að það geti stjórnað þér, eða haft þig í vasanum, en þú veist nákvæmlega hvað er að gerast þótt þú lokir stundum augunum fyrir yfirganginum í öðru fólki.

Sumarið verður frábær tími, þú færð óvænt eitthvað sem þú ætlaðir þér ekki, kynnist fólki sem er svo gjörólíkt þér, lætur óvenjulega drauma rætast sem þú ert með á bucket-listanum þínum, svona eins og að fara í fallhlífarstökk, ferðast um Hornstrandir og upplifa ævintýri tengd ástinni eða einhverju jafn merkilegu. Þetta verður eitthvað svo öðruvísi og skrýtið, smávegis léttgeggjað og margar skemmtilegar sögur myndast á þessu sumri.

Vorið sendir þér mörg ný verkefni og flestum þeirra verðurðu spenntur fyrir og munu þau ganga afbragðsvel og góð útkoma verður í maí, töluvert miklu betri en þú vonaðist eftir. Lífið er í raun og veru byggt á smásögum og þú getur safnað í þykka bók á árinu 2020, þú skilur allt svo miklu betur, af hverju þetta eða hitt er að gerast, hvers vegna þú ert eins og þú ert og lærir að elska sjálfan þig meira og leyfir þér meira.

Það er eins og þú hafir tekið bita af epli skilningstrésins og þess vegna sérðu skýrari liti og hvernig þú munt ná þeim árangri sem hentar þér best og þessi tilfinning verður svo smitandi að þú laðar að þér miklu meira en þú bjóst við.

Áramótaknús og kossar, Sigga Kling

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »