Krabbinn: Þú breytir ósigrum í sigra

Elsku hjartans Krabbinn minn,

það er eins og þú sért að upplifa fæðingu, þú ert að ganga í gegnum tímabil þar sem þú óttast að ekkert sé að virka eins vel og þú vilt og í þessari stöðu sérðu svo miklu skýrar eitthvað nýtt eða gamalt sem þú getur breytt í svo magnaðan hlut eða viðburð.

Þegar myrkrið er mest eru möguleikarnir flestir, því það er í eðli þínu að breyta ósigrum í sigra, þú getur sagt margar sögur um það. Núna heldurðu áfram af mun meira kappi en þú bjóst við, þú skrifar, skapar eða hrindir í framkvæmd nýjum verkefnum sem þú bjóst jafnvel ekki við þú gætir eða myndir framkvæma.

Það er svo sterkur verndarengill í kringum þig og heilun sem lýsir leið út í gegnum líkama þinn og huga og þú færð auka kraft til að rækta sjálfan þig og þú svo sannarlega býður bæði gamla og nýja vini velkomna og þá verður kátt í höllinni.

Þú hefur verið svo rausnarlegur og gjafmildur í gegnum tíðina og þessvegna á þér svo sannarlega að líka vel við þann karakter sem þú hefur að geyma, blessa hann og knúsa og þú munt sjá og upplifa svo margt á örskömmum tíma eins og þú lesir bók eða bækur á nokkrum mínútum.

Þér mun líða vel því þú hefur ekkert að óttast, erfiðleikarnir búa í fortíðinni en þeir eru í raun og veru það sem hafa gert þig að þessari margbreytilegu manneskju sem þú ert, en þú færð ekki allt tilbaka sem þú hefur lánað, gefið eða tapað, svo láttu það ekki verða þér fjötur um fót eða hindra þig í þínum markmiðum því þá festistu í fortíðinni og þar viltu ekki vera.

Persónur og leikendur sem hafa verið eða eru í lífi þínu, skapa mikinn drama á næstunni, en það er þín ákvörðun hvort þú látir það hafa áhrif á þig eða þér finnist gaman að leika þér að eldinum, þitt er valið og ég segi við þig að það er dásamlegt líf að vera dramalaus Krabbi

Vorið býður upp á ferðalög sem þú gætir grætt svo heilmikið á, ekki bara skemmtun heldur eitthvað stærra og merkilegra en þig grunaði.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is